16.7.11

Lukkuleit í Lucca og smá vesen í Pisa

Við vöknuðum snemma og hófumst handa við að gera okkur klár í ferðir dagsins. Leið okkar lá upp á stöð og við létum vel í ljós þakkir vegna góðrar þjónustu við þá rússnesku í afgreiðslunni áður en við fórum af stað. Eitt eru Flórensbúar búnir að innleiða en það er skattur upp á 3 € á hvern hótelgest per nótt. Hótelin ku vera svo ósátt að þau krefjast þess mörg að fá þetta greitt sem reiðufé en taka það ekki inn í gjöldin.

Við fórum upp á Santa Maria Nuovelle og tókum lest. Stöðin var full. Lestin var full. Ég setti töskurnar okkar upp á grind og við vorum þakklát að ekki urðu slys þegar þær fóru upp og ekki heldur á niðurleiðinni. Í Pisa skiptum við um lest á Centrale og fórum á San Rossore stöðina. Þar út og þar er þjónustan engin, það er enginn þar við störf, engin kort af borginni þannig að við vissum ekki í hvaða átt skyldi halda. Við hringdum á hótelið að leita ásjár og báðum um að okkur yrði sendur taxi. „you can take the bus!“ var svarið og við strax í vondu stuði við hótelið. Við fengum samt á endanum uppgefið símanúmer hjá leigubílastöð í borginni og kom bíll innan 10 mínútna. En lengi getur vont versnað.

Herbergið var hreint en lyktaði af klóaki. Það var ótrúlegur hiti í því þegar við komum inn í það vegna þess að rafmagnið var tekið af því þegar það var ekki í notkun og þar með engin loftkæling í gangi! Í því var tómur ískápur sem skiptir svo sem engu máli því hann er náttúrulega ekki kaldur þar sem, já það er ekkert rafmagn á o.s.frv. Klósettkassinn bilaður þannig að það er varla hægt að sturta niður og svo er hann laus í veggnum (tókum reyndar ekki eftir því fyrr en heim kom í kvöld.

Við ákváðum að fara til Lucca sem er lítið rómverskt þorp norð-austur af borginni. Við áttum góðan dag þar. Gengum um þorpið og fengum okkur að borða á frábæru veitingahúsi í einni þröngu hliðargötunni (en þær eru sko margar) áður en veið héldum aftur til Pisa. Ég mun fjalla um það á morgun en netsamband hér er svo slæmt að það er ekki vinnandi vegur að skrifa meira núna, fyrir utan það að ég verð að fara niður í afgreiðsluna þar sem ekkert netsamband er annars staðar í húsinu.

Kveðja frá Pisa þar sem fleira er skakkt en turninn!

M og S

Engin ummæli:

Skrifa ummæli