Steven Demetre Georgiou fæddist í London 21. júlí 1948. Það var fyrsta nafn hans og drengurinn, sem átti sænska móður en grískan föður ólst upp í næsta nágrenni við Denmark Street sem var þá Mekka heimsins í tónlist - alla vega Mekka Londonar.
Steven eignaðist ungur gítar og sýndi fljótt mikla hæfileika við að spila og semja lög. Árið 1965 fór hann að spila í Hammersmith undir nafninu Steve Adams og sama ár gerði hann útgáfusamning m.a. um lagið The first cut is the deepest sem er einn af ógnarsmellum og yfirábreiðum sögunnar.
Hann tók upp nafnið Cat Stevens og fór að vinna við lagasmíðar m.a. fyrir aðra. Hann rúllaði út hverjum smellinum af öðrum. I Love My Dog, Matthew and Son, I'm Gonna Get Me a Gun og loks Tremeloes lagið Here Comes My Baby. Hann ferðaðist um og varð verulega þekktur lagahöfundur.
Allt þetta gerðist mjög hratt og árin 1966-7. Um það leiti fékk hann Berkla og varð að leggjast á spítala. Þar hugsaði hann feril sinn upp á nýtt og í kjölfar fyrstu stóru platanna (1967 Matthew & Son og New Masters) kom plata árið 1970 sem var boðberi mikilla breytinga en það hefur síðan þá verið einkenni hans að taka miklar kúvendingar með a.m.k. sumum plötunum.
Nýja platan kom árið 1970 og hét Mona Bone Jakon. Ólíkt hinum plötunum er hún með gítar-þjóðlagatónlist, mjög innhverf og þung á köflum. Alla vega textarnir sem eru tregafullir. Platan féll þó í góðan jarðveg og seldist hratt.
Fullur af kjarki settist Cat við aðra plötu sína og gaf út aðra af tveimur ofurplötum sínum. Hún kom út árið 1970 og hét Tea for the Tillerman. Hún rann út og er raunar góð söluplata enn í dag. Á henni er vart veikan punkt að finna og innan um ljúf lög er að finna harða þjóðfélagsádeilu eins og Wild World, Where do the children play og Father and son sem er annar ofursmellur og yfirábreiða. Ári síðar kom hin ofurplatan en hún heitir Teaser and the Firecat. Á henni eru líka mörg afburðalög en frægast er þó án efa Morning has broken. Besta? How can I tell you. Vinsælast? Peace Train.
Og nú tók hann beygju.
Næsta plata er ein af mínum algjöru uppáhaldsplötum en aðdáendur aðrir voru ekki allir sammála mér. Hún kom árið 1972 og heitir Catch Bull at Four. Hún er sterk blanda af hipparómantík, Zen búddisma (the boy with the moon and star), persónulegri líðan (house of freezing steel) og umhverfisvakningu (Oh karitas). Eina smáskífan var Sitting en þrátt fyrir deilur seldist hún gríðarlega og sat um hríð efst á breiðskífulistum í Bretlandi og Bandaríkjunum.
Og aftur kom beygja.
Árið 1973 kom Foreigner en öðru megin er The Foreigner Suite, samfellt verk, sem hefst á orðunum There are no words, I can use / Because the meaning still leaves for you to choose / And I couldn't stand to let them be abused, by you...
Það var ekki einungis andi plötunnar sem var svolítið afturvarf til sjöunda áratugarins því hljóðfærin voru allt önnur. Hann hvíldi m.a. snillinginn Alun Davies sem annars var alltaf með.
Næst kom Buddha and the Chocolate Box (1974) með afturhvarfi til platanna frá 1970/1 og smásmellinum Oh very young. Þar næst kom Numbers (1975) sem er platan til að gleyma og loks Izitso (1977) og Back to earth (1978) en með henni lauk útgáfuferli Cat Stevens.
Sögunni um hvarf hans til Islam verður sleppt hér en nú tók við nokkur þurrkur hjá aðdáaendum hans. Einhverjar endurútgáfur og heiðurstónleikar en ekkert nýtt þannig.
Til eru tvær hljómleikaplötur 1974 Saturnight og 2004 Majikat.
Safnplötur eru 1975 Greatest Hits, 1984 Footsteps in the Dark: Greatest Hits, Vol. 2, 1987 Classics, Volume 24, 1989 The Best of Cat Stevens, 1989 Remember Cat Stevens - The Ultimate Collection, 2000 The Very Best of Cat Stevens, 2001 Cat Stevens - The Box Yet, 2005 Gold og 2007 Harold and Maude Soundtrack by Cat Stevens. Á einhverju varð mamðurinn að lifa! Hann rak m.a. islamska skóla í London!
Frá 1995 birtust svo plötur undir nafni Yusuf Islam, en þær eru flestar barnaplötur eða/og trúarlegar plötur sem höfðuðu ekki til hins almenna neytanda. Nefnum þær: 1995: The Life of the Last Prophet, 1998: I Have No Cannons that Roar, 1999: Prayers of the Last Prophet, 2000: A Is for Allah, 2001: Bismillah, 2002: In Praise of the Last Prophet, 2003: I Look I See, 2003: Night of Remembrance, 2005: Indian Ocean, 2006: Footsteps in the Light, 2008: I Look, I See 2.
Árið 2006 steig hann svo fram með gítar að vopni, nokkur gömul lög og önur ný og gaf út plötuna An Other Cup. Hún vakti verulega athygli enda nokkur afbragðslög auk þess sem sá gamli steig á svið á ný. Lög eins og Midday, Heaven/Where True Love Goes, Maybe There's a World, ábreiðan Don't Let Me Be Misunderstood, og endurgerð I Think I See the Light. Masterclass. Rámari, mýkri, einlægur eins og alltaf og ráðinn í að sýna heiminum að Islam þýddi ekki hætta framundan. Til merkis um það eru þær gefnar út undir nafninu Yusuf (ekki Yusuf Islam).
Platan er mögnuð og eins og þreifing til að kanna jarðveginn. Og gekk vel.
Næsta plata varð ekki síðri og meira original. Hún kom 2009 og heitir Roadsinger. Hún er skotheld og líklega besta platan frá1971. Á henni er röð frábærra laga og hugsana og trúarbrögðin vafin inn á eins kurteisan hátt og hægt er. Welcome Home, Thinking 'Bout You, Be What You Must og snilldarstykkið Roadsinger. Á sumum útgáfum er að auki lagið Boots and sand þar sem Paul McCartney og Dolly Parton eru með!
Hvaða nafni sem gaurinn nefnist þá er hann friðarboðandi með gott nef fyrir markaðnum og ansi flottur músíkant.
Hvað viltu meir?
ekki hægt að biðja um meira- enda hann bara snillingur. Sérstaklega finnst mér nýjasta platan góð, þó ég sé alltaf hrifnust af Matthew and Son:)
SvaraEyða