23.1.12

Silfur að gulli?

Stöku sinnum gerist það að Silfur Egils fer inn á brautir sem eru verulega íhugunarverðar. Það gerðist í dag. Viðtal Egils við Karl Sigfússon, sem kallar sig millistéttaraula, var athyglivert vegna þess að hann er að benda á hvernig lánakerfið kúgar lántakendur. Sama gildir um viðtal hans við þá Gylfa Arnbjörnsson og Ólaf Darra Andrason hjá ASÍ um skaðann af krónunni sem og viðtal hans við Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur um leikkerfi stjórnmálanna. Gylfi og Ólafur Darri sýndu skaðann af efnahagsstjórn landsins í skugga krónunnar og Sigurbjörg benti á hvernig frávísunarumræðan föstudaginn 20/1 2012 skapar einfaldlega leikstöðu fyrir stjórnmálamenn á alþingi, auk þess að sýna hversu vanhæft þingið er sem og eftirlitsstofnanir í alvöru dagsins.

Allt þetta var afar merkilegt. Samt stefndi í að fyrsti hlutinn yrði hreint kynngimagnaður. Það endaði samt ekki þannig. Sá hófst með játningu Þráins Bertelssonar og einhverskonar uppgjöri hans og Guðfríðar Lilju. Síðan kom atriði með inngripi Birgittu Jónsdóttur sem mæltist afar vel um hæfi og vanhæfi þingmanna og loks atriði með Ragnheiði Elínu sem sosum reyndi að verjast en sannfærði ekki mig. Svo er leið á þennan hluta þá fór umræðan í hefðbundinn farveg og hápunktur þar þegar Þráinn sýndi ótrúlegan hroka með því að segja við Ragnheiði Elínu „leyfðu mér nú að tala/klára elsku kerlingin mín.“

Ég fór að hugsa um þetta hæfi / vanhæfi.
Enn eru ráðherrar í ríkisstjórn sem sátu í hrunstjórninni.
Enn eru þingmenn sem voru leiðandi á þingi og/eða í ríkisstjórn fyrir hrun.

Hvað hefði gerst í lýðræðisríki á þessu kjörtímabili?
1.    Forsetinn hefði sagt af sér, vegna tengsla við hrunið 2008 frekar en fara í huggunarherferð í ársbyrjun 2009.
2.    Þeir sem sátu í ríkisstjórn fyrir hrun hefðu ekki gefið kost á sér til stjórnarsetu. Ekki heldur Jóhanna.
3.    Þeir sem sátu á þingi fyrir hrun, jafnvel líka þingmenn VG hefðu ekki boðið sig fram 2009, ekki einu sinni í heiðurssæti.
4.    Þingið hefði sagt af sér eftir fyrri ICEsave kosninguna.
5.    Þingið hefði sagt af sér eftir þá seinni.
6.    Forsetinn hefði sagt afdráttarlaust að hann vildi vera áfram 2012 en ekki sett á svið þá leikfléttu sem blessaður Guðni Ágústsson hefur látið hafa sig út í.

Annað sem hefði gerst í alvörurríki síðustu vikur?
7.    Forsvarsmenn Matvælaeftirlitsins hefðu sagt af sér og stofnuninni líklega lokað.
8.    Forstjóri Ölgerðarinnar sagt af sér eða verið rekinn.
9.    Jói Fel hefði skammast sín.
10.    Þeir bændur sem keyptu gallaðan áburð væru að hamast við að sýna að framleiðsla þeirra væri í lagi.
11.    Landsvirkjun myndi harma óhóflega og stórskaðlega notkun DDT við bygginu Steingrímsstöðvar.
12.    Ýmsir aðilar innan heilbrigðiskerfisins væru búnir að skipta um stóla.
En á Íslandi er þörf fyrir að reynt fólk sitji áfram svo allt sé nú í lagi. Við höfum séð að það er traustsins vert.

1 ummæli: