7.2.10

John Lennon (og nú fer að hitna í kolunum)

Lennon er óvéfengjanleg frumsprauta bítlanna. Hann og McCartney unnu frábærlega saman og voru báðir mjög áfram um að leita nýjunga. Sólóferill hans var hins vegar stuttur (hann var myrtur 1980) og var satt að segja flekkóttur. Í raun hafa menn upphafið hann á þann hátt sem hann sjálfur hefði ekki viljað og ekkja hans Yoko Ono hefur gefið út hvert bestu laga safnið af öðru til að halda nafni hans (og tekjum sínum) á lofti.

Þrátt fyrir gríðarleg afköst framan af þá urðu vímuefni til þess að listræn dómgreind hans beið verulegan hnekki. Þannig var ferillinn kannski merktur jaðarlifnaði, lönguninni til að ögra og litríkri stjórnmálabaráttu fremur en listrænni gæðasköpun.

Fyrstu sólóplöturnar voru ekki tónlistarlega merkilegar. Þær voru þrjár og heita fyrstu tvær Unfinished music 1 og 2 en sú fyrri er líka kölluð Two virgins og 2 er nefnd Life with the Lions. Sú þriðja er kölluð The wedding album. Þetta eru undarlegar smíðar og er lesandinn einfaldlega hvattur til að reyna. Ekki veit ég marga sem hafa lúshlustað á þær eða hvað þá heldur tvisvar. Two virgins er satt að segja frægust fyrir að þau John og Yoko eru berrössuð á slíðrinu. Þegar litið er á ferilinn mætti ætla að um afköst væri að ræða því ein kom 1968 en þrjár komu 1969. Af þeim er ein tónlistarlega merkileg en það er Live Peace In Toronto (with Plastic Ono Band) (1969). Eric Clapton lýsir þeirri ferð sem undarlegu fylleríi og platan mun hafa verið gefin út vegna ótalmargra bootleg platna sem voru á leið á markað af misjöfnum gæðum. Fyrsta alvöru platan er John Lennon/Plastic Ono Band (1970). Hún fékk miklar móttökur og seldist vel. Á henni eru tvö merkileg lög - Mother og Working class hero. Næst kom Imagine (1971) en hún var mun poppaðri og fékk mun mildari viðtökur gagnrýnenda en seldist þeim mun betur. Hún er frekar þétt og full af gæðatónlist þó lagið Imagine standi upp úr. Einnig er þar að finna Jelous guy, Crippled inside og Oh my love. Þá er þar How do you sleep at night þar sem hann hraunar yfir Paul.

Hann fékk þó miklar kárínur fyrir að það væri ekki nóg að tala heldur væru það verkin sem töluðu. Í Imagine er talað um heim án peninga en Yoko þótti öflug í að fara vel með peninga og í að markaðssetja.

Næst kom Some Time in New York City (with Yoko Ono) (1972). Hún fékk blendnar mótttökur enda rammpólítísk og frekar hrátt unnin. Hann bætti því aðeins um betur og gerði Mind Games (1973). Hún ber listamanninum ekki gott vitni enda var ruglið mikið. Hann var í opinberu stríði við Paul, á nippinu með landvistarleyfi í Bandaríkjunum og verulega mikil bytta. Hjónabandið var á bláþræði og sagan segir að þegar platan hafi komið út hafi ástarsambandið við May Peng hafist og The lost weekend sem stóð í um sextán mánuði.

Tímabilið einkenndist af fylleríi með hirð af fólki og fréttum af skandölum en einnig tók hann sér átta vikur í að vinna af fullri hörku og gaf þá út plötuna Walls and Bridges (1974) sem líklega var best af því sem komið var út. Platan er klassa-Lennon hlaðin flottum lögum (og rugli) en bestu lögin s.s. #9 dream og Whatever gets you through the night eru klasssssssar. Platan rokseldist og varð til þess að plötuútgefandinn dustaði rykið af gömlum upptökum að mestu frá 1973 en það er Rock 'n' Roll (1975) safn af gömlum rokkábreiðum.

Nú hermir sagan að Ono hafi sótt karl sinn aftur og rúmum níu mánuðum síðar fæddist Sean Lennon. Karlinn settist í helgan stein - lék pabba og húsföður í fimm ár meðan frúin ávaxtaði fé þeirra.

Síðan tók hann sig til og tók upp nokkur lög sín og frúarinnar og lagði grunn að endurkomu og tveimur plötum. Sú fyrri, Double Fantasy (with Yoko Ono) (1980) kom út í nóvember og aðeins þremur vikum síðar var hann myrtur á götu í New York. Seinni platan heitir Milk and Honey (with Yoko Ono) (1984). Ef maður tekur lög Lennons af báðum þessum og sleppir lögum Ono er þetta afskaplega þétt plata. Af Double fantasy komu (Just Like) Starting Over, Cleanup Time, I'm Losing You, Beautiful Boy (Darling Boy), Watching the Wheels, Woman og Dear Yoko en Milk and honey sem var gefin út fjórum árum síðar koma I'm Stepping Out, Nobody Told Me, Borrowed Time og Grow Old With Me.
Double fantasy rokseldist, bæði vegna morðsins en einnig vegna góðrar tónlistar. Annað gilti um Milk and honey sem fékk mildari mótttökur.
Satt að segja var mikil sigling á Lennon þarna en satt að segja eru lögin á seinni plötunni háfkaraðar demo upptökur,- sum alla vega.
Eftir dauða Lennons hefur ekkjan Ono gætt hagsmuna minningar hans með hóflegri plötuútgáfu. Fyrst kom The John Lennon Collection 1982. Árið 1986 kom Menlove Ave. sem eru úrköst frá plötuupptökum frá 1973-74.
Árið 1988 plata með lögum úr kvikmynd sem hét Imagine: John Lennon.
Árið 1990 kom Lennon sem er kassi með fjölda laga.
Árið 1997 kom Lennon Legend: The Very Best of John Lennon og ári síðar John Lennon Anthology full af óútgefnu efni en ekki hágæða. Út frá henni kom Wonsaponatime (sama ár) með úrvali af Anthology safninu.
2002 kom Instant Karma: All-Time Greatest Hits og 2004 kom Acoustic að mestu áður útgefið. 2005 kom Peace, Love & Truth og svo kom Working Class Hero: The Definitive Lennon sama ár.
Mér telst til að hann hafi gefið út 9 plötur lifandi, auk hljómleikaplötu og safnplötu. Eftir andlát hans hafa komið út 13 diskasöfn misstór auk hljóðrása US v Lennon og Starbucks plötu.
Hún er ekki gráðug hún Yoko.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli