4.9.09

I'm back!

„Að varðveita hið góða starf“
Skólamálaumræðanfrá framhaldsskólalögunum 1988 til laga um framhaldsskóla 2008
Sá sem hér leikur á lyklaborð hefur verið umvafinn umræðu um málefni framhaldsskólans frá 1981. Þá kom hann til starfa í skóla sem taldi sig leiðandi hvað varðaði þróun áfangakerfisins. Verandi MR stúdent (eins og margir kollega minna) stóð ég frammi fyrir framandi heimi og skynjaði verulega mikil átök milli hugmyndakerfa sem þó áttu mikið sammerkt.
Örfáum árum seinna fluttist ég alfarið til Menntaskólans við Sund og þar var annar slíkur umbótahópur í sömu vinnu en nú með hagsmuni bekkjarkerfisins í huga. Þegar ég snéri aftur í Flensborgarskólann haustið 1998 var ég mjög upptekinn af því að kerfisumræðan, umræðan um hvor væri betri brúnn eða rauður, - áfangakerfi eða bekkjarkerfi, væri harla fánýt.
En um hvað snýst þessi umræða? Hana má rekja aftur á sjöunda áratug tuttugustu aldar. Þá voru teknar ákvarðanir um skólamál sem áttu að skilgreina skólakerfið og opnuðu nýjungum leið. Hér er átt við Lög um menntaskóla sem samþykkt voru 1970 ("Lög um menntaskóla nr. 12/1970.," 1970). Í frumvarpstextanum og athugasemdum hans er m.a. talað um að nefndin vilji tryggja skólunum „þá ábúð og það svigrúm, sem þörf er á til áframhaldandi tilrauna, endurskoðunar og umbóta í hverjum skóla fyrir sig.” Og „að setja þeim markmið og leggja megindrög að skipulagi þeirra, þannig að eigi skorti sameiginleg [svo] umgjörð um starf þeirra allra, þótt þeir haldist eigi í hendur um hvaðeina.” Einna merkilegasta hugmyndin er þó sú sem lesa má í 11. gr. og athugasemdum nefndarinnar en það er að stúdentspróf sé heildarheiti á menntun og lærdómi nemandans þegar hann hefur uppfyllt allar kröfur skólans en ekki einstök lokapróf. Þá er fjallað um mikilvægi þess að taka upp annað próf við hlið stúdentsprófsins sem sé ætlað þeim sem ekki ætla í háskóla. (sjá nánar Frumvarp til laga um menntaskóla, Alþingistíðindi,1968, A3, bls.1190-91, Frumvarp til laga um menntaskóla, Alþingistíðindi,1968, A3, bls. 1191-2)
Árið 2006 gerðu þáverandi menntamálaráðherra og forysta Kennarasambandsins með sér samkomulag um vinnu við endurskoðun laga og námskráa (Kennarasamband Íslands, 2006; Menntamálaráðuneytið, 2006). Í samkomulaginu má greinilega sjá sömu atriði óma og í frumvarpinu 1968. Þar segir í 2. gr. m.a. „Framhaldsskólum verður gefinn fjögurra ára aðlögunartími til að takast á við breytta námsskipan,… út frá eigin skipulagi.“ og í 7. gr. „Almenn braut framhaldsskólans verður endurskipulögð og efld með víðtækum hætti…“ Í erindisbréfum vinnuhópa eru fleiri athugasemdir s.s. fjalla um inntak stúdentsprófsins, á grundvelli frelsis skóla og sérstöðu þeirra. Bréfin má finna á vef KÍ en ekki MMR. Þegar upp var staðið voru það deilur um frumvarp til laga um framhaldsskóla og stytting námstíma til stúdentsprófs sem settu málin í alvarlegan hnút. Þessi saga verður rakin ítarlega og sér. Nefnd um lög um framhaldskóla klofnaði 5. nóvember 2007 og þó svo að greinargerð fulltrúa KÍ fari vítt og breitt yfir málið má draga þá ályktun af heildarumræðunni að átökin snérust fyrst og síðast um stúdentsprófið, meinta skerðingu þess og lengd (Aðalheiður Steingrímsdóttir, 2007).
Umræða um skólastarf er harla þung og flókin enda margir ólíkir hagsmunir í húfi. Kenningar um þróun skólastarfs gefa ýmislegt til kynna um hversu erfitt er að breyta skólastarfi. David F. Labaree hefur t.d. ítrekað rætt um þennan vanda og heldur því m.a. fram að skólar lagi sig að orðfæri nýjunga svo það líti út fyrir að breyting hafi átt sér stað (D. F. Labaree, 1999; David F. Labaree, 2006). Viðfangsefni Labaree er reyndar oftast háskólstigið.
Annar fræðimaður á sömu slóðum er Larry Cuban. Hann talar um „the grammar of schooling“ og heldur því fram að skólakerfi taki nýjungar og formgeri þannig að þær falli að því orðfæri og því vinnulagi sem tíðkast í skólakerfum. Ef það takist ekki hafni skólakerfið viðkomandi hlutum (Tyack & Cuban, 1995).
Bæði Labaree og Cuban hafa bent á að bandarísk stjórnvöld hafa hent í umferð fjölmörgum átaksverkefnum, sem hafi því aðeins tekist ef kennararnir vildu nýta þau (dæmi: Cardinal Principles of Secondary Education (1918), A Nation at Risk (1983); nýjar námsgreinar s.s. félagsgreinar og sérkennsla; ability grouping, the project method, life adjustment, back to basics, inclusion, critical thinking; New Math, National Council of Teachers of Mathematics math)(D. F. Labaree, 1999). Labaree ýjar að því að skólakerfið fái yfir sig svo margar lausnir og nýjungar að það nái aldrei að fara með þær alla leið áður en sú næsta dynur yfir.
Í mikilli uppáhaldsbók, sem birtist vestanhafs árið 1939 er einmitt varpað fram spurningum um það hvort róttækar nýjungar geti fest svo í sessi að þær verði íhaldssömu staðreyndirnar sem alltof margir haldi fast í, án þess að vita hvers vegna (Benjamin, 2004). Benjamin ritaði bókina raunar undir dulnefni og skýrir mál sitt vel í fyrirlestrinum um Sverðtígursnámskrána.
Getur verið að hugmyndir hans eigi við hér á landi? Má vera að hugmyndir manna um íslenska stúdentsprófið séu íhaldssamar? Fróðlegt er að lesa skýrslu UNESCO frá 2006 (Gauthier, 2006). Í skýrslunni má sjá hversu ólíkar hugmyndir eru á ferð í heiminum en Gauthier heldur því þó fram að um tvær meginstefnur sé að ræða. Önnur sé byggð á fáum námsgreinum sem séu skoðaðar ítarlega en hin á sjónarhóli almennrar og fjölbreyttrar þekkingar. Munurinn sé ekki augljós þegar í háskóla sé komið. Spurningar um innihald eða aðferð, miðstýrðan skóla eða dreifstýrðan séu mikilvægar en algild lögmál sé erfitt að finna (Gauthier 2006, t.d. bls. 56-60).
Hér á landi er það helst Jón Torfi Jónasson sem spyr hvort ríkið hafi eitthvað um þróun skólastarfs að segja. Hann bendir á að undanfarna áratugi hafa menn rætt um mikilvægi tiltekinna atriða í skólaþróun en að þeir hafi á sama tíma í raun ekki náð að stýra þróuninni inn á þær brautir sem þeir segjast vilja beina henni (Jón Torfi Jónasson, 2001, 2003; Loftur Guttormsson et al., 2008).
Nær allir ofangreindir höfundar eru þó á einu máli um að fara verði hægt í að hnika þeirri stóru skútu sem skólakerfi er. Henni verði ekki kúvent og krafa um róttækar breytingar er alla jafna séð sem vantraust á þá sem þar starfa. Á sama tíma verður að halda lifandi umræðu um nýjungar og láta ekkert standa í vegi fyrir grisjun og endurmati.

Að teknu tilliti til þessarar umræðu er fróðlegt að skoða tímabilið frá 1988 til 2008 í þróun framhaldsskólans á Íslandi. Þó sérlega það sem mestar deilur hafa staðið um en það er stúdentsprófið. Þetta er kannski ekki síst merkilegt fyrir það að stúdentsprófið er eftirsóttasta próf framhaldsskólans og í raun frekar óumdeilt í skólasamfélaginu. Það hefur t.d. nægt íslenskum námsmönnum til að komast í grunnnám háskóla nánast hvar sem er í heiminum. Á sama tíma hafa menn haft gríðarlegar áhyggjur af starfsmenntanámi og hafa eytt í það verulegu púðri í öllum lagasetningum 20. aldar um framhaldsskóla ("Lög um framhaldsskóla nr. 57/1988. ," 1988; "Lög um framhaldsskóla nr. 80/1996.," 1996; "Lög um menntaskóla nr. 12/1970.," 1970; "Lög um menntaskóla nr. 58/1946.," 1946; "Lög um skólakerfi nr. 55/1974.," 1974; "Lög um skólakerfi og fræðsluskyldu nr. 22/1946.," 1946).
Um íslenska framhaldskólakerfið hafa verið unnar fjölmargar skýrslur, s.s., Til nýrrar aldar 1991, Nefnd um mótun menntastefnu 1994, Enn betri skóli 1999 og er þá fátt eitt nefnt (Menntamálaráðuneytið, 1991, 1999; Menntamálaráðuneytið & Sigríður Anna Þórðardóttir, 1994). Um „vandamálið“ stúdentspróf virðast gilda sérstök lögmál sem vert er að rannsaka. Þau gætu verið margslungin þó svo kennarar og nemendur virðist einhuga um gæði þess.
Eitt af því sem tekið er eftir er að enn virðist menntakerfið ekki hafa leyst það verkefni nefndarinnar frá 1968 að útbúa próf við hlið stúdentsprófsins ætlað þeim sem ekki stefna á háskólanám.
Þegar litið er til umræðunnar um stúdentspróf sem blossaði upp sérstaklega veturinn 2005-6 vakna fjölmargar spurningar sem fróðlegt væri að vita svör við. Ein er hvers vegna varð þetta stóra viðfangsefni íslenska skólakerfisins bitbein og þá hverra? Önnur hvers vegna stúdentsprófið er svona eftirsóknarvert ekki síst í ljósi þeirra takmörkuðu réttinda sem það veitir? Stóra spurningin er hvort íslensk menntamálayfirvöld hafi sýnt snilldarbragð þegar þau fólu skólum námskrárgerðina 2008 eða hvort þau hafi hreinlega gefist upp. Og loks hvort mýtan um miðstýrða framhaldsskólann sem haldið hefur verið á lofti síðustu ár sé goðsögn eða staðreynd.

Í þessu verkefni verður það takmarkið að leita svara við því hvernig hvort skoða megi umræðuna um íslenska framhaldsskólann og sérstaklega stúdentsprófið í ljósi kenninga Labaree og Cuban? Hvernig hefur það breyst? Hefur það breyst? Getur verið að það hafi ekkert breyst í raun þrátt fyrir ný lög og námskrár 1988 til 2000? Er hægt að sjá ummerki um „the grammar of schooling“ í þessari þróun?

Hvernig hefur stúdentsprófið íslenska haldið merkingu sinni og hlutverki í þróun þess árin 1988 til 2008 í ljósi kenninga Labaree og Cuban?
· Hvaða hlutverki gegnir það?
· Hvaða umræður liggja að baki því?
· Hvaða upplýsingar gefur það?
· Hvaða kennslufræðilegu rök og umræður liggja til grundvallar?
· Hvað eru menn að verja eða hverju vilja þeir breyta?
· Hvernig hefur það þróast?


Heimildir:
Aðalheiður Steingrímsdóttir, e. a. (2007). Yfirlýsing fulltrúa Kennarasambands Íslands í nefnd um endurskoðun framhaldsskólalaga
um nýtt frumvarp til framhaldsskólalaga.Unpublished manuscript, Reykjavík.
Benjamin, H. R. W. (2004). The saber-tooth curriculum (Classic ed.). New York: McGraw-Hill.
Education, U. S. D. o. (2001). No Child Left Behind - ED.gov. Retrieved 29.5., 2009, from http://www.ed.gov/nclb/landing.jhtml
Gauthier, R.-F. (2006). The content of secondary education around the world: present position and strategc choices. UNESCO: UNESCO.
Jón Torfi Jónasson. (2001). Safn greina og bókarkafla frá árunum 1990-1999 skólakerfisins. Reykjavík :: [s.n.].
Jón Torfi Jónasson. (2003). Does the state expand schooling? : a study based. Comparative education review., 2003; 47 (2): s. 160-183.
Kennarasamband Íslands. (2006). 10 punkta samkomulag. Retrieved 12. desember, 2006, from http://ki.is/pages/983
Labaree, D. F. (1999). The Chronic Failure Of Curriculum Reform. Editorial Projects in Education, 18(36), 42-44.
Labaree, D. F. (2006). Education, markets, and the public good : the selected works of David F. Labaree. London ; New York: Routledge.
Loftur Guttormsson, Ólafur Rastrick, Ólöf Garðarsdóttir, Helgi Skúli Kjartansson, Jón Torfi Jónasson, Hlynur Ómar Björnsson, et al. (2008). Almenningsfræðsla á Íslandi 18802007. Reykjavík :: Háskólaútgáfan.
Lög um framhaldsskóla nr. 57/1988. , (1988).
Lög um framhaldsskóla nr. 80/1996., (1996).
Lög um menntaskóla nr. 12/1970., (1970).
Lög um menntaskóla nr. 58/1946., (1946).
Lög um skólakerfi nr. 55/1974., (1974).
Lög um skólakerfi og fræðsluskyldu nr. 22/1946., (1946).
Menntamálaráðuneytið. (1991). Til nýrrar aldar : framkvæmdaáætlun menntamá 2000. [Reykjavík] :: Menntamálaráðuneytið.
Menntamálaráðuneytið. (1999). Enn betri skóli : kynning á aðalnámskrá grun. [Reykjavík] :: Menntamálaráðuneytið.
Menntamálaráðuneytið. (2006, N/A). Tíu skrefin. 10 skref til sóknar í skólamálum á Íslandi. Tíu skrefin. 10 skref til sóknar í skólamálum á Íslandi Retrieved 12. desember, 2006, from http://www.menntamalaraduneyti.is/menntamal/tiuskref
Menntamálaráðuneytið, & Sigríður Anna Þórðardóttir. (1994). Nefnd um mótun menntastefnu, skýrsla. Reykjavík :: Menntamálaráðuneytið.
Popham, W. J. (2008). Transformative assessment. Alexandria, Va :: Association for Supervision and Curriculum Development.
Tyack, D. B., & Cuban, L. (1995). Tinkering toward utopia : a century of public sch. Cambridge, Mass. :: Harvard University Press.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli