13.7.17

Yndislegt ævinýri

Sit hér á ströndinni sviðinn í suðrænu báli
Kominn af víkingum, hertur í blóði og stáli.
Á ferð minni um heiminn ég fengið hef yfirsýn nýja
og stúlkan sem færir mér drykkinn heitir María.

Einhvern veginn svona byrjar texti Magnúsar Eiríkssonar um Spánarferð. Þeir eru til margir textarnir þó fæstir séu við íslensk lög. Þannig varð Quantanamera að Blandaðu meira, og Viva Espagna að Suður á Spáni.
Og reyndar er uppáhalds þjónninn okkar á hótelinu kona sem heitir María.

Það hljómar allskonar músík hér um alla ganga. Sumt finnst mér (afgamla kallinum að sögn Siggu) heldur ónæðissamt. En svo eru gullaldar slagarar sem setjast í heilabörkinn og eru á endalausri síspilun (replay?) sem er kannski ekkert betra. En allt er þetta ljúft.

Við erum búin að fara og skoða okkur aðeins um í Torremolinos. Sérfróðir segja að við höfum ekki verið á réttum stað. Við fórum með strætó og úr þar sem hét Torremolinos Centro. Hefðum átt að fara tveimur til þremur stöðvum lengra. Þarna var vissulega blómstrandi mannlíf, verslanir og veitingahús. En óskaplega mikið af draslvörubúðum. Fallegt göngugatnahverfi samt. Ég var hins vegar svo klár að skilja eftir lyf sem ég þurfti að taka og stytti það ferðina nokkuð.

Við fórum hins vegar frægari ferð til Malaga. Ég vissi ekkert um Malaga. Ég vissi að vísu að Malaga er höfuðborg Andalúsíu og að hún hefur verið grísk, rómversk, kristin og arabísk. En hún kom mér algjörlega í opna skjöldu hvað fegurð varðar.

Við byrjuðum á að fara úr sjóðheitri rútunni eftir um þriggja kortera ferð og leituðum að drykjarholu, - sem við fundum. Við fengum kort hjá upplýsingamiðstöð og sáum að þarna í göngufæri voru helstu staðirnir sem við vildum skoða. Fyrst var Picasso vitjað en hann fæddist í Andalúsíu, Malaga nánar tiltekið. Picassosafnið er afar fallega sett upp og gefur (að ég held) góða mynd af listsköpun þessa merkilega listamanns. Sýningin á verkum hans er í sölum sem merktir eru 1 til 12. Við byrjuðum í fimmta sal og þessum efri sölum sjást margar gerðir listaverka, málverk, keramík, brons og fleira og fleira.
Í fyrstu fjórum sölunum eru svo fyrstu ár listsköpunar hans. Af því má sjá hvílíkur hæfileikamaður Picasso var þegar sem barn enda alinn upp hjá föður sem var teiknikennari.
Eitt af því sem er hamrað á alla sýninguna út í gegn er áhersla Picassos og félaga á að finna því farveg að sýna hlutina hreinlega í eins konar þrívíðu formi, ekki ,,eins og þeir raunverulega eru" en það er kennt við arfleifð endurreisnarinnar. Nú skil ég það sem ég aldrei skildi. Þegar ég var í teiknitímum í Melaskólanum, þá var kennarinn alltaf að laga myndirnar mínar svo þær yrðu raunverulegar. Ég var vitaskuld bara að brjótast út úr forminu - naut bara einskis skilnings. Þetta reyndist sem sé glataður ferill hjá mér (hvernig sem menn vilja skilja það orðalag),
Dómkirkjan
Við lögðum ekki af stað héðan fyrr en síðdegis og þegar heimsókninni til Pablo (Picasso manst) lauk þá var ekki mikið eftir af opnunartíma annarra safna svo þau voru skoðuð utanfrá eða úr fjarlægð.

Alcazab
Kastalinn, sem gnæfir yfir borgina, er glæsilegur og er partur af valdakeðjunni sem nær um Cordoba og Granada. Hann er þó ekki sagður neitt á við Alhambra. Hann heitir Alcazab. Þá er þarna gríðarstór dómkirkja og margar minni kirkjur.

Dómkirkjuturninn og þröng gata
Neðan við kastalann er hverfi sem er sjálfsagt leifar eldra hverfis, með þröngum götum en nokkuð marglyftum húsum. Minnti mig svolítið á Genóa eða Márahverfið í Granada. Hins vegar kemur maður svo í net göngugatna, sem er án efa 19. aldar tilraun til að gera Malaga að höfuðborg. Minnti mig svolítið á Milano.
Marmaralögð stræti
Þarna eru göturnar lagðar marmara, stórum flísum og rennur í götunum fyrir regnvatn. Allt er svo fínt að manni fannst þetta hafa verið gert í gær.
Við römbuðum fram á stað sem heitir Café Central og þar var líf og fjör. Þar sátu við eitt stórt borð einir tíu til fimmtán músíkantar og sungu af lífsins list. Við fengum borð snarlega og snæddum ljómandi mat í þessu leiftrandi fallega umhverfi. Hópurinn sem um ræðir eru tónlistarkennarar og nemendur við háskólann, sem hittast þarna á þriðjudags- og miðvikudagskvöldum og syngja aðallega spánska þjóðernissöngva en þó mest frá Andalúsíu. Þegar klukkan var verulega farin að halla í miðnætti snigluðumst við niður á strætómiðstöðina og vildi svo vel til að vagninn var alveg að koma. Við skelltum okkur um borð og litrík kona ók okkur nánast upp að dyrum þegar klukkan var að verða eitt eftir miðnætti.
Í gær héldum við svo upp á afmæli Gulla með rómantískum kvöldverði og labbitúr.
Þetta er ljúft.

Biskupshöllin

 
Ísbúð Nonna eða Nönnu? (Ömmu???)
 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli