Dagurinn var tekinn rólega. Vitaskuld teiknaði Katrín kort
af nærliggjandi umhverfi, skrifaði upp leiðbeiningar á blað á eldhúsborðinu um
hvað væri að finna í eldhúsinu og á töflu við dyrnar um hvernig ætti að haga
sér í lestunum og við af stað!
Fórum fyrst um Ridley road en þar er samfelldur markaður og
margt að sjá! Gatan er annars vegar skipuð verslunum af allskonar gerð
sitthvoru megin og á götunni eru svo markaðsbásar. Við blasa básar með fataefni,
fiski, grænmeti, kjöti, leðurvöru og svo framvegis. Katrín segir að sagt sé að
þarna sé af og til hægt að fá frumskógakjöt sem sé flutt í ferðatöskum milli
landa. Nammi!
Svo var stefnt á lestina frá Dalston Kingsland að Islington
Highbury (Higbury – hvað var það nú aftur?) og áfram að Oxford Circus. Sigga
(a.k.a. Beth) hefur áhyggjur af unglingamömmum með, að því er sýnist,
hvítvoðunga á ferð um lestarstöðvarnar. Ég aftur á móti stressa mig á hvar
lestir sé að finna og því að fara ekki í öfuga átt. Einhvern veginn snýr þessi
borg rétt við mér en samt geri ég mér enga grein fyrir höfuðáttum eða hvað sé
upp eða niður. Þetta er reyndar helst vandamál á Strikinu í Köben en þegar
Sigga labbar niður Strik frá Nýhöfn fer ég niður Strik frá Ráðhústorginu...
En sem sé!
Frá Oxford circus er steðjað um Soho. Í Carnaby street er
rifjað upp þegar við vorum í brúðkaupi hér 1982. Þá var farið í Fish-and-chips
búð, rétt við Carnaby streer, og tekinn skammtur af fiski og frönskum. Svo
slæddumst við um göturnar en rétt þegar við vorum í miðri tískugötunni rak
Sigga augun í að önnur hendin, sú sem notuð var til að tína í sig matinn, var
tandurhrein en hin harla skítug... Síðan hef ég varla haft lyst á þessum
eðalrétti, - nema með hníf og gaffli.
Við gengum fram hjá Melanies sem er á Old Compton street en
þar sátum við einu sinni og biðum eftir að fara í flug. Við skiptum liði
og Sigga fór í átt að Leicester Square og þaðan í Covent garden en ég í
gítarmátun, m.a. í Denmark street. Sá reyndar einn ferlega freistandi en ákveð
að hugleiða.
Síðan fór ég í átt að Covent Garden.
Við litum á marglitt mannlífið og reyndum að telja
tungumálin og fyrr en varði vorum við komin niður á Strand. "Mikið er ég svangur"
hugsaði ég en Sigga sagði "Mikið er ég svöng! Leitum að Kebab stað." Viti menn.
Allir kebab staðirnir sem við höfum séð í London í áranna rás hurfu snarlega.
Eftir að eigra um götur, fram og til baka, eins og María og Jósep, var settlast á Fögru Ítalíu (Bella
Italia) sem er á fleiri hornum en Starbucks. Þar pantaði ég burger americano en
Sigga antipasti. Eitthvað miskildi þjónninn og færði mér pasta americano. Lét
gott heita enda afskaplega svangur. Alveg ágætt – en borgarinn og kebabinn eru
geymdir til góða!
Að þessari máltíð lokinni var Kebabhús á hverju horni.
Dagurinn leið svo hjá með frekara rölti. Gítarinn góði
hækkaði í hafi og var settur á hold en þegar komið var heim til Katrínar,
Hrafnhildar og Kjartans var okkur fagnað með góðum mat og drykk, auk þess sem
rölt var um bæinn og Hackney skoðuð. Heimsmálin krufin á King George - hvernig væri að fá Katrínu í forsetann?
Það er ekki leiðinlegt að ganga um með manneskju sem kann
allt um svæðið en enn betra þegar viðkomandi sýnir hvað honum/henni þykir vænt
um bæinn sinn. Góður dagur, góður pöbb, allt gott!
Hvað var þetta karma? Jú það er gott karma að fá svona
mótttökur eins og KK HH og KH veita manni. Takk kærlega!
Frábært að lesa. Knúsið KK frá mér og skemmtið ykkur vel! Risa knús
SvaraEyðaÁSM