26.7.18

Að missa sjónar á tilganginum.

Þingfundur, haldinn á Þingvöllum 18. júlí sl. hefur vakið upp fádæma úlfúð í fjölmiðlum og keppist hver um annan þveran að lítillækka andstæðinga sína í málinu. Segja má að umræðan einkennist svolítið af uppskafningshætti, eins og Þórbergur Þórðarson lýsti slíku.

Eitt dæmið er að helsta umræðuefni fundarins, Pia Kjærsgaard, er alltaf kölluð forseti danska þingsins, þegar starfstitill hennar er formaður (formand), skv. heimasíðu danska þingsins. Annað dæmi um uppskafningshátt er það að veita konunni heiðursorðu fyrir að skjótast örstutt á fund. Sú ráðagerð leiddi til þess að íslenskur handhafi fálkaorðunnar skilaði sinni.

Þannig má lengi telja. Það sem kórónar málið er svo yfirlýsing íslensks þingmanns sem lýsir téðri Píu og flokki hennar þannig að ekkert í stefnu danska þjóðarflokksins eða málflutningi Piu bendi til kynþáttahaturs. „Danski þjóðarflokkurinn er dæmigerður félagshyggjuflokkur sem setur velferðarmál í forgang, einkum málefni aldraðra og öryrkja.“

Ef farið er inn á facebook síðu DF (Dansk folkeparti) má sjá fjölda fullyrðinga sem bera með sér útlendingahatur og rasisma, þó svo núverandi formaður flokksins hamist við að bera slíkt af sér. Að mínu viti er það mjög hættulegt þegar fólk les fullyrðingar eins og þar koma fram og segir svo berum orðum að yfirlýsingar flokksins séu ekki mengaðar af kynþáttahyggju.

Það er kynþáttahyggja og þar með rasismi að draga fólk í dilka þannig að heil trúarsamfélög, þjóðahópar og svo framvegis, séu hvert um sig sett undir einn hatt. Til dæmis að telja alla islamska einstaklinga líklega til hryðjuverka, eða að útlendingar komi eingöngu til landsins til að ræna og rupla. Hvort tveggja má lesa á fyrrgreindri fésbókarsíðu. Og þá má spyrja sig hvort ekki sé rétt að loka á bandaríska ferðamenn? Þar í landi voru gerðar 44 skotárásir á skóla árið 2017 og það sem af er árinu 2018 eru þær orðnar 28. Ef við berum þetta saman við önnur lönd, er þá nokkuð annað að gera en loka á þessa glæpamenn sem Bandaríkjamenn virðast vera?

Svarið er vitaskuld nei. Það að maður sé tiltekinnar trúar, kynhneigðar eða litarháttar, gerir hann ekki að glæpamanni. Það er innra eðli hans sem málið snýst um.

Við erum um 350 þúsund með lögheimili eða íslensk vegabréf hér á landi. Það eru tugþúsundir Íslendinga búsettir erlendis. Að auki má minna á að fjölmargir Íslendingar hafa búið erlendis um lengri og skemmri tíma. Við sem það höfum reynt þekkjum fólk af öllum mögulegum trúarhópum eða af margvíslegu þjóðerni, svo nokkuð sé nefnt. Við vitum að flestir jarðarbúar eru einfaldlega að reyna að lifa af við allskonar aðstæður.

Við erum hluti af heimssamfélagi um sjö og hálfs milljarðs manna. Menn tala um í danska þjóðarflokknum að varðveita þá Danmörku sem þeir þekkja (Danmark vi kender). Hvaða Danmörk er það?

Ef við yfirfærum þssa hugsun um Ísland, - hvaða útgáfu ætti að varðveita? Adolf Hitler sendi hingað sendiherra sinn árið 1939. Hann hét Werner Gerlach, og átti að finna á þessari afskekktu eyju hina hreinu aría sem hér áttu að búa í einhvers konar náttúrurómantík. Sú von hvarf enda auðvelt að sjá að frá fyrstu öldum byggðar hafa búið hér, nú eða komið við, einstaklingar af margvíslegum uppruna.

Það að flagga rasisma sem einhverju öðru en hann er, finnst mér stórhættulegt. Rétt eins og var á tíma Gerlachs hins þýska. Við leysum ekki öll heimsins vandamál en við getum lagfært margt með því að horfa á fólk sem manneskjur og vera ekki að velta okkur upp úr trú þeirra, litarhafti eða öðru.

Mér er það hulin ráðgáta hvers vegna verið var að blanda danska þjóðþinginu í málið og jafnframt hvers vegna einhver stöðvaði það ekki löngu fyrr að þessi kona kæmi? Það þarf eingöngu að fletta örskotsstund á netinu til að átta sig á því hver hún er. Það þarf hvorki mikla fyrirhöfn eða þekkingu í dönsku til þess. Hún er sögð, eða segist vera, andsnúin fjölmenningu og innflytjendum og á upplýsingasíðu um hana segir á enskri tungu: „Her success has been an inspiration for anti-immigration and anti-Islamic movements throughout Europe.“

Og að þessu lesnu hefðu menn átt að leggja hugmyndina á hilluna og panta einhvern annan Dana. Líklega flesta aðra Dani. En svo fór sem fór og fyrir vikið er nær enginn meðvitaður um efni fundarins en allt í uppnámi vegna þessarar konu.  

Ég er sleginn yfir því að forseti alþingis skuli bjóða svona gesti til alþingis. Ekki síst út frá málflutningi flokks hans.

Mér finnst óviðeigandi, gagnvart öllum þeim sem hér á landi búa og falla undir haturshópa Piu Kjærsgaard og vina hennar, að alþingi skuli bjóða svona manneskju til landsins.

Ég er þó mest miður mín vegna þeirra sem reyna að klóra í bakkann og verja þessa uppákomu, ekki síst þegar Piu Kjærsgaard er lýst sem innblæstri fyrir þá sem kynda undir kynþáttahatri og illindum milli þjóða og þjóðfélagshópa. Það á ekki að sakast við þá sem vildu ekki taka þátt í þessum furðulega leikþætti eða átelja þá fyrir dónaskap.

Þetta var einfaldlega klúður og þar við situr.

 

 

17.7.18

Smá viðbót og kannski svo myndir!

Sæll lesandi góður.
Ég tek til við skriftir í smástund því mæðgurnar ákváðu að fara í IKEA en ég sótti um hæli hér á Rue Washington 177 af mannúðarástæðum - og fékk það.
Svo nú er eins gott að standa sig.
Ferðin frá Síena til Viareggio gekk afar vel. Eins og fyrr má lesa er ekki langt milli lestarstöðvar og hótels, en að vísu brött brekka. Svo við ákváðum að ganga, enda er brekkan alsett yfirbyggðum rúllustigum því neðst í brautunum er smá verslunarmiðstöð sem sá sér akk í þessu snjalla kerfi.


Við vorum heldur snemma niðurúr og áttuðum okkur á því að við vorum kominn á pallinn það snemma að næsta lest á undan þeirri sem við vildum taka var á pallinum. Við sömdum snarlega við lestarvörðinn um að við mættum nota miðana okkar í þessa og vorum því komin til Empoli tímanlega fyrir lestina sem átti að fara til Viareggio klukkutíma fyrr en okkar miðar giltu,
Lestarvörðurinn í þeirri lest samþykkti að við kæmum með svo við vorum komin alla leið löngu fyrr en við ætluðum.
Málið með lestarmiðana er að þeir gilda í fjórar klukkustundir eftir að þeir eru virkjaðir, en það miðast við brottfarartímann sem miðað er við þegar miðinn er keyptur. Það er ekki hægt að láta þá gilda fyrr nema með leyfi lestarvarðanna.
Svo við vorum þakklát ítölskum lestarsstarfsmönnum!

 Við fengum okkur taxa frá lestarsstöðinni til hótelsins okkar og fengum hebergið umsvifalaust.
Snyrtilegt - vinalegt - ljómandi!
Við skiptum snarlega um föt og róluðum okkur niður á strönd og hófst nú hæg bökun sem stóð í nokkra daga með eðlilegum snúningum og smurningum.
En lítum á eitt og annað en sólbaðssiði okkar hjóna.

Viareggio er smábær í Toskaníu og er reyndar aðallega þekktur fyrir fjörurnar en það var ekki mikil mannmergð þarna. Strendur eru allajafna í eigu hótela eða einkaaðila sem leigja þær út og bjóða ýmsa þjónustu í leiðinni. Næsti bær til norðvesturs og samhliða er Di Camaiore og er líka strandbær.

Milli bæjanna, meðfram götunni sem Hotel Mercure stóð við, er skurður eða árfarvegur, fullur af öndum, bjórum, svo var einn hegri og annaðhvort litlir bjórar eða stórar mýs eða r*****. Ekki rætt frekar.




Þetta er útsýnið út af svölunum okkar!
Þarna eru esplanöður og prómenöður sem verða fjörugri á kvöldin og verslanir sem eru opnar meðan von er á kúnna, auk matsölustaða og ísbúða af allskonar gerðum.






Veitingastaðirnir auglýsa sig sem staði sem bjóða frutta di mari eða ávexti hafsins. Ítalirnir kunna vel að meta þetta og kaupa sér skeljar og hvað eina. Þetta rennur niður eins og enginn sé morgundagurinn og allir sælir.
En.
Stóra vandamálið sem kom fljótt í ljós var að nær hver einasta veitingaþjónusta í innan við 10 km færi meðfram ströndinni selja annaðhvort 90% sjávarfang eða ís. Og ef pantað er pasta eða annað þá liggur ekki fyrir hvort fiskurinn sé nægjanlega aðskilinn frá öðru.


Konan mín er með fiskiofnæmi!
Nú fórum við í Maríu og Jósefshlutverkin okkar og svengdin jókst en fisklitlum eða fisklausum stöðum fækkar ekki.
Prómenaðan er mæld. Áður en við vitum af þá erum við komin í miðbæ Viareggiore.
Við fengum góða göngu út úr þessu öllu og voru verulega svöng þegar við fundum eitthvað sem hentaði.
Okkur var bent á að eftir því sem við kæmumst lengra frá ströndinni þá væri minna um fisk en við fórum aldrei svo langt!


 


Þetta er hluti Alpanna sem hérna sést á myndinni.










Það er svo aftur á móti merkilegt að á Ítalíu, og víðar í Evrópu, virðist stór hluti fólks eiga við vankunnátta í biðraðamálum að etja, sem og skort á virðingu fyrir biðröðum. Ítalía er nú einu sinni vagga vestrænnar menningar en biðraðir þekkja þeir ekki nema síðustu metrana í öryggisleitinni á flugvellinum. Sama virðist gilda  um Belga.
Ef maður passar ekki að sjá til þess að aldrei myndist bil milli þín og næsta manns fyrir framan þá líta margir á að þú sért að bjóða pláss.
Mjög gott dæmi um hliðstæða hegðun er það þegar undirritaður var að búa sig undir að bakka inn í stæði og sem ég setti í bakkgír þá skaust smábíll inn í stæðið snarlega og ökumaðurinn horfinn á meðan ég var að átta mig á hvað hefði gerst og með hverju ég ætti að berja hann.

Við skutumst til Lucca til að rifja upp gömul kynni. Lucca er sífellt að verða vinsælli og meira um touristico þar. Gamla hringleikahúsið var samt á sínum stað og hitinn náði þrjátíu gráðum.
Þröngar götur og stræti heilluðu eins og fyrir sjö árum.



 











 Og það var heitt!
Eitt af því sem gat verið pirrandi þegar maður lá á ströndinni dormandi í einskonar vatns-/bjór-/ hitavímu, var það að að vera vakinn upp af værum blundi á sólbekknum af sölumanni eða konu sem vildi selja manni geisladiska, fatnað, sólgleraugu (alvöru Ray ban á fimm kall), skartgripi og hvað eina. Ég varð nú heldur hvass við tvo og eftir það fengum við frið að mestu í nokkra daga. Þó tók steininn úr þegar afar huggulegur sölumaður kynnti sig sem sölumann fyrir hönd Pandora skargripa.. Hræbilligt sör og algjörlega ekta. Heilu armböndin.
Svona var ég nú utan við mig að kaupa ekki meira af þessu gjörekta og hræbilliga dóti sem var kallað real genuine Pandora India...
Eða ekki.
Sumir sölumennirnir gátu verið ágengir og spurðu til nafns. Einn spurði mig þjóstuglega af hverju ég vildi ekki segja til nafns, þjóðernis eða útskýra af hverju ég vildi ekki eiga viðskipti við hann.
Ég sagðist ekki þurfa að kynna mig, ekki þurfa að útskýra eitt eða neitt og bað viðkomandi að fara.
Ég skildi nú ekki hvað hann sagði þegar hann gekk í burtu það var ekki ítalska og ég ser viss um að þar var verið að lýsa okkur og ekki verið að hrósa.
 
 
 
Skrifa myndatexta

Tólfta júlí, afmælisdag Gulla, héldum við hátíðlegan enda í síðasta sinn áður en Gulli litli lendir á 40 ára afmælinu. Af því tilefni fórum við út að borða á Grand hótel o Riviera. Og madre mia. Það var gaman. Maturinn, framsetningin, þjónustan. Þvílíkt og annað eins.
Alvöru staður.
Myndin er af afmælisbarninu...
 
Ég verð að nefna hér tvennt.
Annars vegar starfsfólkið á Hótel Mercure.

Fínasta hótel og við náðum góðuð sambandi við nokkra, þau Matteo í móttökunni, Franzesku og Simonu, auk Mikaels á veitingahúsinu, svo nokkur séu nefnd.
Aftur á móti var það hindrun að ég kunni yfirleitt minna í ítölsku en þau í ensku og því gátu orðið til aðstæður þar sem maður fékk eitthvað allt annað en maður taldi sig vera að panta.



Þessi kjötsneið var perfecto!








Hins vegar fólkið á Lido Pinocchio sem var ströndin sem við sóttum hvað grimmast. Eftir tvo daga þar þá nennti strákurinn á barnum ekki að rukka mig um tvær og tvær flöskur af sódavatni. Hann bað mig í guðsbænum að gera upp í lok dags. Við sóttum enda aldrei minna en þrjá lítra á dag á hvort okkar, auk annarra drykkjarfanga, íss og svo framvegis. Bara þangað!
Það var frábær þjónustan og viðmótið. Svo ef þú ert að fara til Viareggio þá mæli ég með Lido Pinocchio.




Því verður ekki neitað sumir hafa fylgst svolítið með HM í Moskvu sem var á lokasprettinum þegar við vorum í Viareggio.
Þar kristallaðist  aftur og aftur réttlæti knattspyrnunnar sem verður aldrei að betra liðið vinni, það lið sem er meira með boltann vinni og svo framvegis. Þar ríkir eingöngu eitt réttlæti. Sá sem skorar og skorar fleiri mörk en mótherjinn vinnur. Punktur.

Reynar færðust leikar upp um nokkrar hæðir þegar við komum til Brussell því við horfðum á bronsleik Belga og Englendinga á La Marche Chatelain torgi ásamt stórum hópi sem var í miklu stuði með sína menn (Belga). Ég varð að viðurkenna að ég héldi jafn mikið upp á bæði þessi lið og gæti því illa gert upp á milli þeirra en Belgar náðuð verðskulduðum sigri og hrepptu því bronsið.

Vídeóið er frá því er Fransmenn skoruðu úr umdeildu víti

Svo fórum við aftur á sama torg daginn eftir og horfðum á Frakka og Serba takast á í sögulegum úrslitaleik. Aftur var ég í vanda því mér var eiginlega jafn illa við bæði liðin til að langa til að halda upp á annaðhvort frekar en hitt...
 
Ég naut þess bara að horfa á tvo leiki í beit þar sem ég var sultuslakur.
Fagnaðarlæti stuðningsmanna Frakka voru einlæg í leikslok og mikil stemming á torginu þegar verðlaunin voru afhent!


Núna standa fyrir dyrum flutningar hjá Ástu Sigrúnu og svo heimferð svo það er ekki ljóst hvenær næst gefst tími í blogg svo við segjum bara
Au revoir, arrivaderchi, we'll meet again og allt það!






6.7.18

Enn ein mynd af Ítalíú

Siena tók okkur með trompi. Hún er allt öðruvísi en t.d. Ravenna. Ravenna er reist á sléttu en Síena á hæðum. Hápunktar Ravenna eru trúarmannvirki frá ármiðöldum og mósaíkverk. Síena er borg borgara og fjármuna frá því að miðaldir náðu hámarki og fram að endurreisn. Gamli bærinn í Ravenna er fljótgenginn en í Síena er gamli bærinn risastór, meira og minna allur á fótinn eða undan fæti eftir atvikum.
Síena er full af fólki. Það er dálítið af útlendingum (þ.e. ekki Ítölum) en það er líka mikið um Ítali. Það er sem sé mikill heimamannatúrismi hér. Við erum farin að rata svolítið og átta okkur á meginstaðsetningum. Maður er fljótur að sjá að þegar maður nálgast stóru staðina þá fjölgar búðunum á leið manns. Það e svolítið um lundabúðir en meira af sérhæfðum túristabúðum með muni úr rótum ólífutrjáa eða sérunninn leir.

Þessi borg er raunar alveg einstaklega sérstök og okkur finnst báðum hún vera góður staður að koma á.

Morguninn fór svolítið í að klára símamálið en það tókst og nú var farið að spassera um þessa fallegu borg. Ég fann mér hatt og veitti ekki af. Kollvikin mega ekki brenna. Við litum við hér og þar á leið okkar og tókum eftir því að víða voru smábúðir, oft reknar, að því er virtist af hjónum, vörúrvalið lítið en gekk samt.

Við fundum Il Campo sem er aðaltorg Siena og segir mikla sögu um þroskaferli þessarar borgar. Einhvern tíma á miðöldum ákváðu menn hér að taka saman höndum, mynda borgarsamfélag þar sem þeir sem voru frjálsir og karlkyns og stóðu fyrir sjálfum sér lögðu í púkk, gerðu varnarvirki og skipulögðu rekstur borgar, öfluðu vatns, fæðubirgða og annars sem borg stóð fyrir. Þeir voru í alfaraleið pílagríma frá Frakklandi til Landsins Helga og öfugt. Þeir voru öflugir í Túskaníu og í töluverðri samkeppni við Flórens sem var á sömu leið. Það var mikilvægt að veita þessu ferðafólki húsaskjól, veita læknisþjónustu og fleira og þetta gerðu forsvarsmenn Síenu.

Sett voru regluverk og kerfi og þetta gekk allt vel, fjármagnið streymdi að, elsti banki borgarinnar er frá 15. öld.

Þarna við torgið er gríðarlegt ráðhús og röð stórra húsa sem byggð voru af stéttarhópum eða gildum þeirra. Torginu er skipt í níu reiti sem samsvara þeim fylkingum sem borginni stjórna og hverfum hennar. Tvívegis á hverju ári eru haldnar miklar veðreiðar við torgið þar sem íbúar leggja á sig að taka þátt og keppa um Il Palio sem eru verðlaunin fyrir þetta. Þá er hringurinn umhverfis torgið lagður þykku sandlagi því varla er hægt að láta járnaða hesta hlaupa á hellunum. Þetta er 2. júlí og 17. ágúst.
Svo gengum við út að Duomo, dómkirkjunni en það er nú meira mannvirkið. Förum í það á morgun. 
Langt var liðið á dag þegar við komum heim. Fyrst skyldi snætt á Fonte Giusti og svo farið á aríutónleika. Hvort um sig var frábært og það var gott að komast í ból og hvíla þreytta fætur. 
Í dag, föstudag héldum við svo haldið áfram að skoða. Dagurinn fór í dómkirkjuna. Og dugði varla til.
Dómkirkjan í Síena er gríðarlegt mannvirki og var aldir í byggingu. Segja má að verkið hafi byrjað á þrettándu öld og lokið að mestu tveimur öldum síðar. Síðan þá hafa átt sér stað breytingar og viðbætur. Fyrirmyndin er klárlega dómkirkjan í Flórens. 
Kirkjan sjálf er stórfenglegt dæmi um það þegar menn eru að leggja meiri peninga en smekkvísi í hlutina. Hún er full af listaverkum, gólfin og stéttarnar eru myndskreyttar. Það er lítið bókasafn fullt af kaþólskum nótnabókum. Maður getur farið og skoðað safn gripa sem hafa verið einhvern tíma á eða í kirkjunni og skipt út. Annað safn er skírnarkapella full af listaverkum og enn eitt er Crypt eða grafhýsi sem er fullt af freskóverkum sem ekki var vitað um fyrr en 1999, ótrúðlegt. Inn af þeirri kapellu er hægt að fara undir núverandi kirkju og skoða hvernig kirkjan er reist, ekki aðeins á rústum eldri kirkjunnar heldur beinlínis hvernig stóra kirkjan nýtir eldri kirkjuna sem undirstöður.
Loks fórum við í gamla kapellu þar sem maður sér stórfenglega glæsilega margmiðlunarsýningu um sögu borgarinnar. 
Nú var svo komið að meira að segja fornleifafræðingurinn (eða á að segja forngripurinn) var búinn að fá nóg af gömlum kirkjum og söfnum. 
Nú var að fá sér að drekka, koma sér heim, skipta um föt, fá sér að borða og horfa á glæstan sigur Belga á Brasilíumönnum. 
Svo er það Viareggio á morgun.
Það verður ekki meira bloggað í bili nema tilefni sé til. AÐ vísu verða settar inn myndir en þetta er nóg að sinni!
Kveðja frá Síena.   

 

5.7.18

Spennusveiflur og símamál?

Eftir allt kirkjuplampið var kominn tími á jarðbundnari mál. In vino veritas - in birra something else.
Eftir smá stopp var stefnt heim í fataskipti og svo reynt að ráða í  hvar skyldi borða. Óneitanlega togaði leikur Kólumbíú og Englands í mig. Ég er búinn að vera ofsalega þægur...
Leikurinn var langt kominn í seinni hálfleik þegar við settumst niður hjá Mariani, inn í gamlan bíósal og horfðum á.
Smá útúrdúr.
Fyrsta kvöldið okkar snæddum við hér. Frábæran mat og frábær þjónusta.
Við leituðum annað kvöldið en einhvern veginn æxlaðist svo að þjónninn góði frá kvöldinu áður vinkaði okkur og við snæddum þar öðru sinni - ekki síðra.
Þriðja kvöldið fórum við annað - af prinsípp ástæðum. Allt í góðu - ekkert ofurspes.
Svo við akváðum að slást í hóp aðdáenda Kólumbíu og fylgdumst með lokum seinni hálfleiks, framlengingu og vítakeppni sem England vann.
Ég held að við höfum aldrei borðað þrívegis á sama stað á ferðalagi. Ekki einu sinni veturinn 2003-4.
Gengum í að pakka þegar við komum heim og svo var snemma upp til að koma okkur í lest til Síena.
Við pöntuðum bíl. Það tók lengri tíma held ég að lesta hann og aflesta en að aka upp á stöð. En við erum með mánaðarfarangur svo það að ganga í tíu - fimmtán mínútur í akandi umferð var out of the question.
Lestarferðin gekk vel NEMA Sigga var viss um að lestin frá Flórens til Síena væri að fara allt annað. En það lagaðist.
Hitt var verra. Þegar lestin (sú sama) var langt komin kom starfskona lesltarinnar og ruddi öllum af stað þar sem loftkælingin var biluð. Henni lá svo á að við rukum upp til handa og fóta og Sigga lagði símann frá sér ofan á ferðatösku. Við fórum eftir fyrirmælum konunnar nema þar sem ég stóð akkúrat á milli lestarvagna heyrði ég eitthvað detta, fann það detta á tærnar á mér og sá þetta eitthvað fasra niður um gat í gólfinu niður á lestarteinana. Síminn minn hugsaði ég og get ekki lýst því hvað mér létti og hversu hryggur ég var þegar við komumst að því að þetta var ekki minn sími heldur Siggu.
Við renndum inn á Síena sentrale, Sigga hálf handalaus. Við leituðum af okkur allan grun og kölluðum hálf hnuggin á taxa.
Hótel Italía? I know it well.
Vegalengdin er hugsa ég heldur lengri en á milli Lyngbergs 17 og 25...
Vel tekið á móti okkur, herbergið snilld og flaska af Spumante frá Feneyjum, þvílíkt gæðaöl.
Við útveguðum nýjan síma með ítölsku númeri og nú er allt að komast í samt lag.
Klukkan að verða átta - Sigga - getum við farið að borða?
Ég tek undir með GM sem lagði það til að frú Sigriður fengi sér svona gormasíma eins og lyklakippurnar sem dragast saman um leið og á þeim er slakað.
Alla vega er ljóst að knattspyrnudrengir geta lifað af í helli neðanjarðar í rúma viku en símalaus getur maður ekki verið og ég held það myndi eiga við mig!
Við fengum okkur rómantískan málsverð í einni af þröngum götum þessarar borgar þar sem saman fara strætisvagnar, bílar, mótorhjól, reiðhjól, gangendur og utandyra kaffihús.
Og ís á bakaleiðinni sem var stærri en við reiknuðum með.
Alltaf að læra.

 

4.7.18

Nokkur atrriði um Ravenna

Ravenna er satt að segja svolítið sveitó en þó gríðarlega sögurík borg. Túrisminn á langt í land þar og sést það m.a. á því að fólk lokar búðum og veitingahúsum yfir hádaginn. Tekur sér síesta.
Eins og lesa má í pistlunum þá vorum við bæði gagntekin af þessari litlu samt stóru borg. Enn ein útgáfan af Ítalíu. Manni mætti meira og minna alúðlegt fólk, tempóið notalegt og engar ferðamannabiðraðir. Sérstakt miðað við það sem þarna má sjá.
Hótelið var frábært að öllu leiti, kannski síst morgunmaturinn en annars snyrtilegt, hlýlegt og alúðlegt.
Héraðsvínin eru frábær. Algengust eru Sangiovese rauðvínin, höfug, bragðmikil og afar góður fylginautur með mat.
Ég mæli með Ravenna, fyrir þá sem leita að ferðamannastað án túrista og fyrir þá sem hafa áhuga á sögu, húsagerð, listum og góðum sögum. Um leið og þeir varðveita söguna þá hafa þeir húmor fyrir ýmsu.
En ég mæli líka með henni fyrir þá sem einfaldlegal vilja fá smá bragð af svolítið gamaldags Ítalíu.
Þessari yndislegu.
Ég meina það!

Ravenna áfram (2. og 3. júlí)

Það er nú svo fyndið að herbergið okkar er ekki með númer. Það eru á því tvö merkispjöld, annað merkt Suite eða svíta á góðri gullaldar íslensku.
Á hinu spjaldinu stendur San Apolloniare, en sá náungi er kannski aðalhetja þessara pistla.
Þannig er að í gær, mánudag, ætluðum við að fara og skoða kirkjuna sem leigubílstjórinn nefndi og við tókum sem Santa Paulina, sem var dýrlíngur sem við höfðum aldrei heyrt um. Ég á að vísu stórfrænku sem heitir Pálína og er stundum svolítill dýrlingur en aðrar Pálínur eru aðallega þekktar úr sönglögum um heldur furðulega kellingu.
Svo áttuðum við okkur á að verið var að tala um San Appolloniare sem var fyrstur biskup kristinna manna hér í Ravenna. Og við hann eru tvær kirkjur kenndar, auk þess sem honum bregður fyrir í fleiri kirkjum.
Sú fyrri og eldri stendur í þorpi sem heitir Classis og er tíu kílómetra utan borgarinnar. Við þangað í strætó númer fjögur og var það fróðleg ferð og skemmtilegt að fara með alþýðunni í svona ferð.
Eftir nokkrar stoppistöðvar sást til kirkunnar. Hún er að hluta til frá sjöttu öld eftir Krist en aðrir hlutar eru yngri. Það var biskupinn Ursinco sem seti verkefnið í gang en annar sem vígði kirkjuna, Maximian (árið 549) og hafði fyrst tryggt að mynd af honum sjálfum væri á góðum stað í kirkjunni...
Classis var svona einskonar varnarhöfn upphaflega og stýrði vörnum Rómvera á Adríahafi. Þegar þarna kom við sögu hafði vörnunum hrakað á sjöttu öld. En þegar Apollonaríus kom á svæðið hóf hann starf sitt í Classis og er raunar talinn jarðaður þar.

 Kirkjan er risastór í dag en hvelfingin yfir altarinu er það sem maður vill sjá. Hún er ekki eins margbrotin og San Vitale.
Hér er Kristur upphafinn til himna og svo fylgja með ýmsar myndir og tákn.
 Þetta er held ég Móses.
 Og hér er Apoloníus sjálfur.
 Það er ekki mikið um auðafleti og allir möguleikar nýttir til að setja fram mynstur eða myndir.
 Tveir af spámönnum Gamla testamentisins.

 Og guðspjallamennirir eru þarna líka.




Það var vel þess virði að taka þennan túr.
Dagurinn fór svolítið í þetta og að auki var plampað um bæinn og svo var plampað svolítið meir.
Classis er að vísu í dag útí ras... afsakið - frekar afskekt á ítalska vísu. Og þegar leið á sjöttu öld þá áttu Classis borgarar sífellt erfiðara með að verjast og verja kirkjuna sem var rænd aftur og aftur.
Nú voru góð ráð dýr.
Þó svo Appolonaris hafi fengið biskupsdóm sinn í Classis þá var hann lengst af í Ravenna. Seinna höfðu biskupar sama aðsetur þ.e. Ravenna. Biskupinn sem áður bjó í Classis og var nú fluttur til Ravenna var fljótur að ákveða sig. Flytja kirkjuna til Ravenna.
Halló. Það eru lok sjöttu aldar. Hvernig á að flytja svona kirkju?
Biskupinn skýrði mál sitt.
Við byggjum nýja. Og köllum hana S. Apollonaris Nuevo.
Og hér er eitt óvanalegt. Hér eru það kirkjuveggirnir - eiginlega ofan við súlurnar sem eru skreyttir með þessari fallegu list.

  
 Hér er hnugginn Kristur leiddur fyrir Heródes. Slík svipbrigði gátu talist umdeild.
Sjáið litbrigðin í þessu!!!




Þetta er bara svo flott!

 Öðru megin kirkjuskipsins eru 20+ karlar sem dóu píslarvættisdauða og voru teknir í helgra manna tölu. Hinum megin voru 22 jómfrúr í sömu erindagjörðum Ævilangur jómfrúrdóur = píslarvættisdauði?


 
QR kóðar miðalda?












Við litum svo við í Skírnarkapellu Aríusar en Aríus var úthrópaður sem trúvillingur vegna hugmynda sinna um guðdóm Krists. Hann átti stuðningsmenn í Ravenna en hugmyndir hans viku fyrir þeim kaþólsku og því var megnið af myndunum fjarlægt - nema hvolfið. Þeir náðu ekki upp í það!
 
 
 



 

2.7.18

Og sváfum vel!

Ég var eins og spýtukarl. Hvenær sofnaði ég? Um kl. 22.30 var það ekki? Og hvað er klukkan núna?

Að verða 9 að morgni? 10 klukkustundir í einum rykk?

 Alla vega, - sturta, morgunmatur og við út. Byrjuðum á Dómkirkjunni. Stór var hún en reist á átjándu öld á rústum eldri kirkju.









En á sömu lóð er skírnarkappella kennd við biskup sem hét Neone og lét ljúka verki sem forveri hans hóf. Hún er elsta uppistandandi mannvirki Ravenna, reist í lok fjórðu aldar. Hún er átthyrnd eins og mörg guðshús þess tíma.







Í miðri kapellunni er stór skírnarlaug úr marmara og lítið altari og fleira sem er frá rómverskum tíma.

















En það eru bogarnir í kapellunni, átta alls, og hvelfingin sem vekja athygli. Mósaík af býsönskum uppruna myndar listaheild sem er ólýsanleg án mynda. Segja má að þarna séu „the usual suspects“ eða postularnir tólf sem mynda umgjörð um mynd af Jóhannesi skírara að ausa Krist vatni. Og þar fyrir neðan eru svo spámenn gamla testamentisins en þeir eru nú minna í hávegum hafðir nú til dags. 
 Smágerðir steinarnir eru ótrúlega margbreytilegir.
Hér er smá endurvinnsla. Skálin er rómversk og stendur á rómverskri súlu eða súlubút.















 


Mannvirkið lætur lítið yfir sér að utan en er stórfenglegt að innan. Og hugsa sér. Þetta er byggt +/- 350 árum eftir dauða Krists. Fyrir 350 árum síðan var verið að byrja að leggja grunn lýðræðis og mannréttinda í Evrópu. Setur mann í samhengi.
 
 
 

Við gengum fram á aðra litla kirkju þar sem var messa í gangi. Fólk í þjóðbúningum stóð út og var að reykja og við spurðum um búningana. Þetta voru Rúmenar að halda einhverja trúarhátíð hátíðlega.

 
 
 
 
Áfram þvældumst við upp og nú var stefnt að St. Vitale kirkjunni og ég var búinn að átta mig á því að hún væri staðurinn.

Á þessari mynd er hinn skegglausi Kristur tákn Góða hirðisins.
Þegar þangað kom byrjuðum við á að líta á grafhýsi konu sem hét Galla Placidia og er sögð stórmerkileg. Hún var dóttir Theodosíusar keisara Rómar og stýrði sjálf ríkinu um tíma, fyrst með föður sínum og svo fyrir hönd Valentínusar III sonar síns meðan hann var barn. Hún lét gera þetta grafhýsi milli 435 og 450, dó sjálf í Rómaborg um 450 og var jarðsett þar en ekki hér í Ravenna sem hún stýrði um árabil. Og aftur eru það mosaíkmyndirnar sem algjörlega heilla. Aftur, raðir af táknmáli, postular og guðspjallamenn, og það er hreyfing í myndunum, blæbrigði, maður horfir aftur og aftur til að sjá hvort þetta sé ekki bara málað. Mósaík steinarnir eru ca 4-5 millimetrar á kant og raðast saman á ótrúlegan hátt.

Og það er meira að sjá.
Við hlið grafhýsisins er St. Vitale kirkjan. Ein af frægustu kirkjum kristninnar. Hún er reist að ósk biskups sem hét Ecclesías og var hér biskup á árunum 522-533. Hann hafði farið til Býsans/Konstantínópel/Istanbul með Jóhannesi fyrsta sem var páfi þá og Ecclesías lét hefja byggingu þessarar kirkju sem var helguð rómverskum hermanni sem lést píslarvættisdauða. Það var bankamaður, Guiliani Argentaríó að nafni, sem lét út þá fjármuni sem til þurfti – og var án efa slatti. Hann lagði út fyrir fleiri kirkjum reyndar, hvað gerir maður ekki fyrir vini sína?

Ecclesíus var annað hvort látinn þegar kirkjan var vígð eða farinn annað og í hans stað vígði Maximian biskup hana árið 548, - en var búinn að tryggja að það væri mynd af honum sjálfum í mósaíkfléttunum sem þarna er að finna.

Kirkjan er átthyrnd og það er ein kapellan sem er öðru fremri af því sem ég hef séð. Það er mósaíkhlutinn. Mosaík myndirnar eru margbrotnar og margslungnar.
Hér koma nokkrar. Ef þú vilt stækka myndina þá smellir þú á hana.
Hér er mynd af Theódóru keisaraynju að færa gjafir. Vitringarnir þrír saumaðir í faldinn og skartið sem hún ber er úr gimsteinum.
Hér er Góði hirðirinn aftur á sögufleka um Móses.

Þakhvolfið. Ég ætla ekki einu sinni að byrja að þýða táknmál þess en bendi á guðslambið í miðjunni og guðspjallamennina.
Hér er Justinian keisari (eiginmaður Theódóru). sjáðu litbrigðin í fellingum fatnaðarins.




Ógleymanlegt.

Mia bella Italia


Flug og ferðir frá Brussell til Bologna voru ekki flókið ferli. Eftir smá spádóma ákváðu lúnir ferðalangar að splæsa í leigubíl en sá fyrsti sagðist ekki fara til Ravenna en benti á næsta sem sagði já.
Ítalía.
Ég er kominn heim.

Það er nánast ekkert sem ég ekki kann vel við á Ítalíu, nema kannski reykingarnar, hjólaliðið og eitthvað eitt eða tvennt í viðbót.
Við sáum minna af Bologna en síðast og bílstjórinn sem ók ekki eins og Ítali og var afar viðkunnanlegur sagði okkur eitt og annað. Hann sagðist alltaf kaupa olíu frá Sardiníu en konan hans er þaðan – hann frá Bologna. Hann talaði einnig mikið um kirkju sem við yrðum að skoða, Santo Paulina eða eitthvað svoleiðis. Það kom á okkur skondinn svipur þegar við áttuðum okkur á að hann var að tala um San Appolinara in Classis, sem er stór kirkja í útjaðri Ravenna.
Ravenna nálgaðist og það runnu á mig tvær grímur því þetta var bara ósköp venjulegur smábær að sjá. Eftir smá samningaviðræður við kortakerfið í spjaldinu sem hann ók eftir vorum við komin að Exclusiv hotel La Reunion. Við út úr bílnum og það var heitt. Eins og í Belgíu. Og hótelið?
Tja það er þó eitt sem Ítalir hafa fengist við frá því á dögum Rómaveldis og það er ferðamennskan.
Alúðin geislaði af manninum við afgreiðsluborðið. Herbergið hreint og fínt og ekki bara herbergi heldur íbúð! Lítil vissulega en eldhús og bað og svefnherbergi.
Við komum okkur fyrir og fórum svo út að ganga. Spurðum í mótttökunni hvar væri gott að borða og okkur var vísað á fjóra staði. Við fórum út og OMG eða mamma mia eða hvað maður nú segir. Ravenna er afskaplega notalegur staður og er að sækja í sig veðrið eftir að hafa verið svona utan sviðsljóssins. Elstu mannaminjar eða borgarminjar eru fá því fyrir 3.500 árum og síðan þá réðu Rómverjar henni, Langbarðar, Austgotar, Páfaríkið, Býsans, Feneyingar og svo koll af kolli.

Hér hafði Oscar Wilde viðdvöl, Byron kom við og Colin Porter og svo má lengi telja. Ekki man ég hvers vegna mig langaði hingað. Var það úr ferðasögum Davíðs Stefánssonar og félaga hans? Var það Nonni (Jón Sveinsson)? Ég man það varla. Og ég man varla hvað það var sem ég þurfti að fá að sjá.
En hamingjan hjálpi mér. Það sem ég fékk að sjá var margfalt magnaðra en nokkuð sem mér gat dottið í hug.

Á kvöldröltinu kom í ljós margbrotin saga þessarar borgar. Hér eru hallir Feneyinga, nýklassísk hús og svo fornar kirkjur. Já. Hvort þær eru fornar.
Ég hélt að aðalkirkjan væri Duomo eða Dómkirkjan. Það var öðru nær.
Hér eru Piazza eða torg um allt og eitt kennt við John F. Kennedy. Þarf að finna út úr því.
Piazza Popolo er torg fólksins og þar eru gildishúsin hvert af öðru og út frá því liggur stutt gata og þar eru veitingahús í röðum. Við litum inn á Mariani og hittum þar þjón sem reyndist snillingur í að liðsinna okkur. Þegar við horfðum á vínlistann vonleysislega þá kom hann með rauðvín og sagði mér að smakka. Þetta var vín sem varð til sem samlagsvín úr héraðinu og var yndislegt. Maturinn frábær og hann kvaddi okkur með handabandi. Við röltum stóran hring og komum að San Vitale kirkjunni og mörgum öðrum mannvirkjum en nóttin nálgaðist og við fórum södd að sofa.

 

29.6.18

Mín fagra og fjölbreytta Brussell

Það var svefnhöfgi í okkur þegar við rifum okkur framúr daginn eftir þetta langa ferðalag.
Við fórum með Ástu Sigrúnu að skoða íbúðir.
Hún tók á móti okkur af öllum sínum kærleika og gleði. Um nóttina þegar við komum heim beið smá hressing og morgunmaturinn var ekkert slor.
Það er sosum ekki margt af þessum degi að segja þannig. Við fórum um bæinn og röltum okkur upp að hnjám að venju.

Þegar kvöldaði var rölt af stað í miðbæinn því það beið okkar veisla á stað sem heitir Carnivore. Og þvílík veisla. og framsetning á mat. Og rib eye steikin mín var fullkomlega steikt...
Á meðan lágu Englendingar fyrir Belgum á HM og jók það mjög á gleði borgarbúa er leið á kvöldið.

Nú rennur upp föstudagur og því farið að styttast í næsta flug með Síldarpökkun HF eða Ryan air. Sú vél var reyndar skárri en Wizz air vélin.
Dagurinn hófst á því að ég fór í klippingu, Ásta Sigrún í fótsnyrtingu og Sigga í handsnyrtingu.
Það lukkaðist afar vel og þó verð ég að segja að klippingin var nokkuð meira en ég er vanur.
Fyrst var ég klipptur duglega, því næst var hárið þvegið og ég fékk höfuðnudd sem var stórkostlega gott.
Það sem eftir lifði dags fór í ráp um þessa yndislega fallegu borg sem er full af fólki, Belgum sem tala ýmist flæmsku eða frönsku, útlendingum sem ýmist búa hér (eins og ÁSM), útlendingum sem eru að rápa sem ferðamenn og sjálfsagt eru þau fá þjóðernin, tungumálin, kynþættirnir og önnur atriði sem við notum til að aðgreina okkur, sem ekki eiga hér fulltrúa.
Annars bara leið að kveldi og þær mæðgur eru frábær félagsskapur.
Í fyrramálið er það ferð með Uber frá Rue Washington til Midi, rúta þaðan til Charleroi og flug þaðan til Bologna. Við höfum verið þar áður https://maggibloggari.blogspot.com/2011/07/fari-um-fjoll-og-dali-og-gong.html... og fleiri staði.

Myndir 2

 
 

  Hvolfið í dómkirkju Heilags Stefáns í Budapest.
Altarið með Krist sem hermann Drottins

Forhlið kirkju Heilags Stefáns
 Sendiherra Ghana að skoða lífvörðinn í kastalanum.
Fulltrúi Íslands fylgist með.
Séð yfir Dóná og fegurðin sem Strauss sá er augljós. En hún er ekki blá.
Og í hina áttina.
Og enn ein!
Þinghúsið séð frá fljótinu mikla.
Borgarímynd frá ánni.
Frelsisstyttan þeirra Ungverja. Upphaflega gefin af Sovétríkkjunum og talin merki um kúgun af þeirra hálfu en viðhorfunum var formlega breytt og nú er hún tákn um frelsi landsins.