9.2.12

Hvers virði?

Það er ekki auðvelt að vera fréttamaður og eiga að skilgreina verðmæti. Ég tala nú ekki um þegar um er að ræða verðmæti sem viðkomandi hefur ekki skynbragð á.
Auðvelt er að meta t.d. fjárhagsleg verðmæti nýju plötu Mugison. Við vitum í hversu mörgum eintökum hún seldist og auðvelt er að kanna hlut listamannsins, meira að segja einstaka kostnaðarliði, s.s. hlut hljóðfæraleikara o.s.frv. En getum við verðmetið hvað það gaf þjóðinni að hann hélt í þrígang sömu tónleikana í Hörpu þar sem viðstaddir greiddu ekkert fyrir miðana og að auki var einum þessara tónleika útvarpað og sjónvarpað? Hvernig metum við slika gjöf listamanns?
Nýverið var sagt frá því hér að eitt lítið lettersbréf hefið fundist í erfðaskrá. OG?
Handskrifað bréf frá Beethoven (hann átti ekki tölvu og ekki ritvél blessaður). OG?
Það er vitnað í ýmsa sem segja það upplýsandi um Beethoven. OG?
En Fréttablaðið setur mælikvarðann (12.1.2012) sem er að hægt sé að selja það á 16 milljónir króna.
Þá er sagt frá því að mynd Balthasars Kormáks (Contraband) muni raka inn þremur milljörðum króna um helgina.  Fæstir velta því fyrir sér hvort einhverjir þeirra sem eyddu í miða á myndina skemmtu sér vel eða mæltu með henni, - nema DV, sem vill þó ekki vera raunverulega neikvætt því þetta er semi íslensk mynd ekki satt og okkur veitir ekki af góðum fréttum.
Þessi hugsun, að meta allt til fjár, er okkur allt of ofarlega í huga. Ég velti því fyrir mér einu sinni hvað dóp kosti í raun og velti því fyrir mér oft og einatt hvort sé mikilvægara markmið atvinugolfara, -  að spila fallegt golf og vinna mót eða að vera ofarlega á tekjulista. Getur vissulega farið saman. Ronaldo hinn portúgalski, er á fínum launum hjá Real Madrid. Sögusagnir i bresku pressunni gáfu til kynna að þegar hann fór frá verkamannaliðinu í Manchester hafi hann átt 80 milljónir sterlingspunda í eignum og lausafé. Eitt pund samasem tæpar 200 krónur gera hvað 1.600.000.000 króna. Það er fjármagn til að reka Flensborg í þrjú ár, - og kaupa jeppa handa skólameistaranum.
Það er talið að tekjur hans Ronaldo frá Real (með bolasölu, boltamerkingum o.s.frv.) séu 20 milljónir Evra á ári. Sinnum 160? Svo eru auglýsingatekjur taldar alla vega annað eins. Einhver reiknaði út að hann hefði svakalegt tímakaup. En á það að trufla mig þegar ég horfi á hann spila?
Eða á það að trufla mig þegar ég horfi á Garly Oldman leika í Tinker, tailoro, soldier, spy, að vita ekki hvað hann fékk í laun?

Punkturinn er þessi: Ef ég horfi listaverk með það eitt í huga hvert verðmæti þess er, þá mundi ég missa af því sem skiptir máli. Sama gildir um Yrsu og Arnald. Mér er algjörlega sama í hversu mörgum eintökum bækur þeirra seldust. Bók Yrsu var ágæt og Arnaldar betri. Mest gaman hafði ég þó af bók um Ástarljóð Páls Ólafssonar. Veit ekki hvort fleiri eintök seldust en það sem ég fékk.

Van Gogh seldi ekki nema eina eða tvær myndir meðan hann lifði og bróðir hans ku hafa horft á staflann sem listamaðurinn skildi eftir og velti fyrir sér hvað hann ætti að gera við þetta óseljanlega drasl.
Ein myndanna sem Van Gogh gerði af sólblómi (veit ekki hvort það er þessi) var seld fyrir metfé til japansks safnara seint á síðustu öld. Sá læsti það inni á öruggum stað. Vincent fékk ekki  arð af því né Theo bróðir hans sem fyrir eitthvert kraftaverk brenndi ekki draslið, enda báðir öngu farnir til feðra sinna. En þegar ég horfi á mynd Van Goghs horfi ég á tilfinningar, kraft, tækni. Ekki verðmiðann.
Mér var einu sinni sagt af manneskju sem keypti sér skartgrip sem kostaði álíka mikið og íbúðin sem ég var þá að basla við að borga af. Ég sá mynd. Mynd er blekkjandi. Gripurinn var aðallega merkilegur af því að demantur sem prýddi hann var stór. Fallegur? Ég hefði aldrei sagt eigandanum að svo væri ekki, - en...

Ég skil vel að blaðamenn eigi í basli með að skilgreina verðmæti eða skaða. Hvort er merkilegra að skemmtiferðaskip sem metið er á X milljarða hafi sokkið við Ítalíu eða að gáleysi skipstjórans hafi kostað 15 manns lífið? Hver af þessum fimmtán á foreldra (2), segjum að jafnaði 2 systkin, 2 börn og ótalda ættingja og vini. Það eru sem sé hundruð manna og kvenna slegin vegna þess að skarð er höggvið í samfélag þeirra. Hvað kostar það?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli