15.7.11

Jú, sólarlagið á Ponte Vecchia er einstaklega fallegt (og fleiri sögur)


Í gær var ákveðið að fara út úr túristaskarkalanum og upp í fjall handan árinnar, að Piazza Michaelangelo. Við stukkum upp á rútustöð til að uppgötva að þar voru bara langferðabílar. Strætó nr 13 fer norðan við lestarstöðina og ekur síðan áfram norður fyrir og út og suður þangað til hann skellir sér yfir Arn og stefnir upp hlíðina þar sunnan við. Við stökkvum út og göngum síðasta spottann, bara til að uppgötva að þeir túristar sem ekki eru í röðinni við Duomo, eru þarna, - sem og sölubásar, kaffihús og eftirlíking af Davíð konungi, þeim sem drap Golíat.

Hins vegar var ægifagurt útsýnið þar! Og ég sannfærðist enn og einu sinni um að fjöllin sem ég teiknaði hjá Böðvari teiknikennara í Melaskólanum, væru frá fyrra lífi. Böðvar spurði mig reyndar alltaf „Magnús minn, hvaðan koma öll þessi fjöll?“ og lét mig svo bara í friði.

Fjöllin ramma borgina inn og eru skógi klædd frá fjallstoppum niður í fjöru og byggðin um allt. Borgin er græn, utan við miðbæinn, en rauð þök einkenna hann.

Duomo gnæfir yfir borgina og fleiri staði má þekkja þarna ofan að. Eftir að vera búin að mynda af lífsins list, og anda að sér fegurðinni (og drekka dulítið af vatni) stefnum við niður að ánni að Torro einhverjum og strönd sem er í ánni. Brekkan er skemmtilega gróin og miðað við hve létt við vorum á fæti miðað við þá sem upp stefna, var rétt að taka strætó. Við stefnum upp með ánni og yfir Pontu (brú) heilags Niccolos. Þaðan upp að Piazza Breccia, inn Krossagötu (Via la Croce) og erum þá komin í allt aðra Flórens. Hér heyrast ekki öll mál jarðar. Hér ræður ítalskan för. Á leiðinni göngum við fram á minnisvarða um unga konu sem lést þarna á hættulegu horni. Hjá La Croce kirkjunni er lítið matsöluhús og horft á gestina sem inn koma. Sigga kaupir krydd og ég horfi með ágirnd á tunnur af víni sem hægt er að láta tappa á flöskur sem maður kemur með!
Við óskaplega ánægð og í góðum gír innan um ítalina þegar allt í einu blasa við hebresk skilti. Þarna hjá er stór synagoga og matvörubúðir merktar sem Kosher eða í lagi fyrir gyðinga.

Synagogan mun bera merki sverða fasista frá seinni heimstyrjöld en maður fann bara ítalskan anda þarna og notalegan. Við höldum áfram Via Pilastri og Via Degli og sjáum lítið kaffihús undir Rotundu eða átthyrndri fyrrum kirkju / nú máladeild háskólans í Flórens. Háskólinn er þarna víða. Kaffi segir Sigga (eða var það Beth?) og afskaplega almennilegur maður hjálpar okkur að velja samlokur til hitunar. Hræddur er ég um að sumir hefðu nú talið að þær hefðu frekar farið í ískáp en ofn „men de skal nu spises alligevel“ og voru ágætar, svo ekki sé nú talað um grænmetissafann sem ég fékk.

Þarna sat kennari og nemandi sem var að skila ritgerð og ræddu ákaft. Ekki leiðinlegur staður!

Fudum hönnuð sem vinnur gripi, marga afar skemmtilega, úr áli sem hann (hún) endurvinnur.


Götumynd frá Flórens
 Næst var það torg boðunar Maríu, einn Medici minnisvarðinn enn og svo var tíðinda að vænta, enda vorum við að nálgast Gallerie Accademia. Þar var ógnar röð og þeir fremstu búnir að standa í sólinni í klukkustund. Standa í biðröð í klukkustund og borga 11 € eða fara í næstu bókabúð og kaupa miða, fara beint inn og borga 15€? Tímakaup 4€?

Tough choice, ég í bókabúð, við inn og nú var gaman. Fyrir utan að sjá alvöru Davíðinn sjálfan, mörg verk Michaelangelos og geta með eigin augum séð húmanismann læðast inn í kirkjuverkin þá var margt að skoða og vel þess virði að koma þarna við.

Nú var horft til miðbæjarins og sest við lítið túskaníu veitingahús þar á milli Duomo og San Lorenso. Góð þjónusta, þjónarnir tveir döðruðu endalaust við konurnar en ég og Sigga töldum okkur sannfærð um að starfsfólkið talaði austur evrópumál, líklega rússnesku sín á milli. Maturinn var fínn! Þaðan var stefnt á Strozzia í von um að sjá nýlistasýningu með verkum Picasso, Miró og Dali (eða Three angry young men eins og hún heitir.
Lokað. Sorry Senior, en hvað er þetta, bærinn er að fyllast af fólki, músík allstaðar og undir veggnum við Strozzi eru þrír menn að stilla upp og prufa hljóðkerfið. Þeir byrja 21.30. Klukkustund þangað til. Við í átt að Gömlu brú (Ponte Vecchio), göngum fram á aðra tónleika við Sjálfstæðistorg, þröngar götur, svo þröngar að ég held maganum inni, svo þröngar að þök húsanna ná saman!

Í kirkju rétt við pontuna eru hollenskir krakkar að búa sig undir tónleika, skólahljómsveit, og auglýsa grimmt – „Free consert, whats free in Italian?“ hrópar stúlka í kapphlaupi við básúnuleikara sem vekja líka athygli. Ég segi við hana „Free is Grattis“ en heyri kana segja „nothing is free“ á meðan Sigga lendir á kjaftatörn við bandaríska konu sem kallar sig Professional student!

Út á brúnni er sólin að byrja að setjast og gítarspilari syngur ástarsöngva við mikinn fögnuð. Við förum í gelateríu og fáum okkur ís (Sigga vill súkkulaði ís með bitum – nokkuð að frétta Sigga?) og þegar við trítlum til baka er dansstemming á brúnni og örmagna gítarleikarinn biður um pásu.

Gulli, þetta væri eitthvað fyrir okkur. Kalla líka?

Og já, sólarlagið á Ponte Vecchio er fallegt fyrir unga elskendur, miðaldra elskendur, alla elskendur!








Upp á Strozzo aftur og nú er Joe Barbieri að taka til við spilerí og er flottur. Við fáum hann til að árita disk og hann er voða ánægður með sig og sína menn enda var hann flottur.






Klukkan er farin að halla í miðnætti og við stefnum heim á hótel. Á morgun er lest til Pisa og við kveðjum þessa mögnuðu borg með trega. Hvað skyldu hafa verið teknar margar myndir í dag af öllum sem munduðu myndavélar og síma? Hvað skyldum við vera á mörgum þeirra?

Flórens er athyglisverð, spennandi, skemmtileg og rómantísk.

Mæli með henni.

[Myndir koma inn á morgun eða síðar alla vega þar sem klukkan er orðin hálf 2 að nóttu og ferðadagur á morgun.]
Heyrumst
M og S

3 ummæli:

  1. Yndislegt:) Góða ferð á morgun!

    SvaraEyða
  2. Ps... farið upp skakka í Pisa ef þig getið!

    SvaraEyða
  3. ahhh sé það núna að ég get kommentað - vííí

    Njótið í botn. Þetta hljómar roooosalega vel hjá ykkur.
    La vita é bella og það allt saman.
    Knús
    Helga Dröfn

    SvaraEyða