Ég sé ekki Moggann á hverjum degi en þegar ég fletti honum og skoða greinarnar í miðju blaðsins þá einkennast þær af skrifum ESB andstæðinga og orðfærið verður grófara og gildishlaðnara með hverjum deginum sem líður. Sleggjudómar, hástemmd en lítillækkandi lýsingarorð einkenna skrifin. Manni líður eins og þetta fólk hafi ekki farið út úr húsi eða til annarra landa um ævina. Halda menn að ef við göngum í ESB þá streymi hingað kommissaraher til að láta okkur breyta tungutaki, ganga í einkennisfötum, afnemi íslenska ríkisstjórn og alþingi, yfrtaki í einu vettvangi íslenskt atvinnulíf og geri okkur að þrælum?
Hefur þetta fólk komið til Möltu (smáríki), Bretlands, Þýskalands, Svíþjóðar?
Ég veit ekki betur en að menningarlega, stjórnsýslulega og efnahagslega sé allt með svipuðu móti og var í löndum ESB. Í sumum þessara landa nota menn Evru en öðrum gamla gjaldmiðla tryggða með Evru. Hagkerfi þeirra eru ekki hrunin vegna Evrunnar eða ESB. Ef þau eru í vanda er það vegna fólks sem fór í kringum regluverkið í þessum löndum, rétt eins og hér á landi.
En líklega er umræðan í sama farvegi og vanalega. Þeir sem hagsmuna hafa að gæta beita ofbeldi og hótunum, ógnandi orðfæri og hræðslu á fólk til að tryggja sig. Hins vegar er ekki verið að hugsa um hagsmuni almennings. Það eru hagsmunir valdaaflanna sem ráða för, þeirra sem hafa getað með samspili ætternis, eignarhalds og aðgengis að fjármagni, m.a. fjármagns sem aðrir áttu (sbr. 500 milljarðana sem hurfu úr lífeyrissjóðum) farið frjálslega með og makað eigin króka.
Við sjáum til þegar spilin verða lögð á borðið. Ég ímynda mér að ógnaráróður moggapenna sé stigvaxandi í samræmi við það að þessir aðilar vita að ef skynsemin fær að ráða þá missi þeir spóna úr öskum sínum.
Og eins og segir á ensku – about time to!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli