25.2.12

Hvað er málið?

Alltaf gerist það af og til að upp sprettur misreiðileg umræða sem einkennist af hneykslan um lýtalækningar. Pip umræðan hefur staðið um nokkurt skeið og á visi.is birtist nýlega umfjöllun um aðgerðir á afskaplega mikið privat líkamshlutum kvenna ásamt frábærri tilvitnun í Sæunni Kjartansdóttur.
Þegar ég heyri rætt um þessa hluti þá snýst umræðan gjarnan um hégómagirnd, tískusveiflur og fleira sem þykir gefa mynd af heldur heimskulegri hjarðhegðun.
En hvað er málið?
Er rétt að telja að konur séu svona vitlausar? Liggur ekki annað að baki?
Hefur ekki hver og einn rétt á að láta snurfusa sig ef hann vill?
Og hvar liggja mörkin?
Tökum mig. Bráðmyndarlegan og hógværan mann á miðjum aldri. Tæplega, meira að segja (miðjum aldri á ég við)...

Ég stunda ýmis inngrip.
Ég er með gleraugu. Ég tek ofnæmislyf til að draga úr ofnæmmisviðbrögðum og að auki önnur lyf til að bæta lífsgæði mín eftir því sem mér og læknum þykir við hæfi. Ég hef hugleitt að láta laga á mér augun svo ég geti sleppt gleraugum, láta hefla af tánum mér svo ég geti notað skaplegri skóstærðir, lita grámann úr hárinu svo ég verði unglegri. Það virkar ekki á mig að ég sé sagður virðulegur svona grásprengdur. Svo kæmi til greina að láta hefla af kviðnum svo ég þurfi ekki að fara að ráðum einkaþjálfara og megra mig. Ef ég þyrfti hjarta eða eitthvað annað þá myndi ég þiggja það án þess að hika. Hvenær fer ég yfir inngripamörkin?
Sem sé, - hvar eru mörkin?
Ég ætla ekki að ræða þessar aðgerðir sem slíkar. En það er einkum þrennt sem ég velti fyrir mér.

Fyrsta er að það er til feyknaleg tækniþekking. Sérfræðingar geta lagað hársvörð, rétt af nef og augu og svo framvegis. Þessi þekking getur bætt líf t.d. fólks sem lendir í brunaslysum eða öðru. Það er afar  mikilvægt að svo sé. Sem betur fer eru slík slys svo fá (7-9-13) að læknarnir hafa ekki nóg að gera á ársgrunni við slíkt og græjurnar þeirra rykfalla á millli.
Sagði Kári Stefánsson ekki að ef þekking skapaðist þá yrði hún notuð? En jafnframt sagði hann ,,Það er hins vegar alltaf samfélagið, sem slíkt, sem ákveður endanlega hvernig við leyfum að þekkingin sé notuð, en ekki akademían eða iðnaðurinn. Hlutverk akademíunnar og iðnaðarins er aftur á móti að uppfræða samfélagið þannig að það geti tekið afstöðu..."
Ef Kári hefur rétt fyrir sér þá eru þessar lýtalækningar, hverjar sem þær eru, þær sem ekki eru bein og augljós nauðsyn, til staðar vegna þess að samfélagið samþykkir þær.

Annað er að læknarnir skapa sér verkefni. Stórmarkaðir eins og Bónus eða Krónan stefna ekki að því að vera með eina búð heldur margar. Læknir, sem er með skurðstofu og starfsólk á launum, reynir að halda uppi nýtingu á stofunni. Þess vegna, ef ég færi til slíks læknis, myndi hann frekar koma með lausnir sem verða til þess að stofan nýtist, frekar en senda mig annað. Að sjálfsögðu. Að sama skapi myndi nuddari koma með uppástungur tengdar nuddi og miðill leggja til andafund.
Það er ekki flóknara.

Þannig erum við með þekkingu og tæki = framboð. En hvaðan kemur eftirspurnin?

Þriðja. Flettu Séð og heyrt, Nýju lífi, Cosmopolitan o.s.frv. eða horfðu á sápurnar í sjónvarpinu, músíkmyndböndin, bíómyndirnar, sjónvarsstöðvar eins og E o.s.frv. Var ekki sjónvarpsþáttaröð fyrir nokkrum árum þar sem fólk (sérlega konur) var skorið til og lagfært? Í þáttalok var læknirinn lofsunginnfyrir að bjarga lífi og andlegri tilveru. Er ekki þáttur í loftinu núna þar sem Kalli Berndsen tekur nánast vonlaus tilfelli (konur) í meikóver (endursköpun), tekur að sér eitthvað sem lýst er með orðum sem ég vil ekki rita og breytir þeim í gyðjur? Og það eru fleiri slíkir þættir.
Með miskunnarlausu tískuuppeldi og auglýsingum er eftirspurnin sköpuð.

Sko, ef ég vil láta snyrta mig og snurfusa fyrir hundraðþúsundkall, skiptir þá máli hvort ég læt sarga af tánum eða augunum, hefla vömbina eða eitthvað annað? Erum við ekki alin upp við að gera hlutina af því okkur langar til þess. frekar en að láta vera að gera hlutina, þó okkur langi til þess?

Ég er ekki jafnhrifinn af öllu sem Kári Stefánsson hefur sagt eða gert, en hugsunin hér að ofan er vel orðuð.
Ekki fordæma þau sem við ólum upp. Fordæmum þá sem ólu þau upp.


PS. svo er eitt enn - miklar lýtaaðgerðir eru til þess fallnar að auka hagvöxtinn. Og ef þær mistakast - þá eykst hann enn meir!

Hvað er málið?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli