1.2.12

Smá meira um hagstjórn og krónur

Mér hefur verið sagt að með svoddan pistlum og síðast birtist, sem og fleirum svipuðum, að ég sé að tala niður Ísland. En ég er að reyna að tala það upp úr hjólförum vana, spillingar og blekkingarleikja.
Þeir sem tala harðast gegn ESB eru öfl sem fóru sínu fram í spilltu vinavæðingarsamfélagi og maður þarf ekki annað en grípa niður í einverjum mesta glæpaþriller sem út hefur komið (Rannsóknarskýrslu alþingis) til að sjá það. Framsókn og Sjálfstæðisflokkur berjast um á hæl og hnakka í kröfunni gegn ESB í skugga ritstjóra Moggasnepilsins, en ef það var eitthvað sem kom okkur í vanda þá voru það þeir og þeirra forysta. Afstaða VG er merkileg þar til maður áttar sig á að þar stýra ferð (eða hafa gert á umliðnum árum) hagsmunaverðir sem hugsa meira um hagsmuni ákveðinna afla. Þar erum við að vísu laus við ráðherra sem sýndi framsóknareðlið eins opinskátt og hægt var. Þegar svona öfl ráða ferð þá er ekki farið yfir málin á hlutlægan hátt, kostir og gallar vegnir og metnir, heldur farið áfram með hótanir og hræðsluáróður að vopni.
Ísland tapar sjálfstæði sínu! Af hverju sækir ESB þá ekki ICEsave málið fyrir hönd Breta og Hollendinga?
Landbúnaður hrynur! Hann gerði það ekki annars staðar og að auki – er hann ekki þegar á brauðfótum?
Svarthvítar myndir og tvílitir tölvuskjáir eru ekki mælikvarðar þegar við höfum alla mögulega liti til að skoða. Og hótanir eða ógnanir eru ekki málefnaleg umræða.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli