2.7.12

Undarlegur dagur



Þetta var frekar undarlegur dagur. Nóttin var líka skrýtin. Ég, sem aldrei fæ magakveisu, eða því sem næst, fékk eina góða. Vaknaði og horfði á sólarupprásina. Sofnaði aftur og vaknaði í rigningu. Þegar stytti upp fórum við í góða göngu en ástandið var óþægilegt. Nú er ég hins vegar mun hressari.





Borgin Bath er fallega staðsett við ána Avon sem rennur frá Stratford. Hún er staðsett í hlíðum fjalla sem eru viðivaxnar og umlykja dalinn. Blómaskeið hennar var á tímum Georgs konungs sem er best þekktur af  því að tapa amerísku nýlendunum til íbúa þeirra og kvikmyndinni The madness of King George það er sem sagt hinn eini sanni. 
Bath er í Avon skíri en var áður í Somerset og eru um 100 þúsund íbúar hér. Elstu minjar um þéttbýli eru taldar rómverskar, en um 60e.Kr höfðu rómverskir reist hér heilsubaðakerfi sem þeir kölluðu Aqua Sulis eða vötn Sulis, en Sulis Minerva var einskonar rómversk/keltnesk gyðja og lífsmóðir.  Lindirnar eru volgar, 46°C og því afar heppilegar í baðkerfin sem Rómverjar byggðu. Borgin er á heimsminjaskrá og árlega heimsækja hana á fjórðu milljón ferðamanna. Hér eru tveir háskólar, mikill uppgangur og vöxtur í tækni og þjónustu og því tiltölulega mikil velmegun. Af kynningarefni frá Bath má ráða að íbúarnir líta á sig sem íbúa í borg menningar, menntunar og klassa.
Að vísu er vitaskuld vottur um mannabyggð frá steinöld á svæðinu en það eru böðin sem Bathbúar varðveita og halda á  lofti.

Stuttu eftir að Rómverjar fóru er sagt að hér hafi verið háð orrusta þar sem Artúr konungur, hinn goðsagnakenndi, sigraði innrásarher Engilsaxa og stöðvaði um hríð. Saxar náðu þó yfirhöndinni og til er kvæði þar sem segir m.a. á nútímaensku:
Bright were the castle buildings, many the bathing-halls,
high the abundance of gables, great the noise of the multitude,
many a meadhall full of festivity,
until Fate the mighty changed that.


Borgin var síðar fræg vegna klausturhalds en það tengdist lækningum og varð klaustrið mikið bitbein kirkju og konunga.

Það er svo á 17. og 18. öld sem blómatími Bath hefst en þá eru byggð upp heilu hverfin auk þess sem millistétt Bretlands streymir hingað "to take the water" eða leita sér heilsubóta. Ef þess var ekki þörf var fínt að koma samt! 
Af því tilefni voru byggð leikhús, veisludalir og fleira.
Veislustjóri borgarinnar, Beau Nash, sem réði hér öllu samfélagslífi frá 1705 til dauðadags 1761, samdi siðareglur og venjur sem m.a. endurspeglast í bókum Jane Austin,- sem bjó hér lengi! Þessi mynd er frá minjasafni um hana.









Í heimstyrjöldinni síðari voru gerðar þrjár loftárásir á borgina og er greinilegt að hluti miðbæjarins var endurbyggður í frekar hræðilegum eftirstríðsárastíl.

Eitt einkenni borgarinnar eru garðar sem eru fullir af follies, en það eru eiginlega plat fornminjar sem nýríkir Nonnar og fólk sem vildi skapa sér menningarlega ímynd, lét smíða. Hér má sjá einhverskonar rómversklega styttu. Á drottningartorgi er eftirlíking af egypskum standi eins konar Kleópötrunál. Nokkrar alvöru slíkar eru í Róm m.a. á Péturstorginu.

Glæsilegasta hverfið er óneitanlega Konunglegi hálfmáninn sem stendur móti suðri norðarlega í bænum. Þetta eru 30 hús sem mynda keðju og hálfmána og voru reist á seinni hluta 18. aldar. Þarna hafa ýmis stórmennin búið.





og eins og sjá má eru þau misvel bílandi!












Framan við hálfhringinn er svo óbyggt svæði sem var breytt í garða, the Royal  gardens en þar er svona pavillion og við settumst þar til að hlýða á músík. Ekki beinlínis það flottasta enda kostaði prógrammið pund en músíkin ekkert.






Virðuleg kona sem minnti á einhverja útgáfuna af miss Marple gekk þarna um, rukkaði og spjallaði en það fór ógurlega í taugarnar á henni að við tókum bara eitt prógramm en borguðum fyrir tvö.





En sem sé - meira á morgun!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli