6.3.10

All I learned at school...

Þessi fyrirsögn er úr frægu lagi bresku strákasveitarinnar Madness en lagið heitir Baggy trousers. Seinni hluti línunnar er aftast í pistlinum.
Tilefnið eru endalausar vangaveltur mínar um hvað skólastarf eigi að snúast, hvað fólk eigi að læra. Um þetta snúast endalausar umræður og átök ekki síst milli framkvæmdar og kenningar.
Það má finna sér fjöldamargt.
Tökum íþróttir. Öll grunnskólabörnin stunda íþróttir enda er mens sana in corpore sano ekki satt? Öll sem fara í framhaldsskóla (95% hvers árgangs) gera það líka. Stór hluti hópsins stundar svo íþróttir samhliða skóla.  Og þar sem þetta er allt svona faglega unnið hvers vegna hættir þá stór hluti þeirra að hreyfa sig svo lífstílstengdir sjúkdómar og lyfjaát magnast og magnast þrátt fyrir að aldrei hafi fleiri farið í gegnum skóla en nú?
Tökum raungreinar. Þar er verið að kenna um umhverfið og heilsuna og vistkerfið og fleira í þeim dúr. Samt stöndum við líklega lakari vörð um umhverfistengda þætti en nokkru sinni.
Tökum hvað sem er.
Sem sé við erum með vel menntaða kennara við aðstæður sem eru framar öllu sem menn dreymdi um fyrir áratugum, betra kennsluefni, betri aðgang að upplýsingum. Og hvers vegna gengur þá ekki betur?
Líklega eru það nemendurnir...
Og hvað ættum við þá að kenna?
Nú er ég vissulega í alhæfingum en mér finnst við á framhaldsskólastiginu vera alltof upptekin af þekkingu. Þegar menn eru að velja kennsluefni og inntak þá er það auðvelt eða auðveldast að byggja á þekkingu. Hins vegar verður það til þess að skilningur og færni bíða á meðan.
Það er sem sé kenning mín að t.d. ætti að nota skóla, - ekki til að kenna staðreyndir heldur til að þjálfa færni, kenna vinnubrögðð og efla leikni!
Sem sé hvað á að kenna í skóla?
Það á að kenna þeim stundvísi, samviskusemi, skilvísi, vinnubrögð og ekki síst ávinninginn af því að taka á, reyna á sig og leggja sig fram. Það er svoleiðis fólk sem fer lengst! Það er t.d.  ávinningur fyrir stúdent að  hafa það í ferilsskrá að hafa starfað í félagslífi. Það sýnir m.a. að viðkomandi er tilbúinn til að leggja sig fram.
Ég er þannig sannfærður um að puðarinn fari alltaf lengra hvort sem hann er ljóngáfaður eða ekki.
Það eru hinsvegar of margir sem læra það sem Madness sungu um:
Oh what fun we had,
But, did it really turn out bad
All I learnt at school
Was how to bend not break the rules...

1 ummæli:

  1. talaðu við Dewey... hann var víst með einhverjar pælingar um þetta :)

    SvaraEyða