30.1.12

Bergnuminn og gagntekinn

Það var auðvelt að verða bergnuminn yfir því sem gerðist í Eldborgarsal Hörpu í dag, sunnudag. Ekki er nóg með að salurinn sé glæsilegur og hljómburður til fyrirmyndar. Það voru tæplega 300 ungmenni á sviðinu og fóru á kostum. Um var að ræða tónleika Sinfóníuhljómsveitar tónlistarskólanna og með þeim sungu kórar Flensborgarskólans og Menntaskólans í Reykjavík.
Efnisskráin var metnaðarfull og glæsileg. Flutningut verkanna frábær. Umgjörðin við hæfi. Með öðrum orðum ég var gagntekinn af hrifningu.
Til hamingju allir sem áttu hér hlut að máli.
Tónleikarnir hófust með því að Katrín Brynjarsdóttir lék einleik á hörpu og spilaði lag Jóns Ásgeirssonar við Vísur Vatnsenda-Rósu. Afskaplega fallega svo ekki sé meira sagt. Því næst fungu kórarnir, við undirleik hljómsveitarinnar, Finlandiu eftir Sibelíus. Vel gert og hljómaði vel.
Næst kom kórverk Hjálmars H. Ragnarssonar við Áfanga Jóns Helgasonar og var það ekki síður vel gert. Kórarnir fluttu kvæðið afskaplega vel og ekki var undirleikurinn síðri.
Síðan kom Ragnar Jónsson, átján ára sellóleikari, og lék með hluta sveitarinnar. Þau fluttu verk Tsjakovski, Pezzo capricciosco op. 62. Ragnar flutti verkið af mikilli nákvæmni og persónuleika og sveitin var góð með en kannski helst veik.
Eftir hlé var flutt verk Bizet, L'Arlésienne nr. 2. Raunar voru teknir tveir kaflar úru fyrri svítunni. Menuettinn (þriðji kaflinn) var sérlega fallega leikinn en hann er lágstemmdur kafli leikinn á hörpu, flautu og fleiri hlóðfæri sem einleikskaflar. Þetta verk Bizet var flutt af krafti þar sem við átti og afar nákvæmri ljlúfmennsku þar sem það átti við. 
Eftir öflugt uppklapp tók sveitin, með kórunum, seinni helming Finlandiu og var nú ekkert gefið eftir.
Sem aðstoðarskólameistari Flensborgarskólans, gamall MR ingur og mikill áhugamaður um tónlist, auk þess að vera áhugasamur um tónlistarnám, þá verð ég að segja að þessari stund í Hörpu var vel varið.
Kórstjórarnir, Hrafnhildur Blomsterberg og Guðlaugur Viktorsson hafa þálfað kóra sína vel og Guðmundur Óli Gunnarsson, stjórnandi tónleikanna, hafa skilað verki sínu vel og það var algjör snilld að sjá hversu agaðir krakkarnir voru sem og frábærlega vel æfðir.
Þá fengum við miklar þakkir fyrir að leyfa kórunum og sveitinni að æfa í Hamarssal og áttu stjórnandinn og aðrir ekki orð til að lýsa hljómburði og aðstöðu í salnum. Það er heiður fyrir skólann að hjálpa við þetta verkefni og eiga hlutdeild í þessum frábæru tónleikum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli