21.8.11

Þarf nokkuð að vanda sig?

Ég er afskaplega mikill aðdáandi þeirrar helgar ársins sem menningarnótt í Reykjavík dettur á. Í fyrsta lagi er maraþonið sem ég tek fyrir sér. Í öðru lagi er öll sköpunargleðin sem leysist úr læðingi með opnum húsum, listviðburðum og öðru. Vera má að sumt þyki skrýtið en það er líka svo margt frábært. Í gær voru Magnús og Jóhann og fleiri í Hljómskálagarðinum, Magnús Eiríks og KK í Rosenberg og hundruð annarra viðburða. Svo nær þetta hámarki með stórtónleikum Rásar 2 og þeirra sem styrkja það og endar með flugeldunum.
Og á degi eins og í gær? Hvað er betra? (myndin er tekin um morgunin reyndar).
Ég reikna með að lesandinn sé farinn að sjá að það hangir eitt stykki EN í loftinu.
Stórtónleikarnir voru án efa flottir. Ég sá The White Soxs sem ásamt Jónsa voru bara svalir. Mugison með Adda Gísla og co var líka alveg frábær.
En svo kom kallgreyið hann Bubbi.
Ég er mjög hrifinn af Sólskuggunum. Þeir eru alveg svakalega flottir.
En Bubbi? Með allan sinn lagalista? Þarna voru tugir þúsunda, börn og fullorðnir. Fjölskyldur.
Fyrst kom Ísbjarnarblús sem endar á pælingu um kíló af grasi og að fíla náttúruna.
Flljótlega þar á eftir fór hann yfr hvernig Svartur afgan varð til og stuttu síðar kom blammering á Hörpu, sem átti að vígja fáeinum mínútum síðar. Endalaus Yei og yæ og komment á stúlku sem væri í stuði. ,,Hún er í stuði", sagði Bubbi. ,,Veit ekki hvort hún er á efnum en hún er i stuði..."
Og svo var lagaúrvalið ekki stærra en svo að það þurfti að taka afar sýrukennda (en flott spilaða) útgáfu af Ísbjarnarblús aftur.
Mér finnst að á þessum punkti ætti að hafa mann sem hægt er að treysta til að láta ekki eins og Bubbi lét í gær. Þetta tók alveg úr mér gleðina um tíma.
Bubbi spilaði með Egó minnir mig á hafnarbakkanum fyrir mörgum árum síðan í svipuðu veðri og var þá flottur. Í gær var hann ekki flottur. Allt hitt var flott.
Samt hlakka ég til næsta árs.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli