Ég velti oft fyrir mér, þegar fjölmiðlar birta myndir af slysum, nöfn á fórnarlömbum o.s.frv. hvort það fólk hafi gengið í gegnum það sama og fjölskylda mín gerði fyrir þrjátíu árum síðan. Það munaði að vísu því að þá var fórnarlambið ekki til staðar.
Þetta krefst líklega skýringa. Í janúar 1982 birtist þessi mynd í Mogganum þar sem verið er að breiða yfir fórnarlamb skotárásar í útöndum. Þetta snertir okkur fæst, nema við getum velt fyrir okkur hversu geðsleg svona mynd er. Margar verri hafa birst. Maðurinn sem þarna lá átti sína vini, ættingja og samstarfsmenn sem voru harmi slegnir yfir þess ótrúlega atviki. Ég hef án efa flett blaðinu og hugsað lítið um þessa forsíðu.
Tveimur dögum seinna, að morgni 21. janúar 1982 lést Kristján Karlsson Víkingsson bróðir minn. Það er ótrúlegt að sitja í fallegu veðri, við fannhvíta jörð, og hugsa til þessa dags. Hann fórst í björgunaraðgerð við Vestmannaeyjar og fannst aldrei. Það var erfitt.
Atvikið vakti gríðarlega athygli og fréttamiðlar fóru hamförum. Það voru samt einvörðungu dagblöðin og Ríkisútvarpið þá. Ég man enn eftir samtalinu sem ég átti við fréttastjóra Ríkisútvarpsins, sem lá í mér að fá að birta nafn hans í kvöldfréttum. Við vorum ekki búin að kortleggja hvort við hefðum náð í alla sem þurfti að tala við. Auk þess sem okkar nánasta fólk var sumt enn að velta fyrir sér hvort von væri til þess að hann væri týndur en ekki látinn. Það að birta nafnið var staðfesting okkar á að hann væri farinn. Sem hann var. En það að vita ekki hvar hann var fór mjög illa í okkur. Það að vita ekki hvort við gætum kvatt.
Daginn eftir birtist þessi forsíða á Mogga. Ég varð æfur. Af hverju vorum við ekki látin vita? En þegar ég talaði við Moggann þá var svarið að nafnið hefði birst í kvöldfréttum daginn áður og þar með hefði þessi mynd Sigurgeirs í Eyjum verið akkúrat það sem vantaði. Það væri ekki hægt að sinna svona í önnum dagsins.
Ég var lengi að fyrirgefa þetta.
Það var Axel frændi minn sem fékk mig til að sættast við málið. Hann sagðist líta á þessa mynd, þá síðustu sem til var af bróður mínum, sem mynd af hetju. Hetjunni sem hann var. Hann sagði mér að ég ætti að gera slíkt hið sama. Og hann átti fleiri myndir frá Sigurgeiri.
Mikið er ég þakklátur þessum góða frænda mínum fyrir leiðsögnina.
En ég hugsa enn til aðstandenda fólks, þegar nöfn eru birt. Sem betur fer er oftar farið fram af meiri rósemi en gert var þennan dag.
Þrjátíu ár. Blessuð sé minning hans.
Elska þig pabbi minn.
SvaraEyða