9.7.11

Það er úthald á gamla settinu.

Nei, okkur var ekki að dreyma. Við erum enn á þessu yndislega hóteli og yndislega fólkið tekur á móti okkur í morgumat. Jú, hann er kannski ekki alveg UK style en algjörlega Edduhótelastæl.

Svo er arkað upp á stöð og lestin tekin, þessi með sænska laginu, og lent í Nýjaporti Verónu.

Það er heitt. Veðurspáin gerði ráð fyrir 35°C og akkúrat engum líkum á rigningu. Við fylgjum fólkinu út af stöðinni og stefnum á hið eiginlega Nýjaport sem er reyndar afgamalt borgarhlið. Og við sjáum miðaldaminjar og rómverskar minjar og nýklassík og alveg nýtt. Veróna er allt sem ég hélt. Alvöru ítölsk borg með langa sögu. Eitt sinn kölluð litla Róm og vettvangur átaka síðmiðalda milli Feneyinga og allra annarra sem hana vildu eignast. Frægasta valdaættin hét Scagliari og réð yfir borginni í árhundruð. Og Verónabúar hafa húmor. Þeir segja frá turni sem vinna hófst við á 12. öld. Hann var hluti af varnarkerfi borgarinnar. Byggingu lauk á 15. öld, sem var of seint því Feneyingar hertóku borgina í millitíðinni.

Við æjum á Piazza Bra´ og fáum okkur kaffi. Þar er mikið mannlíf og þar við stendur Arenan, þessi gríðarlegi vettvangur lista sem hefur verið tónlistarmekka frá 1913 segja Verónubúar afsakandi. Arenan var nefnilega reist í kringum Kristsburð. Þarna spila allir. Deep Purple verða þarna 18. næstkomandi og George Michael í september. Og núna er óperuhátíð í 89. sinn. Það á að frumsýna Nabuccho eftir Verdi á morgun en það er þriðja sýning á Rakaranum frá Sevilla eftir Rossini í kvöld. Eigum við? Við nánari eftirgrennslan fáum við miða á sanngjöru verði og sláum til. Sýningin byrjar 21.15 og er búin fljótlega eftir miðnætti. Verónabúar borða fyrst og fara svo í leikhús – öfugt við Milanóbúa.

Hvernig komumst við heim þá? Miðasölustúlkan ypptir öxlum og segir „Prego. Next please“ með áherslu á e-ið í endann.

Borgin er full af fólki á Piazza Bra‘. Og líka í göngugötunum þar út frá torginu. Á torginu eru uppstilingar til að minna á óperuhátíðina, en það á líka að sýna Aidu og La Boheme. Það eru leikarar í allskonar búningum og fólk stillir sér upp í myndatökur og borgar einhverjar júrur í staðinn. Þarna er ung kona í frekar skræpóttum fötum. Spumante flaska límd við hendina og hópur af fólki sem manar hana áfram. Er verið að gæsa? En það er ekki bara hópur kvenna með henni. Það er eins og systkinin og vinirnir séu þarna, foreldrar, ömmur og afar...

Við trítlum niður þröngar göngugötur og erum allt í einu á Piazza Erbe. Þar hangir hvalbein í húsasundi og mun falla á fyrsta réttláta einstaklinginn sem þar fer undir. Við fundum það ekki svo það hangir enn. Þarna er markaður með ávexti og grænmeti og gaman að fylgjast með hvernig lostætt ávaxtasalat verður til - Macedonia. Svo eru þarna standar og borð þar sem kaupa má hvað sem er. Ég er veikur fyrir pennum og sé fjári laglegan lindarpenna. Engin pumpa, engin fylling. Spyr eftir bleki – svarið er að ég eigi bara að dýfa í byttuna... „thanks, but no thanks“ segi ég.

Dálítið af litlum konum að betla þarna, höfum lítið orðið vör við betl fram að þessu en finnst það átakanlegt að sjá gamlar konur með plastglösin sín að biðja ferðamenn um peninga, okkur sem höfum það svo gott.

Ég kaupi mér ódýrt úr. Tveggja ára ábyrgð segir maðurinn frá Kóreu og bætir við að batteríið dugi í tvö til fjögur ár. Ég borga og við vitum báðir að ég mun ekki leita til hans næstu tvö árin vegna ábyrgðar.




Við göngum niður Via Capella og fram á Casa di Giuietta. Og ég er bergnuminn. Mér finnst þetta æði! Hvorki Júlía Kapúlett eða Rómeó Montague voru til. Né ættir með þessum nöfnum. Samt eru þau eitthvert mesta aðdráttarafl borgarinnar. Og svalirnar hennar eru gamalt greftrunarskrín. Stórkostlegt!

Á spjaldi með skýringum er því haldið fram að ættarnafnið Capelle (sem átti húsið) hafi breyst í Capulet en mér finnst ólíklegt að Shakespeare hafi komið til Verona. Hvað þá þekkt ættarnöfn þar eða eigendur svala sem eitt sinn voru greftrunarskrín. En þangað streymir fólkið og það krotar ástarorð á veggina og tekur myndir (rétt eins og ég). Hvað með sagnfræðina? Lifi rómantíkin!

Þá rámar mig í það að þetta er sérstakt ár í sögu Ítalíu – 150 ár frá sameiningu! 17/3/1861.

Við römbum að ánni og meðfram henni, fáum okkur ís (ég sleppi kjúklingakebab með grænmeti ;-() og njótum veðurs og umhverfis. Kíkjum má Duomo sem að þessu sinni er nokkrar kirkjur , þar á meðal ein frá frumkristni. Sérstakt og mikil upplifun.

Á leiðinni hittum við par sem er í vanda. Ungfrúin er með stút á vörum og drengurinn vandræðalegur. Og þetta í borg ástarinnar!

Annars fækkar fólkinu þegar miðbærinn fjarlægist.

Við komum aftur á Piazza Bra‘ og snæðum. Ég fæ mér ommelettu og úr henni blæðir rauðan. Grappa segir Sigga. Oj bjakk segi ég en læt mig hafa það.

Upp úr sjö er fólk farið að raða sér við hliðin að Arena. Við reddum okkur sessum – „the ferrari of cushions“ segir konan.
Við förum að inngangi 69 og þar er að verða troðið. Mér líst ekki á 5-6 tíma setu á steini sem er 37°heitur eftir að sólin hefur skinið á hann allan daginn,- þó ég sitji á Ferrari. Það er þetta eða erfiðleikar með að finna sæti. Við erum ofarlega, beint á móti sviðinu.

Við göngum upp 2000 ára tröppur til að hlusta á 200 ára tónlist árið 2011. Stemmningin er fín næstu tímana. Kall með öfluga rödd tekur nokkur aríubrot hástöfum og fær góðar undirtektir en þverrandi eftir því sem ariunum fjölgaði.
Nokkur spenna er um að ná sér í pláss. T.d. hellti kona sér yfir mig, mest á þýsku. Það sem ég skildi af þýskunni var dónaskapur og frekja svo ég sagði bara „I´m sorry. I do not understand“ og bætti við í huganum „please go away“ sem hún gerði blessunin.
Við sátum þarna í einn og hálfan tíma en þá kom fólkið í fínu númeruðu sætunum, afskaplega fínt, enda kostuðu dýrustu sætin yfir 100 júrur. Við sátum beint á móti sviðinu og ólíkt La Scala sáum við allt og heyrðum líka.
Rakaraóperan er svona rómantík um fólk í dularklæðum og feluleiki og ég man bara plottið í aðalatriðum. En hún er flott. Tveir tímar fyrir hlé. Æ, mig auman. Ég gleymdi því. Klukkutími eftir hlé.






Og þegar allt var að klárast var flugeldasýning! Ég spratt á fætur og klappaði mikið. Þetta var jú ofsalega flott. Ég var líka búinn í Le derrier.

Leigari heim, - strætó hættur að ganga (eða eins og löggan sagði „bus no more“) og lestir líka og þegar við göngum inn í portið við hótelið sá ég nokkuð sem ég hef ekki séð á Ítalíu fyrr. Stjörnubjartan himinn.

15 tíma úthald.

Gott hjá okkur og flottur dagur.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli