
Rabbi frændi minn er Rafn Thorarensen, erkitöffari og æringi og einhver albesti frændi sem nokkur maður getur átt. Líf mitt hefði verið litlausara án hans. Hann segir stundum að það hafi verið það besta sem kom fyrir hann að hann var skilinn eftir í pössun hjá ömmu og afa tveggja ára en mér finnst gæfan ekki síður vera okkar.
Rabbi var sjötugur í dag. Hér er hann með Innu (Guðfinnu) konu sinni. Þetta eru sæmdarhjón og gjafmildi þeirra annáluð. Þegar þau eru sótt heim er vel veitt en það er ekki síður hlýjan og vináttan sem af þeim stafar.
Rabbi er einn þeirra sem hefur kennt mér muninn á að rífast af illindum og rífast af heilindum. Ég er ekki útlærður en á hverjum jólum hittumst við og tökum snúning á hverju sem er. Við erum ekki alltaf (kannski sjaldnast) sammála en það skiptir bara engu. Það er alltaf kátt á hjalla þar sem Rabbi er.

Hér er Rabbi með flugmódel á einhverju alþjóðamóti í slíku. Hann er forfallin flugáhugamaður og notar módelin sem farveg.
Rabbi og Inna komu til okkar þegar við bjuggum í Nottingham. Nottingham var ekki beinlínis í alfaraleið frá London en þau komu og það var eftirminnilegt fyrir blanka stúdenta að taka á móti þeim. Sigga nefnir ogt þegar Rabbi afhjúpaði stóran kassa af Black Magic konfekti. Honum hafði verið sagt að þetta væri gæða konfekt en beit í hvern bitann af öðrum án þess að finna það sem hann langaði í. Inna fékk mismuninn...
Fálkagata 14 var hús sem afi og amma keyptu þegar þau fluttu frá Selfossi til Reykjavíkur rétt fyrir stríð. Ég man eftir því og umhverfi þess sem stórfenglegu. Húsið var stórt, bíslagið stórt, lóðin stór og skúrinn (eða voru þeir tveir?) sem voru fullir af dótinu hans afa voru mér sannkallaður ævintýraheimur.


Myndir sýna lítið hús...
Rétt hjá var bakarí og þarna á horninu var kaupmaður. Í gráa húsinu hægra megin bjó Stefán Árnason, bróðir ömmu, sem gekk með staf og mér fannst einkar flottur karl. Húsið á Fálkagötu 14 er vinstra megin, með rauðum þakkanti.
Það eru til margar sögur af Fálkagötunni og mér var hún ævintýraheimur. Ég sá t.d. fyrir mér þegar Skúli frændi elti Rabba til að koma honum í sund og skildi sælu Rabba yfir að fá ís á eftir.
Það er ekki spurning að það að kynnast Fálkagötunni, ömmu minni og frændfólki hefur allt haft jákvæð áhrif á líf mitt og heimssýn en Rabbi frændi er stór hluti af því og mér þykir alveg sérlega vænt um hann.
Rabbi er bara snillingur:)
SvaraEyða