6.7.18

Enn ein mynd af Ítalíú

Siena tók okkur með trompi. Hún er allt öðruvísi en t.d. Ravenna. Ravenna er reist á sléttu en Síena á hæðum. Hápunktar Ravenna eru trúarmannvirki frá ármiðöldum og mósaíkverk. Síena er borg borgara og fjármuna frá því að miðaldir náðu hámarki og fram að endurreisn. Gamli bærinn í Ravenna er fljótgenginn en í Síena er gamli bærinn risastór, meira og minna allur á fótinn eða undan fæti eftir atvikum.
Síena er full af fólki. Það er dálítið af útlendingum (þ.e. ekki Ítölum) en það er líka mikið um Ítali. Það er sem sé mikill heimamannatúrismi hér. Við erum farin að rata svolítið og átta okkur á meginstaðsetningum. Maður er fljótur að sjá að þegar maður nálgast stóru staðina þá fjölgar búðunum á leið manns. Það e svolítið um lundabúðir en meira af sérhæfðum túristabúðum með muni úr rótum ólífutrjáa eða sérunninn leir.

Þessi borg er raunar alveg einstaklega sérstök og okkur finnst báðum hún vera góður staður að koma á.

Morguninn fór svolítið í að klára símamálið en það tókst og nú var farið að spassera um þessa fallegu borg. Ég fann mér hatt og veitti ekki af. Kollvikin mega ekki brenna. Við litum við hér og þar á leið okkar og tókum eftir því að víða voru smábúðir, oft reknar, að því er virtist af hjónum, vörúrvalið lítið en gekk samt.

Við fundum Il Campo sem er aðaltorg Siena og segir mikla sögu um þroskaferli þessarar borgar. Einhvern tíma á miðöldum ákváðu menn hér að taka saman höndum, mynda borgarsamfélag þar sem þeir sem voru frjálsir og karlkyns og stóðu fyrir sjálfum sér lögðu í púkk, gerðu varnarvirki og skipulögðu rekstur borgar, öfluðu vatns, fæðubirgða og annars sem borg stóð fyrir. Þeir voru í alfaraleið pílagríma frá Frakklandi til Landsins Helga og öfugt. Þeir voru öflugir í Túskaníu og í töluverðri samkeppni við Flórens sem var á sömu leið. Það var mikilvægt að veita þessu ferðafólki húsaskjól, veita læknisþjónustu og fleira og þetta gerðu forsvarsmenn Síenu.

Sett voru regluverk og kerfi og þetta gekk allt vel, fjármagnið streymdi að, elsti banki borgarinnar er frá 15. öld.

Þarna við torgið er gríðarlegt ráðhús og röð stórra húsa sem byggð voru af stéttarhópum eða gildum þeirra. Torginu er skipt í níu reiti sem samsvara þeim fylkingum sem borginni stjórna og hverfum hennar. Tvívegis á hverju ári eru haldnar miklar veðreiðar við torgið þar sem íbúar leggja á sig að taka þátt og keppa um Il Palio sem eru verðlaunin fyrir þetta. Þá er hringurinn umhverfis torgið lagður þykku sandlagi því varla er hægt að láta járnaða hesta hlaupa á hellunum. Þetta er 2. júlí og 17. ágúst.
Svo gengum við út að Duomo, dómkirkjunni en það er nú meira mannvirkið. Förum í það á morgun. 
Langt var liðið á dag þegar við komum heim. Fyrst skyldi snætt á Fonte Giusti og svo farið á aríutónleika. Hvort um sig var frábært og það var gott að komast í ból og hvíla þreytta fætur. 
Í dag, föstudag héldum við svo haldið áfram að skoða. Dagurinn fór í dómkirkjuna. Og dugði varla til.
Dómkirkjan í Síena er gríðarlegt mannvirki og var aldir í byggingu. Segja má að verkið hafi byrjað á þrettándu öld og lokið að mestu tveimur öldum síðar. Síðan þá hafa átt sér stað breytingar og viðbætur. Fyrirmyndin er klárlega dómkirkjan í Flórens. 
Kirkjan sjálf er stórfenglegt dæmi um það þegar menn eru að leggja meiri peninga en smekkvísi í hlutina. Hún er full af listaverkum, gólfin og stéttarnar eru myndskreyttar. Það er lítið bókasafn fullt af kaþólskum nótnabókum. Maður getur farið og skoðað safn gripa sem hafa verið einhvern tíma á eða í kirkjunni og skipt út. Annað safn er skírnarkapella full af listaverkum og enn eitt er Crypt eða grafhýsi sem er fullt af freskóverkum sem ekki var vitað um fyrr en 1999, ótrúðlegt. Inn af þeirri kapellu er hægt að fara undir núverandi kirkju og skoða hvernig kirkjan er reist, ekki aðeins á rústum eldri kirkjunnar heldur beinlínis hvernig stóra kirkjan nýtir eldri kirkjuna sem undirstöður.
Loks fórum við í gamla kapellu þar sem maður sér stórfenglega glæsilega margmiðlunarsýningu um sögu borgarinnar. 
Nú var svo komið að meira að segja fornleifafræðingurinn (eða á að segja forngripurinn) var búinn að fá nóg af gömlum kirkjum og söfnum. 
Nú var að fá sér að drekka, koma sér heim, skipta um föt, fá sér að borða og horfa á glæstan sigur Belga á Brasilíumönnum. 
Svo er það Viareggio á morgun.
Það verður ekki meira bloggað í bili nema tilefni sé til. AÐ vísu verða settar inn myndir en þetta er nóg að sinni!
Kveðja frá Síena.   

 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli