Ég var að ljúka við bók sem heitir Gamlinginn sem skreið út um gluggann og hvarf (JPV 2011) eftir Jonas Jonasson (Hundraåringen som klev ut genom fönstret och försvann 2009). Bráðskemmtileg bók sem er eins og Forrest Gump sænskra bókmennta. Allan Karlsson lætur sig hverfa rétt áður en hjúkrunarkonan Alice sækir hann í til að fara í veislu í tilefni af hundrað ára afmælis hans.
Ólíkindaleg og fyndin frásögnin gerir vægðarlaust grín að sænskri lögreglu og velferðarkerfi sem ræður ekki við atburðarás sem ekki fellur að kerfinu. Ekki gerir verra að samhliða er rakin ævi Karlsson en hann kemur við hjá Stalín, Maó, blæs kjarki í Kim Il Jong, borðar með De Gaulle og Johnson og er þá fátt eitt talið, svona ef þú átt eftir að lesa hana.
Hvað eftir annað skellir maður upp úr yfir fáránlegum uppákomum og setningarbrotum. Sem bókmenntaverk er hún ekki í fremsta flokki en sem óvænt og skemmtileg frásögn er hún vel þess virði. Eins og Shaw sagðið (minnir mig) a time you enjoy wasting is not wasted time.
Það eyðileggur ekki að Eskilstuna Kurieren leikur stórt hlutverk.
Aldeilis ágæt bók og afþreying. Ef þeir gera bíómynd – þá mæti ég!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli