21.7.14

Hugleiðingar um Almeríuferð sumarið 2014. 3



Nokkur atriði sem vöktu athygli og glöddu maga  og augu...

Eitt af því sem við hjónin viljum gjarnan er að komast í umhverfi sem er ekki bara ferðamanna/alþjóðlegt heldur finna hvernig heimamenn hafa það. Þess vegna er Roquetas de Mar afar hentugur staður.
Hér eru mest spænskir túristar og því eru ekkert voðalega margir vel talandi á annað tungumál en spænsku. Á hótelinu er viðurværið spænskt en ekki alþjóðlegt nema að litlu leyti. Og næstum allt hér í þorpinu er á spænsku. Matseðlar o.fl. Hér er stöku Evrópusambandsfólk en ekki þessir hátt stemmdu, steypifullu Norðurlandabúar og Bretar. En það er stutt í að hér fyllist allt af öðru fólki og greinilega verið að búa sig undir slíkt.
Þá er Almeríuborg ekki verri. Fyrir utan að skoða þar kastalarústir, geta farið í mörg söfn, kirkjur og leikjagarða með meiru þá er hún spánskari en allt spánskt. Í raun er Roquetas mun alþjóðlegra samfélag – að túristunum frádregnum.
Almeríuborg kemur manni svo spánskt fyrir sjónir (búinn að vera að bíða færis) að t.d. miðbærinn lokar á síestunni. Punktur.
Mér finnst merkilegt að upplifa Andalúsíu. Hér sér maður mannlífslitróf sem minnir á araba, Rómana, eiginlega hvaða litróf mannlífs sem til er. Hér eru ljóshærðir Spánverjar og nefstórir Spánverjar. Þeir eru afkomendur Íberíumanna, Kelta, Germanna (Gota, Vandala o.fl.), Rómverja, Rómana, Grikkja, Karþagómanna, gyðinga og svo framvegis. Maður sér hér andlit sem gætu búið á Íslandi. Ekki að undra. Forfeður þessa fólk sigldu norður í höf að ná í hvalkjöt og fisk. Andalúsia er litríkur staður, fullur af straumum og stefnum. Hér eru hús í hacienda stíl, hvítkölkuð týpísk spönsk og hér eru arabísk hús og svo eru mannvirki og hús sem eru eins og hópur arkitekta, hvaðanæva að úr heiminum, hafi dottið í það og hver hafi fengið sinn bút að hanna.
Ein ferðin sem var í boði er ferð til Granada og til að skoða Alhambra höllina. Þetta er þriggja tíma rútuferð hvora leið og alls ekki auðveld. Stopp á hvorri leið. Svo skiptiist veran í Granada annars vegar í frjálsan tíma og hins vegar ferð í höllina. Við fórum frá Neptuno um kl. 7 og vorum komin til Granada upp úr 10. Ása Marín sagði okkur sitthvað fróðlegt á leiðinni upp í fjöllin til Granada og gerði vel. Við hjónin fórum í Márahverfið og leituðum uppi útsýnisstað yfir borgina, eftir að Ása sleppti hópnum lausum eftir smá labb og áttasetningu (óríentering). Kl 13.20 hittumst við á Carmen torgi og röltum í rútuna sem fór með okkur upp í Alhambra. Og sú ferð var heit (30°C+) og þriggja tíma plamb en maður lifandi, þess virði. Bara að passa eitt. Maður gapir svo upp í loftin að maður gleymir litlum gosbrunnaskálum í gólfinu og þrepum. Ég sýndi t.d. miklar jafnvægisæfingar þar sem ég fór eiginlega eins og á skíðum/skautum niður þrjú þrep og skil ekki enn að ég kom niður standandi en ekki á bakinu. Ekki fyrir lítil börn eða smábörn en fullorðna já. Hverrar mínútu virði. Komið heim um kl. 20, sem var allt í lagi því Spánverjarnir voru rétt að mæta í matinn.
Almenningssamgöngur eru eins góðar og pláss er fyrir í þessum þröngu götum. Strætó er í raun rútur og ef maður er með miklar pjönkur þá setur maður þær í lestina rét eins og maður væri að fara í skíðaferð. Vagnstjórar eru þokkalega þjónustu liprir en útskýra ekki of vel hvert þeir fara nákvæmlega. Svo er alveg mátulega mikið að marka áætlanir því þeim seinkar út af umferð út úrAlmeríu, í gegnum Aquadulce og Roquetas de mar. Þessir bæir eru varla gerðir fyrir bíla og stórundarlegt að sjá þessar stóru rútur flétta sér leið í gegnum bæina. Almería er stærstur en Aquadulce virkar snyrtilegastur. Það er mikil uppbygging í gangi í Roquetas en hlutar hennar virðast fátæklegir og í niðurníðslu. Það er um fjögurra til fimm kílómetra gangur frá t.d. hótelNeptuno, niður á strönd og inn að kastala – ef kastala skyldi kalla.Hann er mjög endurgerður og smá hringleikahús utan í honum. Hann stendur við höfnina sem er fallegt svæði. Playan eða strandlengjan er alla jafna full af fólki og virkar friðsæl og snyrtileg. Og rómó á kvöldin.
Eitt af því sem gerir svæðið spánskt er að hér lokar allt um síestuna nema sumar matvöruverslanir (merkado), barir og minjagripastaðir.  Og jú merkjavörubúðirnar (H&M, Macdónalds). Víðast opið frá 9-10 að morgni fram undir 13.30-14 og svo opnar aftur milli 17 og 19 og opið fram yfir 22. Hér eru merkadoar við næstum hvert horn og apótek líka og minjagripaverslanir allstaðar. Allar eins eða öllu heldur með sömu vöru en uppröðunin ekki eins. Best leist mér á regalos keðju sem hét Christian. Sá þrjár búðir. Hér hjá okkur er Christian II en úti aðeins handan við Laugaveginn eru Christian og Christian III hlið við hlið.
Með öðrum orðum þá er ég farinn að fíla Spán. Ég er hrifnari af Ítalíu. Héraðið hér er svolítið þurrt og það blæs oft og stundum hressilega.
Neptúnó hótelið er kostastaður og geysisamhentur hópur sem vinnur hér. Eina sem má kvarta undan (sem á líklega við um flest hótelin) er tónlistarvalið. Hér er dagskrá allan daginn. Það er sundbolti, jóga, dans, leikir, sundleikfimi, sundknattleikur und so weiter, etc og það allt. Fólkið sem stýrir þessu er svo ofurhresst að það hálfa væri hellingur en spænsku túristarnir fíla þetta í strimla. 
Hótelið er mjög gott. Við erum með tvö samliggjandi rúm sem eru líklega hvort um sig amk 120 sm breið ef ekki 140. Það liggur við að við tölum saman á skype. Þjónustan er frábær, snyrtilegt allt og aðstaðan við sundlaugina góð. Gott og vel – bekkirnir mættu vera lengri en það er bara ég.
Maturinn er fjölbreyttur, grænmetið hreint og fínt, margir réttir og allar gerðir kvölds og morgna. Mikið gert fyrir börnin og skemmtun fram undir miðnætti hvert kvöld. Maturinn er svolítið mikið eldaður, mikið langeldað í sósum, og mikið um flotta fiskrétti. Kokkarnir eru fagmenn. Fararstjórarnir flottir. Hvað vill maður meira? Það er hægt að sækja alla afþreyingu sem maður vill en þetta er staður fyrir spænskar fjölskyldur. Mikið um foreldra komna af yngsta skeiði, komna um og yfir þrítugt. Heppilegt fyrir fólk á mínum aldri – og eldra.
Við tókum eftir því að hér á Neptuno var vinoþerapía sem mér leist vel á. Hélt það væri annað... Um var að ræða snyrtistofu sem Sigga prófaði og var mjög ánægð með. Almennilega gert sagði hún en sagði mig of kitlin til að fara í fótsnyrtingu. Ég þyrfti líka að borga álag (skóstærð 47+). Sama kona rekur svo undirfatabúð niðri við þar sem Hong Kong er og Skágatan (Calle Diagonal (úr Harry Potter – Diagonal Alley?)).
Meðan þetta er spænskt svæði þá er um að gera að njóta þess að veitingstaðir eru miðaðir við þarfir heimamanna en ekki útlendra túrinsta. Hér eru staðir fyrir Spánverja á hverju horni. Í Roquetas er reyndar mikið um bari og útikaffihús og svo er slæðingur af þýskum, frönskum og ítölskum húsum, örfá kínversk en fullt af Tapasbörum (enginn indverskur!!!). Það er ekkert að marka að ganga um fyrir kl. 20 og horfa inn um glugga til að sjá hvaða hús eru vinsæl og hver ekki. Heimamenn eru að mæta í matinn milli kl. 20 og 22.
Ég veit ekki hvað einkennir spænska matargerð frekar en Tapasið. Í Almeríu og Roquetas stæra menn sig líka af fiski. Þeir grilla fjölmargt en mér sýnast þeir líka langelda eða hægelda matinn. Fiskur er afar bragðgóður en oftast frekar þurr nema maður taki hann í hráu formi. Sama gildir um margt annað. Mér finnst ofsalega gaman að fara inn á staði sem heimamenn sækja og anda að mér andrúmsloftinu. Ég á marga svoleiðis uppáhaldsstaði víða um heim.
Í Granada fann ég afskaplega fallega sjúskaðan kebab stað neðst í Márahverfinu. Þar gátu þrír setið ef kokkurinn/þjónninn stóð. Og rúllan var ljúffeng. Ég fann annan slíkan stað inni í Roquetas, niðri við höfnina. Afgreiðslumaðurinn snérist í kringum okkur í 30°C + sem var meira en segja mátti um starfsmenn Alsa strætisvagnanna um svipað leiti. Á þeim staðnum var okkur vísað til sætis og kveikt á viftu til að kæla okkur. Maturinn var betri í Márahverfinu en Roquetas rúllan var samt ekkert slor.
Við fundum fleiri góða staði, t.d. í Almeríu. Eftir góða stund í kastalanum (Alcazab) og eftir að hafa reynt að fara í dómkirkjuna eigruðum við svöng og þyrst um márahverfið milli dómkirkju og ráðhúss. Um tveimur götum ofan við kirkjuna, í átt að ráðhúsinu,  komum við að litlu hverfi sem var fullt af tapasstöðum en næsta lítil þekking á ensku (eða spænsku hjá mér). Eftir smápælingar fór ég með Siggu á stað sem heitir Casa puga og settumst við borð. Þarna voru heimamenn ýmist við barinn í misháværum samræðum eða við lítil borð sem máttu muna sinn fífil fegurri. Þarna héngu uppi um allt allskonar hamónar (Jamon = skinka), myndir um alla veggir og afar gamlar flísar á veggjum. Afgreiðslumennirnir voru nær allir á svipuðum aldri og eldri en ég (=afgamlir). Til okkar kom alveg sérlega geðugur þjónn og reyndi að útskýra matseðilinn og við pöntuðum eitthvað og bjór. Það var komið með einhverskonar baguette (og bjór) og svo komu tveir tapas réttir, litlar samlokur heitar. Svo komu undrin. Bakki með osti og möndlum og tveir bakkar, hvor með sinni hráskinkunni. Gjörið svo vel – meiri bjór? Já takk. Og annar skammtur af litlum samlokum, í boði hússins senjor. Við vissum ekkert hvar við höfðum lent en síestan var á fullu og húsið fullt líka. Og mikið afskaplega var þetta gott. Ég held samt að með kunnáttu í spænsku hefðum við getað náð betri díl. Ég borgaði reikninginn refjalaust, - 40€ fyrir fjóra bjóra, matinn og frábæra þjónustu. Á leið út sáum við í gluggunum fjórar viðurkenningar frá Michelin... Þessi litli skringilegi staður? Casa Puga, stofnaður 1870 og stendur við Jovellanos 7 í Almeríu (www.barcasapuga.es).
Við leituðum líka uppi spánskan stað í Roquetas. Hagavön fórum við ekki af stað fyrr en um kl. 20 og gengum út á veitingahús hér rétt við Neptuno, sem heitir Don Jamon og var sagt vinsælt meðal Spánverjanna. Vinsælt? Klukkan 20.10 og ekki kjaftur inni? Alla vega við fengum þó borð strax og þjóna sem höfðu ekki um neitt annað að hugsa. Upp úr 20.30 fylltist staðurinn og þegar við fórum um 22.30 var enn að streyma að. Andrúmsloftið spænskt, matseðlar á spænsku, ensku og þýsku og maturinn eðal. Þjónustan toppur. Við fengum forrétt, - spænska ommelettu, og hvítlauksídýfu, brauð og ólífur. Vín hússins kennt við Tíberíus keisara var afar bragðgott vín. Ég fékk geitasteik, - eiginlega spaðhöggvinn kiðling og grænmeti en frúin kálfasteik. Hvort tveggja fallega borið fram og bragðgott. Kálfurinn var grillaður og kiðlingsgúllasið soðið í víni, hvítlauk, svörtum pipar og lárviðarlaufi. Ítrekað að það er vel þess virði að fara til Don Jamon og þessi herlegheit kostuðu rétt um 44€. (40 sinnum 160 eða rétt um sex þús.).
Við fórum líka á Hong Kong, kínverskan sem er eiginlega við hliðina á Don Jamon. Okkur leist mátulega á þegar við komum á staðinn, - en maturinn. OMG. Stökk önd (Crispy duck) af bestu gerð, súrsætt svín alveg lostæti, kjúklingakurrý sem var alveg geysi gott og eggjahrísgrjón.... svo var djúpsteiktur ís í eftirrétt, gosvatn og Campo Viejo með matnum og ferskjulíkjör í kveðjuskyni. Þjónustan frábær og best var þegar ég (ekki búinn með rauðvínið) bað um reikninginn. Þjónustustúlkan sagði bara rólegan æsing – viltu ekki klára vínið fyrst?! 46€

Engin ummæli:

Skrifa ummæli