Félagi Tryggvi Gíslason gerir kröfu um að Ríkisútvarpið biðji Norðmenn afsökunar vegna smekklauss brandara um Noreg. Fleiri gera slíkt, m.a. Eiður Guðnason.
Ég hef kynnst Tryggva sem er drengur góður og er maður formfestunnar, enda fyrrverandi rektor MA og að auki fyrrverandi starfsmaður Norðurlandaráðs (eða var það Norræna ráðherranefndin?). Nú vil ég taka fram að formfesta er góð, upp að vissu marki. Mér finnst t.d. heldur vont að börn og unglingar kalli forsetann Óla, - þó svo ég sé enginn aðdáandi Óla. En ég ber virðingu fyrir embættinu.
Vissulega má efast um að viðbótin í brandaranum um Noreg í áramótaskaupinu, sem vísaði á fjöldamorð Breiviks, hafi verið fyndin eða smekkleg.
En hvað má þá segja um útreiðina sem forsetinn fékk, allir stjórnmálaforingjar nema kannski Jón Gnarr, svo ekki sé talað um biskupinn, Hörpu, fallega fólkið og svo margt annað.
Ráðherrarnir voru sýndir eins og villuráfandi sauðir og kjánar, foringjar stjórnarandstöðunnar, - annar eins og strengjabrúða en hinn eins og gráðugur rasisti.
Forsetinn var kjöldreginn, forsetafrúin sett í ól, og biskupinn eins og eitthvað sem byrjar á H og endar á viti.
Fannst Tryggva ekkert slæmt við það?
Eins og fyrr greinir fannst mér þessi nojarabrandari smá fyndinn fram að setningunni um Breivik. Mér fannst sú setning hins vegar ekkert móðgandi. Gleymum því ekki að frændsemi Norðomanna er í réttu hlutfalli við hagsmuni þeirra, eins og fram kom í Smugudeilunni.
Æ Tryggvi - tölum um eitthvað sem skiptir máli.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli