18.7.13

Dublin tekin með trompi!

Það var blendinn tilfinningaflaumur sem fór um mann á leiðinni í lestinni til Stokkhólms. Maður var í senn glaður, þakklátur, leiður, sorgmæddur... en ferðin gekk vel og við biðum róleg á Arlanda.
Farangurinn okkar tveggja vó precis 40 kíló, samanlagt en önnur taskan 19,2 kg. og hin 20,8 kg. Air Lingus tók vel á móti okkur, nema heldur var þröngt í vélinni fyrir þá sem eru yfir írsku meðallagi. Konan fyrir framan mig hallaði sætinu í fangið á mér en baðst þó afsökunar. Ég hallaði mér líka enda enginn fyrir aftan mig. Engu að síður voru leggir fast skorðaðir undir arma. Það var reyndar vesen því þegar ég stóð upp í Dublin þá var þessi líka veigamikla tyggjóklessa í buxunum!
Freyjurnar fóru á tauginni og skrifuðu allt hjá sér. Ég átti að hafa samband við vefinn þeirra og heimta hreinsun. Á leiðinni út fór ég á toilettið og skipti um buxur og síðan voru fagnaðar fundir þegar við hittum Evu (og Þorra). Hann er sannarlega búinn að aðlaga sig að lífinu í Dublin, - ekur eins og Íri og var ekki lengi að koma okkur niður á hótel, sem er rétt hjá heimili hans. Vel meðmælanlegt – Grand Canal Hotel. Fínt, snyrtilegt, flott morgunverðarborð... og þjónustan alveg einstaklega lipur.

Svo skottuðumst við þessa örstuttu leið til þeirra og hittum Evu og Oisín (og Þorra og Emmu) og var vel tekið. Á leiðinni til þeirra var gengið með árbakkanum en þar var allt á rúi og stúi eftir her ungmenna sem hafði stungið sér til sunds en gleymt að taka með sér eitt og annað, tómar flöskur, sokka o.fl. Þetta var mjö einkennandi fyrir þessa daga enda var glampandi sól og hitinn lék við okkur frá 20-30°C. Við áttum góða daga í Dublin og milli þess sem við sátum á Hanover Quay og spilltum börnunum var flakkað um bæinn. Við litum við í Dublin kastala, sem var mun skemmtilegra en við töldum fyrirfram. Elsti hlutinn er frá tímum Jóhanns landlausa sem var einn aðal hvatamaður þess að leggja Írland undir, milli þess sem fógeti hans slóst við Hróa Hött. Svo er kastalinn eins og arkitektúralt bútasaumsteppi viðbygginga og viðgerða. Þarna er fallegur garður þar sem er m.a. minnisvarði um lögregluþjóna sem fallið hafa við skyldustörf.
Við lögðum okkur fram um að þvælast um hverfi sem við höfðum ekki séð áður.  Fórum beggja vegna árinnar, út og suður og villtumst smá. Eitt gerði ég í fyrsta sinn á þessari öld. Ég settist í rakarastól og lét klippa mig! Bíðið, bíðið!! Og raka ;-)
Við fórum á leikvelli með Evu og almennt dingluðum okkur! Það var gaman að flækjast um Temple bar og Grafton Street, þar voru götulistamenn á hverju horni, margir frábærir, bærinn fullur af fólki, garðarnir og kaffihúsin gjörsamlega pökkuð. Við settumst á pöbb og þar fóru nokkrir glaðbeittir náungar að spjalla m.a. við okkur. Þeir hvöttu okkur til að fara niður á Temple bar, nefna nafn sitt á tilteknum bar. Ég spurði hvort ég mætti skrifa hjá þeim og það var mikið hlegið. Annar kall vatt sér að mér meðan Sigga var eitthvað að kanna í verslun og vildi segja mér frá mávi sem réði ríkjum á Grafton stræti. Hann stingi sér niður eins og orrustuvél og stæli hamborgurum eða öðru úr höndum fólks. Sagan var vel krydduð eins og Írum einum er lagið.
Við fórum um allt, fannst okkur, en síðan rann föstudagur upp og þá þurfti ég að fara downtown eða þannig, úr Dublin 2 í Dublin 9, og sækja bíl. Það gekk vonum framar og ég fékk með honum ratara sem sagði mér vel til um að komast heim á hótel. Mikið var Sigga mín fegin að sjá mig (og ég hana satt að segja). Við lögðum bílnum á hótelstæðinu og svo var farið á flakk með Þorra og krökkunum. Við fórum í Herbert park og þar var mjög gaman þegar Eva litla hljóp til mín og sagði: „Afi, come and play!“

Þetta eru miklar gersemar Oisín og Eva. Hún er algjör gullmoli, hugmyndarík, orkumikil og alveg stórskemmtileg. Hann á eftir að komast á ferð en snýst í hringi til að geta fylgst með systur sinni!
 Og ekki er kvartandi undan gestrisni Emmu og Þorra! Flott afmælisveisla fyrir Emmu!
Næsta mál á dagskrá var að leggja í hann norður í land!
Það er næsta vers!
















Engin ummæli:

Skrifa ummæli