2.4.12

Í hvaða átt ætli Jón vilji horfa?

Guð hvað ég sakna fyrirgreiðslupólítíkusa. Maður vissi alltaf hvar maður hafði þá.
Jón Bö(ðvarsson) blessaður vissi að ég var að fara að hitta Sverri Hermannson einu sinni og gráta út seðla til að vinna fornleifarannsókn. „Talaðu um Vestfirði“ sagði Jón sem var snillingur og labbaði út með styrki eins og ekkert væri.
Ég skalf eins og lauf í vindi, talaði um Vestfirði og viti menn Sverrir lyftist og kættist og ég fékk pening. Ekki eins mikið og Jón samt.
Nú eru bara tveir eftir. Sómamenn. Árni Johnsen, úr Eyjum, sem sat í djeilinu fyrir þjófnað, og Gunnar Birgisson úr Kópavogi sem er „stain free“ og bíður þess að verja hendur sínar vegna ásakana um misferli með Lífeyrissjóð starfsmanna Kópavogs.
En ég sakna svona manna.
Í staðinn eru komnir alveg nýir menn og konur (aukið jafnrétti) en þau eru svo fulll af réttlætiskennd að það hálfa væri hellingur. Þetta fólk er ekki að redda mönnum eins og mér einhverjum aurum. Það setur ríkisstjórn og flokksforystu skilyrði um að það sé gert sem rétt er. Ef ekki þá segir þetta fólk sig úr flokknum, situr sem utanflokka, stofnar jafnvel nýja flokka eða gengur í aðra flokka.
Ég kaus nú líklega sumt af þessu liði. Beint eða óbeint. Bara man það ekki.
Einn flokkur (þingflokkur) hætti í stjórnmálaflokknum og situr sem fastast því þau hafa svo rétt fyrir sér að eigi má víkja eins og Jón Sigurðsson sagði.
Þessi utanflokkahópur réttlátra þingmanna er orðinn svo stór að hann hefur verulega mikið að segja. Það er Þráinn (nei hann fór úr Borgarahreyfingunni og í utanflokka og þaðan í VG) og Margrét og Birgitta og Þór sem sögðu sig úr stjórnmálaflokknum og svo er Guðmundur sem hætti (skiljanlega) að vera Framsóknarmaður og Ásmundur sem hætti að vera VG og varð Framsóknarmaður (kannski ekki utanflokka en kem að því) og loks Lilja og Atli sem urðu víst bara VG part time fyrst en hættu svo alveg að vera VG. Lilja er búin að stofna samstöðuflokk sem er búinn að klofna...
Þetta eru átta fiskar. Framsóknarmenn eru níu, Samfylkingarmenn 20, Sjálfstæðismenn 16 og VG 12.
Átta menn og konur, kosin fyrir tiltekna flokka og málstað, af kjósendum þeirra flokka.
Hversu margir skyldu hafa kosið Þráin á þing frekar en að kjósa VG? Eða Ásmund sem VG mann frekar en Framsóknarmann? Ég ætla ekki að byrja að tala um skoðun mína á þessum flökkukindum sem voru kosnar fyrir málstað og flokka en segja sig svo bara frá þessu. S.s. þessi þrjú sem klufu sig frá fólkinu sem kaus þau. Og fyrir hvaða samfélagshóp eða í nafni hvaða kjósenda sitja þau? Hvert er umboð þeirra þegar þau hafa sýnt kjósendum sínum þessa lítilsvirðingu að kljúfa sig frá flokknum sem átti að berjast fyrir lýðræði og breyta öllu til hins betra?
Nú er það svo að þingmaður er bundinn af samvisku sinni. EN þegar ég kaus þá valdi ég flokk og hóp fólks sem myndaði lista. Ef einhver þessara vill ekki leika með þessum fokki (afsakið flokki) þá finnst mér að hann eigi að sýna mér, sem kjósanda, þann skilning að hætta á þingi og hleypa næsta manni að sem er á listanum. Því lýðræðinu lauk ekki með kosningunum þannig að þeir sem kosnir voru geti bara látið eins og þeir vilja. Ef þessu fólki er annt um lýðræðið þá hlýtur það að sýna lýðnum þá virðingu að víkja, ef þeir eru ósáttir við málefni flokksins eins og þau þróast, en ekki bara sitja áfram í eigin nafni eða jafnvel fara í flokk sem ég hefði aldrei kosið.
Ég sakna fyrirgreiðslupólítíkusa. Maður vissi hvar þeir stóðu og hvað þurfti til að kaupa (afsakið sannfæra) þá til fylgis við sig.
Þessi nýju stjórnmál – frekjustjórnmál – óþekktarormastjórnmál – eigintrúarstjórnmál sem hér hafa þróast eru mér ekki að skapi.
Og þess vegna velti ég því fyrir mér í hvað átt Jón Sigurðsson vildi fá að horfa? Varla á þingið eða kirkjuna eða Borgina eða barina? Kannski á Herinn?
Snúum Jóni!!! Honum líður varla vel þarna.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli