29.2.12

Merkilegt lið

Við erum það. Með glæsta sögu. Merkilega menningu.
Oft velt því fyrir mér með glæsta?
Sagan er glæsileg. Það er t.d. eftir því tekið að seint á 19. öld vildu sveitarfélög flytja ómaga og fátæklinga til Ameríku til að losna við þá. Á sama tíma var Vistarbandið afnumið - af alþingi, - en að kröfu Dana. Alþingismenn voru of uppteknir af sjálfstæðismálinu.
Ómagarnir voru börn, gamalmennni og fatlaðir sem gátu ekki séð sér farboða en voru teknir í fóstur á grundvelli arðsemi.
Glæsileg manngæskan lak af okkur.
Vistarbandið var innleitt á 15. öld til að koma í veg fyrir að íslenskir eignamenn misstu ekki fólk í þéttbýli eða til útlendinga í vinnu. Það tryggði þeim völd, vinnuafl og kyrrstöðu.
Átjánda öldin var að vísu hörmung. Þá voru hungursneyðir og eldgos, örugglega að undirlagi Dana.
Sjálfstæðisbaráttu miðalda lauk með Jóni Arasyni, sem m.a. reyndi að selja landið til annarra kónga en danskra...
Galdrabrennur, limlestingar, brennimörk, drekkingar og fleira. Íslensk valdastétt gætti þess alla tíð að lýðurinn tæki ekki af henni völdin.
Svona má lengi telja. Meðal hetjudáða íslenskra eru fjöldamorð á skipbrotsmönnum, morð á biskupi (sem m.a. reyndi að fá keypt aftur til landsins börn sem íslenskir höfðu selt útlenskum) og morð á norskum konungsmanni og öllum hans mönnum með því að láta þá sænga hjá konum og reyna að drepa þá í svefni að því búnu.
Eigum við að halda áfram?
Í Hrafnkelssögu er maður hengdur upp á hásinunum fyrir að taka hest traustataki. Í Gíslasögu eru endalaus hefndarmorð. Í Njálu fer Gunnar í víking og vinnur sér frægð með því að ræna fólk i öðrum löndum auk þess sem ætla má að líflát hafi verið álíka merkilegur viðburður á Rangárvöllum, - jafn merkilegt og að súpa af horni.
Laxdæla hefst á því að maður kaupir sér konu (beinlínis kaupir), rekkir hjá henni og barnar og fer svo með hana heim til að búa í grennd við eiginkonu sína. Eins  og til að réttlæta þessa nauðgun kemur í ljós að konan sem var keypt var írsk prinsessa.
Tölum ekki um Eglu en hetjan þar drepur mann meðan hún er barn að aldri og dettur í það. Egill á fullorðinsárum ælir upp í annan mann og hann er í raun það sem kallað var í bíómynd - a mean, lean killing machine. Sem sagt ekki fær um að ganga laus meðal almennings.

Já við höfum margt til að vera stolt af.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli