Á dögunum heyrði ég tvo ágæta þingmenn ræða Evrópumál og krónuna. Var annar mjög áfram um aðild en hinn á móti, annar mjög áfram um Evru og hinn um varðveislu krónu. Það sem þó vakti athygli mína var að á endanum voru þeir sammála um að þetta snérist um hagstjórn og siðferði. Fannst þá krónumanninum betra að hafa stjórn á krónu en hinn benti á að kannski þyrftum við höftin sem fylgdu Evrunni.
Allt var þetta mjög eftirtektarvert. Hins vegar er ég ekki búinn að fá botn í gæði krónunnar. Enda er krónan eins og bíllinn minn, það er bílstjórinn sem ræður för og ef hann ætlar í Þórsmörk á Yaris þá heyrist bara blúbb við Krossá.
Þannig að það er aveg rétt að króna versus evra er kannski ekki rétta spurningin en það má samt spyrja hennar. Sem sé – Við tókum upp krónu snemma á tuttugustu öld. Þá átti hún að fylgja þeirri dönsku. Nú er danska krónan um 25 sinnum verðmætari en sú íslenska og að auki höfum við tekið tvö núll af okkar svo þar með er sú danska 2500 sinnum verðmætari. Okkar króna er því 1/2500 af því sem hún var eða 0,004% sem sé 4 prómill af því sem hún var. Þetta er lærdómurinn af hagstjórn tuttugustu aldar og síðasta áratugar að auki. Hversu lengi á þessi tilraun að standa?
Verðtrygging er annað sem deilt er um. Hvergi hygg ég á byggðu bóli er annar eins vefur verðtrygginga og hér. Til er á Hagstofu Íslands (hagstofan.is) greinargerð um þróun vísitölu neysluverðs og raunar allra hugsanlegra vísitalna. ÉG hef haldið því fram og fleiri að vísitalan sé í raun verðbólguhvetjandi vegna þess að hækkun einnar ýtir á aðra. Vissulega má segja að það sé einföldun en maður man þá tíð að hækkanir á vísitölutengdum vörum voru látnar bíða fram yfir þann dag mánaðar að vísitölumæling væri birt. Þannig töldu þær ekki fyrr en næstu mánaðamót. En aðrir hafa bent á að vísitalan sé eins og fíkniefni. Meðan hún sé notuð til að tryggja fjármagn þá sé öllum sem máli skipta sama. Þannig sé hún eins og staðdeyfing og hvatinn til að taka betur á hagstjórnartækjum og raunverulegum úrræðum skipti minna máli.
Hvað segir sagan?
Á Hagstofuvefnum má sjá að frá 1997 til 2011 hefur bensínverð þrefaldast, sem og húsnæðisverð. Hvernig má vera, ef byggðar voru 8000 íbúðir umfram eftirspurn að húsnæðisverð hrynur ekki? Jú líklega vegna þess að lífeyrissjóðir og bankar eiga of mikið undir og geta haldið umframhúsnæði til hliðar, - í bili allavega.
Innflutt og innlend mat- og drykkjarvara hefur einungis (svo) tvöfaldast á sama tíma.
Förum lengra.
Ný neysluverðsvísitala var birt 1988 (100) en þá hefur verið krukkað í vægi þeirra þátta sem hana mynda. Í dag eru sú 377 stig. Það þýðir að það sem fékkst fyrir hundraðkall þá kostar 377 krónur í dag að jafnaði. Eldri vísitala er frá 1984 (100) og er nú um tæp þúsund stig. (100 kall 1984=926 kr í dag m.v. þá samsetningu). Vísitalan frá 1981 (100) mællist nú tæp 3700 stig (sjá um hundraðkall) og frá 1968 (100) 119.225,9.
Hvað hefur verðtryggingin gert? Ekkert sem hagstjórnartæki. Hún hefur einvörðungu mælt hrun íslensku krónunnar. Og hverju er þá verið að fórna?
Svona í blálokin. Veistu að elsta vísitölumæling Hagstofunnar er frá 1939. Neysluverðsvísitala. Þá var enginn Skjár-inn, Stöð 2, sjónvarp, farsímar og fleira. Hún mældi því aðallega mjög mikla grundvallarþætti. Elsta birta talan er frá 1939 og þá var hún hundrað.
Raunar 102 stig.
Það tók tuttugu of fjögur ár að tífalda hana eða árið 1963 en þá varð hún 1040.
Það tók fjórtán ár að tífalda þá tölu en 1977 náði hún 12.822 stigum.
Það tók sex ár að tífalda þá tölu en 1983 varð hún 178.866 stig. Þá var nýbúið að taka af tvö núll vegna þess að það var svo gott hagstjórnarlega séð.
Sextán árum seinna náði hún einni milljón stiga. Sem sé ef eitthvað kostaði 100 kall 1939 þá kostaði það milljón 1999.
Tólf árum síðar náði hún tveimur milljónum stiga eða árið 2011 – 1.995.233,1.
Vextir í krónum (án verðtryggingar) eru margfaldir á við Evru. Er ekki þessi tilraun að verða fullreynd?
En vitaskuld er þetta ekki krónunni (bílnum) að kenna. Bílstjórinn er sá sem réði för,- eða hvað?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli