22.7.14

Hugleiðingar um Almeríuferð 2014 4

Svolítið um sitt af hverju...

Einu mega íslenskir ferðamenn aldrei gleyma og það er að orðasambönd eins og Por favor, gracias og viðlíka opna mannni margar dyr. Þakkir og þjórfé, kurteisi. Þetta skiptir máli. Maður lætur fólkið sem snýst í kringum mann eins og skopparakringlur finna þakklæti og það skoppar enn betur í kringum mann. Bros, hlýlegt viðmót. Ekki bara kuldaskil og íslenska „réttu mér þetta...“
Spánverjar eiga sín augnablik og það á við þá, eins og Ítali, að skipulag er ekki þeirra sterkasta hlið. Á leið heim frá Almeríu eftir frábæran dag voru auglýstir tveir vagnar til Roquetas á sama tíma og var röð sem augljóslega fyllti annan og fór langleiðina með að fylla hinn. Þegar vagnstjórar komu og fóru að ræða málin fór allt í bál og brand því annar sagðist bara fara til Aquadulce sem er hálfa leið til Roquetas og dugði okkur lítt. Hófst nú mikil rökræða og voru vagnstjórar og starfsmaður miskurteisir við kúnnana. Ég skildi bara ekki nóg til að vita hversu dónalegir þeir voru í raun. Ekki var beðist afsökunar og endaði með því að stöðvarstjórinn sendi báða til Roquetas enda vantaði ekki kúnnana.
Spánverjar reykja ógurlega og allstaðar nema inn í Gran Plaza.  Svolítið óþolandi á veitingahúsunum.
Annars eru Spánverjar ágætasta fólk. Strákarnir eru samt svolítið miklir hanar og sannfærðir um að kvenfólk sem slíkt skynji hversu ótrúleg blessun þeir eru. Kannski eru þeir það – læt stelpurnar um að svara því. Stelpurnar sýna svipaða takta og ganga um léttklæddar sannfærðar um að þær séu augnayndi og hápunktur athyglinnar. Sem þær eru...
Gran Plaza – það þarf að vara karlmenn við henni. Best að senda konurnar saman þangað og fara í golf eða tana á meðan. Það eru örfáar kaffiteríur þarna, bíó og dótabúð fyrir karla sem er ca fimm fermetrar. Svo er þarna ágæt íþróttavörubúð en skóstærðir jafnan mest upp í 45. Aðrar búðir sem almennt geta glatt aðra karla en þá sem hafa áhuga á fötum (og eru í spænskum stærðum) eða snyrtivörum eru ekki í Gran Plaza.

Lokaorð, pælingar og útúrdúrar...

Þetta er sem sé fjölbreytt og skemmtilegt samfélag. Kannski rétt að hafa ekki hátt um það því þessi hugsun að samfélag geti orðið til og styrkst af áhrifum annarra, t.d. útlendinga eða annarra menningarheima er ekki uppi á pallborði hjá öllum stjórnmálaflokkum Evrópu nú um stundir.
Sem er afar merkilegt því þar sem maður kemur og mörg börn eru samankomin þá virðast tungumál ekki skipta máli. Þau finna sér tungutak í leiknum. Hins vegar eigum við erfiðara með að brúa slík bil eftir að við eldumst. Við finnum líka aðferðir til að flokka. Þarna er Spánverji, gyðingur, arabi, afrískur maður eða kona o.s.frv. Svo sér maður myndir af t.d. stúkunum í Brasilíu. Og það er engin leið til að greina sundur Argentínumenn frá öðrum eða hvaða hóp sem er nema af litunum og tilfinningunum sem brjótast fram við velgengi eða vondgengni. Það er líklega vont að ætla sem svo að allir ljóshærðir séu af norrænum uppruna, rauðhærðir af írskum eða skoskum og að stórnefjaðir séu gyðingar. Líklega er best að reyna að skilja aðra og kenna þeim að skilja okkur. Ég einhvern veginn held að þorri mannfólksins sé fyrst og síðast að reyna að eiga til hnífs og skeiðar og ná einhverri gleði og hamingju í leiðinni.
Á þessum tíma þegar maður heyrir enn eina viskubununa renna upp úr forsvarsmönnum núverandi stjórnarflokka þá aftur á móti fyllist maður af ótta. Vitandi að útlendur matur er stórhættulegur, styttir líf manns fyrir nokkrar krónur og meiriháttar ógnvaldur við heilsu þá spyr maður sig hvernig það að vera í fæði á útlendu hóteli í hálfan mánuð muni verka á mann. Og til að koma þessu óæti út þá er verðlaginu á Spáni haldið niðri. Þannig kostar fimm lítra kútur af virgin olíu um tíu evrur eða 300 kall líterinn. Kók á tilboði, tvær tveggja komma tveggja lítra flöskur á um þrjár evrur og allskonar ostar, kjöt og fiskur á verði sem myndi líklega henta kennaralaunum á Íslandi betur en matarverðið gerir sem stendur. Og maður tekur út fyrir að vita að milljónir, nei milljarðar manna ganga, ef ekki svangir til náða, þá emjandi af kviðverkjum og fretgangi. Og ofan á það bætist, í Evrópu alla vega, ónýtur gjaldmiðill og Evrópusambandið svo laskað að það er að hruni komið og engin ástæða að ganga í slíkt bandalag. Það er að margra mati, skilst mér, eins og að panta miða með Títanic, eftir að það sigldi á ísjakann.
En svona má maður vera sáttur við að vera Íslendingur og njóta forystu góðs og vel meinandi fólks.
Reyndar hef ég velt fyrir mér hverju við höfum tapað með einangrunarstefnu þeirri sem hér hefur verið rekinn frá því um tíð Gamla sáttmála, staðfest með Stóradómi og endanlega negld með tillögu um að segja okkur frá samningum við sambandströllið ógurlega í dauðateygjunum.
Hugsum málið. Íslendingar voru um 50 þúsund megnið af tímanum frá landnámi til manntals 1703. Eða svo er líklegt. Okkur fór ekki að fjölga fyrr en seint á 19. öld. Þá vorum við að mörgu leiti á sama stað og við vorum á miðöldum. Eða það á alla vega við um 18. öldina. 
Á sama tíma og trékofabyggð sem seinna urðu þéttbýliskjarnar, siluðust upp t.d. í Reykjavík, þá tóku götumyndir Kaupinhafnar, Lundúna og Parísar á sig aðra eða þriðju þróunarmynd.
En þetta útlenda fólk gengur vissulega kvalið til sængur af óætinu sem því er borið og áhyggjufullt vegna stöðugs verðlags.
Það er nú annað en við á Íslandi.
Svona rétt í lokin.
Nýverið upphófst mikil rökræða um það hver staða vestrænna karla væri gagnvart konum og færð rök fyrir þvi að hagur karla versnaði. Nú er ég ekki áhugamaður um að upphefja svona kenningar en mér datt þetta þó í hug þegar ég reikaði um gangana meðan frúin rannsakaði snyrtivöruverslun í Gran Plaza (esk. Kringla/Smáralind) hér í Roquetas. Og allt í einu áttaði ég mig á því að á göngunum var annars vegar að finna fólk í nokkuð einbeittri búðaleit og hins vegar karla sem eigruðu um og leituðu sér að sætum, - sem hvergi var að finna. Þessir karlar vor afgamlir karlar (eldri en ég) og allt niður í drengi á barnsaldri. Mest vorkenndi ég pöbbum með smábörn, sem jafnvel voru að skipta á þeim (börnunum) þarna á göngunum. Sumir horfðu hálf angistarlega innum gluggana vitandi að mamman vildi síst fá yfir sig gargandi börn og/eða nöldrandi maka meðan hún var að kanna eitthvað mjög merkilegt.



 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli