1.4.09

Að hafa spilin á hendi

Þessa dagana er nokkur spenna í lofti vegna nýju framhaldsskólalaganna og bókunar sem gerð var 10. mars síðastliðinn um frestun þess að hrinda þrennu í framkvæmd. Margir lýsa áhyggjum af því hversu óljósir hlutir séu og hversu margt sé óunnið. Þeir sjá ekki sóknarfærið sem í því felst að taka málin í sínar hendur og móta framhaldsskóla sem horfir til framtíðar. Að leysa sumar þær rökvillur sem eru í núverandi kerfi. Þeir gleyma því að núverandi kerfi var komið á um aldamótin undir harðri gagnrýni á miðstýrt vald stjórnvalda. Því er gleymt að það byggir á kerfi frá níunda áratug 20. aldar. Þegar það var fest í sessi með námskrám þótti mörgum vald stjórnvalda of mikið og að verið væri að taka frumkvæði af skólum, sem myndi leiða til verra skólastarfs eða allavega verra skipulags. (T.d. Jón F. Hjartarson, 1990, „Framhaldsskólinn á tímabili lögleysunnar 1974-1990.” Í Jarteinabók Jóns Böðvarssonar, afmælisrit helgað Jóni Böðvarssyni sextugum 2. maí 1990. Rits.Jón F. Hjartarson og Ólafur S. Ásgeirsson, R., bls. 25-44.)
Skipulagið sem fest var í sessi sem áfangakerfi 1980-90 var ekki alveg nýtt. Kristján Bersi Ólafsson benti á að með fjölbrautaskólunum hafi komið nýjar hugmyndir t.d. um fullorðinsfræðslu, nýjar námsbrautir, námskrár og valkosti sem voru opnari fleirum en áður var. Hins vegar spurði Kristján Bersi sig hvort markmið nýju brautanna hefðu alltaf verið ljós. Hann benti á að hefðbundið skipulag hefði alltof oft verið fellt að innihaldi nýrra brauta og þannig hafi þær orðið hliðstæður gömlu brautanna með nýjum nöfnum. (Kristján Bersi Ólafsson, 1985, „Þankar um fjölbrautaskóla.“ Í Ný menntamál, 2. tbl., 3. árg., R., bls. 12-13.).
Ef þessi ályktun Bersa er rétt er núverandi skipulag orðið a.m.k. 20 ára gamalt en líklega nær 40 ára gamalt eða eldra. Sem sé við erum ekki að hnika til kerfi sem er áratugs gamalt. Það hallar í hálfa öld. Nær allar þjóðfélagslegar, vísindalegar og tæknilegar aðstæður hafa ekki aðeins breyst. Þeim hefur verið umbylt.
Þegar lagaumræðan, sem leiddi til núverandi skipulags, hófst (1968) var send út spurningaskrá og leitað ýmissa svara. Í svörunum komu fram ýmsir gallar á þáverandi kerfi. Meðal annarra voru:

  • of fáar deildir og valfrelsi of lítið
  • of mikill tími í yfirheyrslur en of lítill í að þjálfa sjálfstæð vinnubrög
  • of mörg tungumál, sérlega í stærðfræðideild
  • vantar m.a. listir og heimspeki
  • of margar námsgreinar og of hár stúdentsaldur

Tveir helstu kostir voru taldir (hér var vitnað í erlenda skólamenn er störfuðu á Íslandi) jöfn aðstaða til náms allra á skyldunámsaldri (eins og jöfn aðstaða var skilgreind 1968) og að unglingar þurfi ekki að taka ákvörðun um framhaldsnám fyrr en um 15 ára aldur. (Frumvarp til laga um menntaskóla, Alþingistíðindi,1968, A3, bls.1209).
Svipaðar niðurstöður má raunar lesa í könnun sem gerð var meðal stúdenta í FÁ 1986 (Elín Vilhjálmsdóttir, 1988, „Álit stúdenta á námi sínu.“ Í Ný menntamál, 1. tbl., 6. árg., 1988,R., bls. 14-17; Svipað má reyndar lesa úr úttektum sem gerðar voru í MS og Flensborgarskóla en þær eru ekki prentaðar.) Hvað skyldu nútímanemendur segja?
Nefndin frá 1968 gerði fleiri. Í skýrslu sem Jón Gíslason, skólastjóri VÍ, ritaði um hagnýtar greinar í menntaskólum kemur m.a. fram það álit að aukin ásókn í stúdentsnám muni fyrirsjáanlega fara úr um 10% af árgangi „jafnvel allt upp í 30-40% af árgangi.” (Frumvarp til laga um menntaskóla, Alþingistíðindi,1968, A3, bls.1222). Hann hélt áfram og hvatti til aukinnar fjölbreytni, eiginlega til að hækka menntunarstig þjóðarinnar og mæta aukinni þörf fyrir menntun. Ekki síst að móta nám sem ekki væri ætlað til þess að undirbúa háskólanám.
Ný lög um menntaskóla voru samþykkt árið 1970.
Í bók sinni, Flensborgarskólinn í 100 ár, rekur Kristján Bersi Ólafsson tildrög þess að áfangakerfi var tekið upp við skólann. Þar segir m.a.
„En um þetta leyti [1971-72 innsk. MÞ] komust á dagskrá nýjar hugmyndir um skipulag framhaldsskóla. Margir töldu að í stað sérskóla, eins og t.d. menntaskóla, ættu fremur að koma sameinaðir skólar, framhaldsskólar sem væru hvort tveggja í senn almennir og sérhæfðir, og gætu leyst af hendi hlutverk margra sérskóla og brautskráð nemendur af ýmsum námsbrautum og eftir mislangan námstíma. Þetta er sú skólagerð sem síðar hlaut nafnið fjölbrautarskóli.” (Kristján Bersi Ólafsson, 1982, Flensborgarskólinn í 100 ár. Hafnarfirði. bls. 57.)
Þessa hugsun rakti Ólafur Ásgeirsson aftur til Jóns Sigurðssonar, en hann lýsti skóla sem menntaði sjómenn, iðnaðarmenn, bændur og menntamenn. Hún kviknaði aftur á þriðja áratug 20. aldar með hugmyndum um Samskóla í Reykjavík en náði ekki fótfestu fyrr en með tillögum Jóhanns S. Hannessonar árið 1971. Tillögur Jóhanns voru unnar að frumkvæði Jónasar B. Jónssonar, þáverandi fræðslustjóra í Reykjavík. Ólafur segir: „…efna skyldi til skólahalds þar sem boðið yrði upp á margar námsbrautir í sömu skólastofnun og þar yrði um að velja bóklegt og verklegt nám.” (Ólafur Ásgeirsson, 1990, „Aðdragandi að stofnun fjölbrautaskóla á Akranesi.” Í Jarteinabók Jóns Böðvarssonar, afmælisrit helgað Jóni Böðvarssyni sextugum 2. maí 1990. Rits.Jón F. Hjartarson og Ólafur S. Ásgeirsson, R., bls.45-66, sjá bls. 47.) Í tillögum Jóhanns fer ekki milli mála að hann hugsar sér eina samhæfða skólastofnun, frekar en marga skóla undi sama þaki. (Jón Torfi Jónasson, 1992, „ Þróun framhaldsskólans, frá starfsmenntun til almenns bóknáms.“ í Uppeldi og menntun, 1. hefti, 1. árg., bls. 173-89. Sjá bls. 180-1.) Jón F. Hjartarson bætir um betur og lýsir því ítarlega hvernig nýju skólarnir áttu að þjóna breiðari hópi. (Jón F. Hjartarson, 1990, „Framhaldsskólinn á tímabili lögleysunnar 1974-1990.” Í Jarteinabók Jóns Böðvarssonar, afmælisrit helgað Jóni Böðvarssyni sextugum 2. maí 1990. Rits.Jón F. Hjartarson og Ólafur S. Ásgeirsson, R., bls. 25-44. )
En þessi hugmyndafræði, jafn merkileg og hún var, kallaði á stjórnsýslulegt vandamál, sem án efa var af tortryggni sprottið. Hvernig átti að tryggja gæðin og samræma þessar framhaldsdeildir skólunum sem tóku við þeim? Í menntaskólunum var t.d. prófdómarakerfi en ekki í áfangaskólunum. Nákvæmlega þessi umræða er á fljúgandi ferð í dag. Þeir sem halda henni hvað hæst á lofti voru margir í forystu breytinganna sem ólu af sér núverandi kerfi.
Það er sérlega merkilegt að skoða hugmyndir Jóns Gíslasonar, sem var vandaður skólamaður, hugmyndir Jóhanns Hannessonar og þann raunveruleika sem við búum við. Sýn þeirra hefur ræst. Skólinn er fjölbreyttari og opnari og ný lög bjóða upp á enn meira rými til aðð auka fjölbreytni. 95% nemenda í 10. bekk sækja um pláss í framhaldsskóla. En skipulagið byggir á því að stærsti hluti nemenda fari í gegnum stúdentspróf sem miðar að því að undirbúa nemendur undir háskóla. Það er gömul hugsun. Einnig að nemendur geti dregið það fram undir tvítugt að íhuga hvað taki við að stúdentsprófi loknu og að allar gerðir stúdentsprófs undirbúi nemendur undir hvaða háskólanám sem er. Síðasta meinlokan er mest föst í skólanum á Melunum.
Og ég er alltaf jafn kjaftstopp.
Hvaða kennari vill ekki undirbúa nemendur sína undir samfélagið sem nemandinn á að búa í frekar en samfélagið sem kennarinn ólst upp í? Ég held fleiri en þeir sem spyrna á móti.
Hvaða skóli vill ekki takast á við það að vinna sjálfur úr spilunum fremur en leggja þau í annarra hendur? Góð spurning þegar horft er tilbaka.
Ég vil hafa spilin á minni hendi og spila þeim sjálfur fremur en horfa á aðra gera það eða jafnvel frétta bara af spilinu síðar. Ég held að Flensborgarskólinn og fagmenn hans séu miklu færari í að skipuleggja nám við hæfi í Hafnarfirði en utanbæjarfólk eða ráðuneytismenn. Með fyllstu virðingu. Þess vegna á þetta vald að vera í skólanum en undir vökulu eftirliti stjórnvalda.
Það held ég nú.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli