
Í dag var farið sem leið lá frá Melbæ í Mosfellssveit og byrjað við Gljúfrastein. Kompaíið var ekki af verri endanum,- afi og amma á Melunum, Ásta María, Árni Hlynur, Tómas Snær, Hörður og Ásta Kristín, auk Gulla og Söndru og Hildar Sögu auk Siggu minnar.
Að Gljúfrasteini var safnið skoðað og síðan var drukkið kaffi í litlum lundi við Köldukvísl og þá steðjað að Mosfelli. Á myndunum má sjá smá leik við Köldukvísl, á annarri eru Ásta Kristín og Tómas Snær að varna mér leið til lands og á hinni eru þau að athafna sig á klöppunum.
Tilefnið var að vitja Stefáns Þorlákssonar sem var mikill vinur afa míns og mamma hélt (og heldur) mikið upp á. Stefán átti heima á Hrísbrú en keypti síðar Reyki og bjó þar. Af honum er rakin saga í bók Halldórs Laxness Innansveitarkróniku.

Kirkjan að Mosfelli var tekin í notkun (vígð) 4. apríl 1965 en hún var byggð fyrir gjafafé frá Stefáni, sem lést 11. júlí 2009. Ég man eftir því að aka um Mosfellsdal og heyra menn lýsa þessari kirkju sem ljótri. Ég man enn hversu ég hreifst af henni þegar ég kom þangað inn. Gluggarnir liggja með þakinu og frá jörðu dyramegin og liggja á ská móti himni altarismegin. Hún er í raun afskaplega klassísk sveitakirkja, einföld, látlaus og snotur. Skemmtilegast finnst mér þó að skoða klukkuna gömlu sem Ólafur á Hrísbrú á að hafa geymt frá því í lok 19. aldar þegar gamla kirkjan var tekin ofan. Svo er sagan af beinum Egils Skallagrímssonar og svo vitaskuld kvæði Einars Benediktssonar um
Messuna á Mosfelli.
En þetta var góður

dagur og allir nutu hans í hvívetna. Gerist ekki betra.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli