5.3.10

Ofsalega stoltur

Nú eru Vakningardagar nýliðnir í Flensborgarskólanum. Ég átti hlut að því að koma þeim á annað hvort 1982 eða 1983 vegna tengsla við MS en þar hét það sama Þorravaka.
Við í Flensborg kölluðum það Vakningardaga og mig minnir að Helgi Guðmundsson hafi átt nafnið. Frá þeim tíma hef ég alltaf verið sannfærður um gildi þessara daga en jafnframt gagnrýninn á inntak þeirra. Um leið og ég mæli með þessu uppábroti verður inntak þess að vera annars vegar ómaksins virði og hins vegar að vera þess verðugt að koma í stað þess sem víkur á meðan.
Ég hef á sama tíma verið þeirrar skoðunar að við ættum að byggja á því sem í skólanum. Þar eru sérfræðingar í öllu sem hægt er að láta sér detta í hug ef grannt er skoðað.
Vakningardagar 2010 sýndu þetta vel. Það var fjöldi atriða á vegum kennara fyrir fullu húsi. Hins vegar voru utanaðkomandi atriði ýmis engan veginn sæmandi fyrir skóla og ég satt að segja mun ekki samþykkja slíkt aftur.
Dagskrá þeirra og aðsókn var engu að síður góð. En Vakningardagar eru stórt mál!
Fyrst er að ákveða þema sem að þessu sinni var draugahús. Síðan er að hanna skipulag og skreytingar en það hefst nokkrum vikum fyrir viðburðinn sjálfann. Þá er að skipuleggja ball og ballstað. Svo er að skipuleggja kynningar fyrir grunnskólanema - svo er allt annað sem fer fram á sama tíma. Og lífið sjálft að auki.
Helgina fyrir Vakningardaga er skólinn lagður undir skreytingar sem verða að vera klárar og frágengnar mánudagsmorgunn. Þar er tekið tillit til fatlaðra jafnt sem ófatlaðra.
Mánudagsmorgun er ca. 30 nemenda hópur ósofinn og svangur en svakalega stoltur. Þau hafa sýnt skólanum sínum hvað þau eru hreykin af honum og hvað þau vilja leggja á sig. Þau hafa lært ótrúlega mikið og margt. Vinabönd hafa myndast og styrkst. Þetta er hópverkefni sem þolir enga farþega.
Mánudag og þriðjudag eru kórinn og nemendafélagið í kynningum fyrir grunnskólanema. Þau eru á valdi námsráðgjafa sem stýra þeim algerlega. Það er kenning mín að þetta sé mikilvægasta augnablik markaðssetningar skólans og þau gera þetta vel!
Miðvikudag og fimmtudag eru sjálfir Vakningardagarnir og að kvöldi fimmtudags hittist stór hópur í veislu í Hamarssal sem er skipulögð og framkvæmd af Hafdísi matselju og eldhúshernum.
Þar eru skartklædd ungmenni og frábær stemming. Það er borðað og svo skemmta menn sér og öðrum. Í ár var Ari Eldjárn veislustjóri og stóð sig afburðavel. Kurteis og fagmaður fram í fingurgóma. Ég fékk á baukinn í árshátíðarskaupinu og átti það skilið sosum. Svo fór fólk á Broadway og dansaði langt fram á nótt.
Ég er á heildina stoltur af þessu verkefni þó eitt og annað hefði mátt gerast betur, öðruvísi eða eitthvað annað. Mér finnst sá lærdómur vametinn sem fólk fær af því að skipuleggja svona.
Ég er stoltur. Virkilega stoltur!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli