15.1.12

Hver er hann þessi Jethro Tull?

Jethro Tull var breskur landbúnaðarfrömuður á átjándu öld. punktur.

Á tuttugustu öld tók bresk blússveit upp þetta nafn, að sögn eftir að hafa spilað undir mörgum nöfnum, en bara einu sinni undir hverju um sig. Þegar þeir höfðu spilað undir þessu nafni eitt kvöld og voru beðnir að koma aftur varð það úr að þeir notuðu það aftur.
Fyrstu plötuna gáfu þeir út 1968 og fljótlega eftir það tók söngvari sveitarinnar öll völd. Aðalsprautan, Mick Abrahams hætti og stofnaði Blodwyn pig, sem enginn hefur heyrt um. Ian Anderson réði Martin Barre á gítar í staðinn og hefur starfað síðan undir merkjum Jethro Tull sem allir rokkunnendur kannast við.
Fyrsta platan hét This was, svo kom Standup og loks Benefit 1970. Þessar eru blúsaðar þó Benefit vísi á þyngra rokk sem nú var framundan. Næst koma þrjár concept plötur. Fyrsta er Aqualung sem Anderson kallar lagasafn og hefur oft látið í veðri vaka að hann hafi lítið dálæti á. Samt eru fleiri ög af þessari i venjulegu tónleikaprógrammi Tull en af nokkurri annarri plötu. Lög eins og Aqualung, Cross eyed Mary, Locomotive breath eru föst en að auki hafa Wind up, Hymn 43 og Mother Goose oft verið með. Næst kom Thick as a brick sem er tvö samfelld tónverk - hlið a og hlið b á vinylnum og síðan A passion play sem sama gildir um. Þarna fór Anderson nýjar brautir en erfiðleikarnir við að flytja verkin gerði að verkum að það var almennt ekki gert nema í túrunum sem voru farnir beint í kjölfarið. Thick as a brick og Aqualung standa upp úr af þessum verkum og næstu plötur voru mistækar, - góðar og nú var beygt úr hörðu rokki í meiri þjóðlagastefnu. War child (frekar hörð) var mistæk en Minstrel in the gallery er sterkari og betri. Too old to rock and roll er ein alfrægasta og mest selda platan og þykir frekar skotheld. Hún er flott en heillaði mig aldrei. Næstu tvær voru enn meiri þjóðlagaverk og leyna verulega á sér. Þetta eru Songs from the wood og Heavy horses. Afbagðs plötur.
Þegar hér var komið við sögu hafði Anderson skipt út úr bandinu flestum, nema Martin Barre gítarista.
Nú fór Anderson að þreyfa fyrir sér með raftækni og komu út fjórar misjafnar plötur. Þetta eru Stormwatch (1980), A (1982), Broadsword  (1983) og Under wraps (1984). Ekki meira um þær.
Mitt mat er að bandið hafi verið flottast frá 1970 til 1980 og skora á hvern sem er að hlusta t.d. á Bursting out hljómleikaplötuna sem kom út 1978 og sýnir þá í fantaformi. Eða hlusta á 25 ára útgáfuna og bera saman tímabilin.
Eftir Under wraps kom útgáfuhlé og biðin var þess virði. 1987 kom Crest of a Knave sem er snilld, þétt rokk og fullt af lögum. Næsta var lakari, Rock Island en Catfish rising og Roots to branches eru skolli góðar. Síðasta alvöru stúdíóplatan er J-Tull dot Com. Sosum ágæt í sjálfu sér.  Catfish kom 1991, Roots 1995 og J-Tull 1999. 21 stúdíóplata með fullt af góðri tónlist á þrjátíu árum. Ekki margir sem toppa það.  Eða kraftinn í karlinum. Djöflast á sviðinu fram og til baka.
Þegar þeir höfðu starfað í tuttugu ár fóru að streyma út söfn laga. Á tuttugu ára afmælinu kom út tvöfaldur safndiskur, Best of. Á 25 ára afmælin flottur kassi með tónleikaútgáfum frá ýmsum tímum, tónleikum frá 1969, æfingaupptökum o.fl. Þá kom út Night cap safnið með lögum sem aldrei komust alla leið, sem og frumvinnunni að því sem seinna hét A passion play. Þá hafa komið út nokkur tónleikasöfn. Nefndi Bursting out, svo er A little light music o.fl. Eitt skemmtilegasta safnið er raunar frá BBC  en þar eru upptökur frá því um það leiti sem fyrstu plöturnar komu út.
Loks má nefna jólalagasafnið sem er alveg brill.
Hins vegar hafa útgefendur Andersons og hann verið duglegir að gefa út endurútgáfur. Þannig er til 20 ára afmælisútgáfa af Standup. 25 ára afmælisútgáfa og ég held alla vega 40 ára útgáfa.
Og nú er að koma 40 ára útgáfa af Thick as a brick.

Og það er verið að auglýsa tónleika með Jethro Tull í Hörpu. Hjartað tekur kipp.
En ef það kostar frá 15 þúsund á Kiri te Kanawa, hvað kostar á þetta?

Svo fer maður á jethrotull.com og hvað stendur þar?
"Ian will perform the classic concept album in its entirety for the first time since 1972, going out for a world tour..."

Ian will perform. Ekki Jethro Tull.

Það er sosum allt í lagi. 
Mig langar - langar mig?

Veit það ekki. 
 
Ég þekki þessa útgáfu frá plötunni og finnst hún flott..
Og þessa frá 1978 og þarna finnst mér flottasta útgáfa sveitarinnar vera á ferð.
Og þessa frá 1973 á sviði.
Og þessa frá sviði 1972 og 1976
Svo sá ég Anderson á sviði með Luciu Micarelli og félögum úr sinfóníuhljómsveit Íslands og fleirum. Frábær kvöldstund. Þar heyrði ég þessa gerð, 2006.
 

Og þá er það spurningin - hvaða minningu vil ég eiga?

Ps - hér er internetútvarp Jethro Tull

Engin ummæli:

Skrifa ummæli