Andsvör við grein Atla Harðarsonar „Hvert stefna íslenskir framhaldsskólar? Menntastofnanir eða þjónustustofnanir?“ sem birtist á slóðinni
http://this.is/atli/textar/skolamal/hvert_stefna_islenskir_framhaldsskolar.htm
og var sótt 6. febrúar 2009.
Ávallt eru skrif Atla Harðarsonar fróðleg, vel stíluð og bera vott um góða menntun. Hins vegar líður mér oft eins og hann leiði mig um völundarhús og gæti þess að dylja mig því að ég á aðra valkosti en þá sem hann býður.
Í þessum texta ætla ég af heimspekilegum vanmætti mínum að benda á nokkra þá valkosti sem hann sleppir, frekar en takast á við hann í þeirri þríhendu rökleiðslu sem hann beitir. Það kann hann af fullkomnun en ekki ég.
Fyrsta útilokun er í fyrirsögn hans. Hver segir að menntastofnun sé ekki þjónustustofnun eða öfugt? Í atvinnuskilgreiningum er starf skóla og kennara fellt undir þjónustu en ekki framleiðslu. Er verið að búa til nýjan atvinnulífsflokk eða verið að leggja til að menntastofnanir séu framleiðslustofnanir?
Einstaklingshyggja
Skóli er menntastofnun sem byggir á uppeldislegum gildum og mati á því hvað nemandi „þarf“ að kunna til að geta starfað og lært meira á tilteknum sviðum. Sú þjónusta sem hann veitir er að sinna þessum þörfum samfélagsins. Í þeirri umræðu sem hefur verið um einstaklingshyggju og skóla fyrir alla er ekki verið að víkja af þessari braut. Spurningin er hvað ræður för. Þannig lít ég svo á að við nálgumst nemandann eftir því hvar hann stendur ekki bara eftir því hvað hann vill.
Þannig er það ekki spurning að nám og menntun eru félagsmótun og uppeldi. Það er einmitt eitt vandamál framhaldsskóla að við erum ekki sammála milli skóla eða innan skóla um uppeldishlutverk okkar eða uppeldisstefnur. Þannig gerist það í skólum að menn troða hver öðrum um tær hver um annan þveran, viljandi og óviljandi. Sögukennarar kenna eina aðferð við ritgerðir og heimildavinnu en félagsfræðingar aðra. Eitt tungumál vinnur eftir portfolio aðferð, annað eftir einhverskonar lifandi tjáningu og þriðja eftir málfræðiítroðslu. Allar geta sannfært skólameistara sem ekki er tungumálakennari um ágæti sinnar aðferðar. Þá eru dæmi um það að námsmat í bókmenntum byggi meira á spurningum um það hver var giftur hverjum en um það hvort lesandinn skildi söguna eða naut þess að lesa hana. Einn er frjálsyndur og merkir ekki við þó nemanda seinki í tíma eða ílengist á salerni og annar er harður nagli og merkir F eftir mínútu frá hringinu. Þetta er innan skóla og fjölmargt mætti tína til fleira. Hvernig á að samræma uppeldisstefnur milli skóla?
Ef við viðurkennum uppeldishlutverk skóla þá getum við vel byggt það á einstaklingshyggju. Við skilgreinum hvað menn þurfa að læra til að verða smiðir eða stúdentar. Við segjum hvað nemandinn þarf að kunna, hvað hann þarf að geta o.s.frv. Ef við teljum að hann þurfi að kunna dönsku til að verða stúdent (eða Norðurlandamál) þá skilgreinum við það á námsbrautina sem búin er til. Við segjum ekki við nemanda „elsku vina, hvað langar þig að læra?“
Einstaklingshyggjan fælist í því að nálgast nemandann sem jafnvel gæti tekið stöðupróf í Norðurlandamáli,- og lokið því, á annan hátt en nemanda, sem á við mikla námserfiðleika að stríða, eða einhverja fötlun aðra, sem jafnvel hefur ekki áhrif á hluti eins og greind eða námsgetu. Er t.d. handalaus eða blindur eða í hjólastól og kemst ekki upp á efsta loft í skólanum þar sem dönskustofan er.
Í fyrsta hluta greinarinnar gefur Atli sér forsendur sem eru í sjálfu sér ekki rangar en tekur ekki með margt sem vantar. Þess vegna finnst mér lokasetningin bæði rétt og röng. Hann gleymir því t.d. ef skóli lagar sig ekki að nemendum sínum þá varpar hann fyrir róða miklu og góðu námsafli og hundsar borgara sem eiga sama rétt og þeir sem eru ekki lesblindir, ekki hreyfihamlaðir o.s.frv.
Inntak menntunar
Í öðrum hluta heldur leikurinn áfram. Hann byrjar á að vitna til 2. greinar laganna frá 1996 og 2008 um framhaldsskóla en fjallar næsta lítið um þær, gefur sér forsendur og leikur sér með þær.
Tökum greinina frá 2008 og þáttum:
Hlutverk framhaldsskóla er að stuðla að
ü alhliða þroska allra nemenda
ü virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi
og þetta er gert með því að bjóða nemendum nám við hæfi. Línan er skír. Áfram heldur greinin.
Framhaldsskólar
ü búa nemendur undir þátttöku í atvinnulífinu og frekara nám.
ü skulu leitast við að efla færni nemenda í íslensku máli, bæði töluðu og rituðu,
ü skulu efla siðferðisvitund, ábyrgðarkennd, víðsýni, frumkvæði, sjálfstraust og umburðarlyndi nemenda,
ü skulu þjálfa þá í öguðum og sjálfstæðum vinnubrögðum, jafnrétti og gagnrýninni hugsun,
ü skulu kenna þeim að njóta menningarlegra verðmæta og hvetja til þekkingarleitar.
Og loks þessi setning sem ávallt stakk mig:
ü Framhaldsskólar sinna miðlun þekkingar og þjálfun nemenda þannig að þeir öðlist færni til að gegna sérhæfðum störfum og hafi forsendur til að sækja sér frekari menntun.
(Taka skal fram að umorðanir og feitletranir eru mínar en ekki efnislegar breytingar.)
Fjóru flokkarnir hans Atla eru ágætir en hafa bara ekkert með lögin að gera. Þau eru harla skír og segja til hvers eigi að líta í námskrárgerð. Vandinn er sá að svona grein hefur verið í lögum frá a.m.k. 1988. Hins vegar hafa námskrárgerðarmenn alla tíð litið hjá þessum texta. Þannig er ekki oft hægt að finna tilvísanir í aðalnámskrám sem settar voru eftir 1996 í þáverandi 2. grein laganna frá 1996.
Fjórflokkun Atla er áhugaverð. Lögin setja þetta upp öðru vísi og lýðræðið krefst þess að við Atli, sem opinberir starfsmenn, hlítum því. Lokasetningin í þessum hluta greinar Atla er hins vegar heldur klén og algerlega röng. „Þegar menn hugsa um skóla sem þjónustustofnun snúa þeir hug sínum frá því, sem ætti að blasa við, að í skóla er nemendum ekki þjónað...“ Hví er nemendum ekki þjónað? Ef ég skrái mig í skóla, er ég þá ekki að sækja þjónustu? Ber ekki t.d. að veita mér faglega útfærða kennslu og kennslu sem er þannig hugsuð að ég geti skilið það sem fram er borið? (ég raunar reikna með að almennt sé það þannig að slíkt sé í boði). Ef ég er blindur á þá að falla vegna þess að ég get ekki skilið það sem stendur í bók sem er ekki sett fram með blindraletri eða sem hljóðbók? Ef ég sem kennari lít svo á að ég geti farið mínu fram án þess að taka tillit til aðstæðna nemenda og að allt standi upp á þá, þá er ég ekki að sinna því sem mér ber. Ég veit hins vegar fullvel að ég er að leggja Atla orð í munn og öfgatúlka það sem hann segir. En eins og hann bendir ítrekað á þá verða menn að gæta sín þegar á brautina er komið og hyggja vel að valkostunum.
Ný framhaldsskólalög og nám til stúdentsprófs
Ég get gert miklar athugasemdir við þriðja hluta en þar er fjallað um stúdentspróf. Hitt er svo annað hvort Atli óttast það að skólar eða stjórnendur þeirra hafi ekki siðferðisþrek til að standast popúlisma og ímyndaðar tilsökunarkröfur frá nemendum um hvað þeir vilja fá. Vera má að slíkur ótti sé raunverulegur. Hins vegar má horfa á þetta á annan veg.
Áður en ég vík að því þá langar mig að minna á það að íslenska menntaskólaleiðin er alls ekki sú eina sem í boði er á plánetunni eða jafnvel ekki sú besta. Ég leyfi mér að benda á tvær greinar í Skólavörðunni (Magnús Þorkelsson, 2005, Um hvað snýst stytting náms til stúdentsprófs? 2005 (Skólavarðan 2005; 5(8)) og Magnús Þorkelsson, Kerfisleg umræða eða fagleg? 2003 (Skólavarðan 2003; 3(7))) einvörðungu til að stytta mál mitt. Þannig er að hér á landi hefur það verið mat manna að það sé gott að halda fólki í stúdentsnámi í framhaldsskóla í að jafnaði fjögur ár og veita fólki á þeim tíma almenna menntun, sem býr það undir lífið og háskóla. Á hinn bóginn fer lítið fyrir þessari almennu menntun (sjá t.d. fjóru flokkana hans Atla) við skipulag verknáms eða starfsréttindanáms. Þegar lesnar eru skýrslur frá OECD (t.d. McKinsey & Company (2007). How the worlds best-performing school systems come out on top. [Án útg.st.]: McKinsey & Company. Sótt 10. október 2007 á þessa slóð: http://www.mckinsey.com/clientservice/socialsector/resources/pdf/Worlds_School_Systems_Final.pdfclientservice/socialsector/resources/pdf/Worlds_School_Systems_Final.pdf.) má auðveldlega sjá að íslenska leiðin er ekki endilega sú „rétta“ eða sú „besta.“ Við skulum halda okkur við stúdentsprófið, eins og gert er í grein Atla, til einföldunar. Þannig má halda því fram að almenna stúdentsprófið íslenska, eins og kjörsviðakerfið hefur þróast, veiti almenna innsýn en litla færni á mörgum sviðum. Því má halda fram að ástæðulaust sé að standa vörð um núverandi kerfi. Það eflir möguleika á löngu námi (skv. því sem starfsmenn menntamálaráðuneytis segja er meðalnámstími til stúdentsprófs á landinu búinn að vera um og yfir fimm ár til margra ára), almennu námi en lítilli dýpt eða lítilli raunverulegri þekkingu nema kannski hjá þeim nemendum sem klára stærðfræðikeðjuna. Þá er því haldið fram, m.a. af mér, að fyrsta árið sé verulega mikil endutekning fyrir stóran hluta hópsins og að það að námsleiði sé vaxandi vandi í skólakerfinu. Það síðasta þykir mér skipbrot fyrir þær greina grunn- og framhaldsskólalaga sem segir að skólastarf eigi að hvetja til þekkingarleitar.
Danir og Bretar fara allt aðra leið. Aðdragandi háskólanáms er styttri og byggir á færri greinum. Samt verður ekki séð að háskólar í þessum löndum standi höllum fæti gagnvart íslenskum. Í Bandaríkjunum er enn ein leið farin í að tengja framhaldsskólastigið og háskólastigið og aftur virðast háskólar þar skila af sér góðum þjóðfélagsþegnum og vísindamönnum þó þeir hafi ekki þessa gríðarlega eftirsóttu almennu menntun.
Hvað er átt við með fullyrðingu Atla „Ef nám á aðeins að mæta eftirspurn ...“ Ef skólinn er þjónustustofnun sem býður ákveðna valkosti þá verða þeir kostir að standast kröfur sem gerðar eru um þá rétt eins og bíll sem þarf að standast öryggiskröfur. Þá þarf einnig eftirlit til að staðfesta að svo sé. Skólar stilla upp námsbrautum sem uppfylla t.d. kröfur háskóla eða atvinnulífs. Það hvernig þeir hjálpa nemendum að ljúka þeim brautum eða mæta þeim kröfum sem gerðar eru er svo annað mál. Það hvernig þessu er þyrlað saman í grein Atla er snilldarleg aðferð til að rugla lesandann í ríminu.
Menntun á markaði og ósýnilegir fætur
Í fjórða hluta er sitthvað sem Atli segir sem ég skrifa algerlega upp á. Ég er sammála því að skólakerfið er á hættulegri braut hvað varðar samkeppni um nemendur. Ég er einnig sammála því að oft er verið að krefjast þess af skóla að hann meti frá annarri menntastofnun gögn sem erfitt er að taka gild. Það að bera saman áfanga í skóla sem býður tveggja ára nám við skóla sem býður fjögurra ára nám, skóla sem býður annarlangt nám (haustönn/vorönn) við sumarskóla sem stendur nokkrar vikur o.s.frv. er erfitt. Þar með er ég ekki að efa gæði hvers um sig. Ég veit bara ekki hvað ég er að meta vegna þess að mælikvarðana vantar. Þetta er í tómu tjóni í dag og verður að bæta. Það er t.d. til dæmi úr mínum hring þar sem nemandi hafði tvífallið í áfanga og fór í sumarskóla og stóðst en tvíféll i næsta áfanga. Hvað á maður að segja? Þá kvartar Atli réttilega undan bútasaumsmenntun sem er m.a. vegna þess hvernig við erum búin að skipta upp menntun í pínu búta. Hvernig getum við neitað nemanda um að taka dönskuna í Flensborg, stærðfræðina í fjarnámi í FG, enskuna í öldungadeild MH, frönskuna í fjarnámi frá VMA o.s.frv. En hver á að útskrifa hann? Hver á að bera ábyrgðina? Þessu þarf að svara. Líklega væri réttast að menntamálaráðuneytið útskrifaði svona fólk.
Ég ætla ekki að ræða reiknilíkanið og reiknireglur ríkisins. Ég verð svo skapstyggur af því.
Á hinn bóginn spyr ég hvað þýðir kröfuharður skóli? Að hann fylgi reglum? Að einn uppfylli námskrá en ekki annar? Að gerðar séu óeðlilegar kröfur umfram námskrá? Þetta verður að útskýra.
Nýju lögin tala um þrepaskiptingu náms. Þau byggja á evrópsku kerfi sem kallað er EQF (sjá t.d. European Qualifications Framework, á slóðinni http://www.qca.org.uk/qca_19302.aspx (hún var virk 7. febrúar 2009)). Hvert land útfærir sín EQF og þá eru þau kölluð NQF (sjá t.d þau ensku - The National Qualifications Framework (NQF) á slóðinni http://www.qca.org.uk/qca_5967.aspx (hún var virk 7. febrúar 2009)). Íslensku þrepin eru í vinnslu og ma skoða hugmyndir menntamálaráðuneytis um þær á slóðinni http://www.nymenntastefna.is/. Nánari útlistanir á lærdómsviðmiðunum eru á slóðinni http://www.nymenntastefna.is/Namskrargerd/Namskrargerd/ en íslensku NQF viðmiðin eru kölluð lærdómsviðmið. Með þeim er t.d. kominn grunnur til að segja til um hver þekking, færni eða hæfni nemanda sé eða eigi að vera á hverju sviði og þrepi og þar með er hægt að búa til skírari námssamanburð en nú er. Hvort allir eru sáttir við það er önnur saga.
Lokaorð.
Ég reikna með að ég sé einn gleiðgosanna sem Atli talar um. Ég hef hins vegar alltaf sagt að við þurfum að vita hvert við viljum fara en ekki einvörðungu hlaupa þangað sem við höldum að skjólið sé best. Það vita allir sem með mér vinna að ég vil ekki diska út skírteinum fyrir ekkert. Þeir sömu vita að ég vil að nemandinn fái tækifæri og njóti sanngirni.
Hins vegar má ekki rugla því saman upp á hvaða menntun skólar bjóða og það hvernig menn miðla þeirri menntun. Það eru tveir ólíkir hlutir. Við bjóðum upp á það að leiðbeina nemendum okkar og aðstoða þá við að komast að settu marki. Námið sem fram fer býr í nemandanum. Það er hans að sækja námið, hans að læra. Enskir segja: „You can lead a horse to water, but you cannot make it drink.“ Það sama gildir um nemendur. Það má leiða þá að viskubrunnum og hlaðborðum skólstarfs en það er þeirra að sækja það sem þar býðst. Skólarnir verða hins vegar að gera það aðgengilegt.
MÞ febrúar 2009
Engin ummæli:
Skrifa ummæli