15.6.13

Hönd fyrir höfuð!

Eitt af því sem einkennir samtímann er hraði. Það felur í sér að hlutir koma og fara með ógnarhraða og jafnvel margir í senn. Blogg eru gott dæmi, mín sem önnur og ég hef verulega á tilfinningunni að þeir sem fylgjast hvað best með í bloggheimum hraðlesi, skimi eða skanni bloggin en lesi þau ekki.
Gott dæmi er pistill Lóu Pind Aldísardóttur, en hún hefur vakið upp mikla umræðu með líklega bestu sjónvarpsþáttum sem gerðir hafa verið um skólamál hér á landi. Hún er gagnrýnin á fullyrðingu mína um að hún fari óvarlega með tölur, - sem kannski var óvarfærin sem og fyrirsögn pistils míns sem var: Strákum gengur verr í skóla en stelpum. Rangt. Hún leiðréttir mig með orðunum: Ótal tölur benda til þess að fleiri strákar en stelpur fúnkeri illa í skóla.
í mínum pistli segir:  Á heildina má sjá ýmislegt sem rennir undir það stoðum að fleiri strákum gangi verr í skóla en stúlkum.
Og útskýri nú einhver hvar okkur Lóu greinir á!
Ég bið hana afsökunar ef ég kalla þættina svolítið ruglingslega. Það er kannski vegna þess að minn gamli heili nær ekki að elta hana alltaf þegar mest gengur á. En ég stend við það að þetta eru bestu þættir sem gerðir hafa verið um íslenska skóla.

Nokkrir eru þó mun harðorðari eins og t.d Bjarmi F. Sigurðsson sem sakar mig um að hafna rannsóknum þegar ég bið menn að vara sig á alhæfingum. Ég efa ekki að hann þekki þetta betur en ég og hlakka til að lesa meira frá honum síðar.  
Hilmar Hafsteinsson er annar sem hvetur mig til að spjalla við nánasta samstarfsmann minn um hvers vegna hann sé að hætta. Hilmar hefur t.d. líklega ekki lesið Einn að verða búinn að fá nóg eða Dónaskapur gagnvart starfsstétt um laun kennara og fjármál skólanna.
Elías Rafn Heimisson er enn hvassyrtari og talar um að skrif mín séu ein órökréttasta þvæla sem hann hafi lesið. Látum það kyrrt liggja en vera má rétt að í þvælu minni hafi ég ekki gert greinarmun á deild og námsleið í háskóla og ég biðst afsökunar á því. Útúrsnúningur hans um flóttamenn er hins vegar óviðeigandi enda geri ég ekki lítið úr vanda drengjanna. Ég mótmæli því hins vegar að það að vera karlkyns sé einhver trygging fyrir vansæld í skóla. Hann telur einnig femínísk sjónarmið vera orðin áberandi í samfélagi okkar. Sem skýrir ekki vídeó sem þetta og þetta.
Ég er svo sakaður um að taka dæmi sem verði í mínum huga alhæfing sem afsanni allt annað. Vera má að ég hafi ekki skrifað nógu skíran texta. Ég hélt að ég væri að benda á að alhæfingar og sleggjudómar væru ekki góð leið til lausna eins og ég benti á ofar. En ég þarf þá að vanda mig betur.
Kristinn Jakob Steindórsson  sakar mig um skort á heimildum. Og ég sem hélt að slíkt tíðkaðist ekki í kjöllurum DV en það er gott að vera alltaf að læra og því skoða ég þetta. Hann dregur svo þá ályktun að ég komist að þeirri niðurstöðu að það sé ekkert vandamál í kerfinu. Hann spyr hvort fólk sé ólæst  en var kannski ekki alveg búinn að klára að lesa sjálfur allan textann ef þetta er ályktun hans af orðum mínum. Vandamálin eru mörg og stór en umræðan er ekki á réttum stað. Ef hún væri það væri búið að leysa mörg þessara vandamála. Nógu lengi er búið að ræða þau.
Hann vitnar í mig þegar ég sagði „nýnemar sem voru duglegastir á mælikvarða einkunnar og lokinna eininga í Flensborg síðasta skólaár voru strákar." Og segir „Já ok! Flensborg er nefnilega hið fullkomna þversnið af skólum landsins.“ Þakka pent en þetta er ekki það sem ég sagði. Dæmi er ekki alhæfing. Ekki síðast þegar ég vissi. Svo vitnar hann í orð mín um femínisma og spyr hvort þau eigi að vera grín?
Grín? Óekki nei. Ég vísa í þessa frétt hér, auk myndbandanna að ofan.
Ég er þakklátur þeim sem gagnrýna sem og þeim sem hrósa. Ég vil líka efla umræðuna og halda henni á kurteisum nótum sem og vissu virðingarplani. En ég verð sár þegar ég er sakaður um að þvæla. Ég verð þá að passa mig að gera þetta betur svo greint og skynsamt fólk skammi mig ekki fyrir, tja jafnvel að vera sammála því.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli