23.1.16

„...Arfurinn...“ Hugleiðingar um gildi þjóðararfsins í raun og veru.

Styttri útgáfa hér aftan við er pistill sem birtist í DV 22/1/2016.
Á undan er lengri og ítarlegri útgáfa hans.

„...Arfurinn...“
Hugleiðingar um gildi þjóðararfsins í raun og veru.

Ég velti því oft fyrir mér hvort menningararfur, þjóðrækni og þjóðernisstefna séu endilega góð fyrirbæri. Tilefnið er raunar þær fyrirmyndir sem „Arfurinn“ leggur fyrir okkur. Það er oft talað um þennan menningararf og mikilvægi þess að varðveita hann og þar með tunguna.

Ég legg á það áherslu að íslenska og íslensk þjóð eru mér hugleikin fyrirbæri en ég velti fyrir mér þeim fyrirmyndum sem fyrir mig voru lagðar í uppeldi mínu og á þroskaskeiði mínu á árum fyrr.

Sögufals?

Einn af öflugri stöpum þess skeiðs voru bækur sem ég var látinn læra um íslenska sögu. Þetta voru bækur eftir Jónas Jónasson frá Hriflu. Þær komu fyrst út árin 1915 til 1917. Ég las þær fimmtíu árum síðar og mér vitanlega voru þær víða í notkun fram yfir 1980.

Mér er það óskiljanlegt að slíkar bækur væru notaðar í áratugi, jafn mörg ósannindi og þar var að finna. Ég minnist þess að þegar ég var í barnaskóla þá vorum við m.a. látin þylja upp kafla hennar, standandi við borðið. Maður gat endursagt kaflann eða lært hann utanbókar, sem í raun var einfaldara. Þar kynntumst við ýmsum hetjum sögunnar og iðullega voru þær hetjur okkur til lítils sóma þegar betur er að gáð.

Meðal þessara var Árni Oddsson.

Árni var sonur Odds biskups og voru þeir feðgar á ferðinni sérlega á 17. öld. Þegar saga þeirra er skoðuð þá sést að þeir voru duglegir að hygla að ættmennum sínum góðum embættum. Æðsti embættismaður Dana stóð í hárinu á þeim og þeir fóru í  mál við hann sem þeir unnu. Jónas gerir nokkuð úr þeirri sögu að Árni hafi verið fastur í Kaupinhafn með konungsbréf. Kaupmenn hafi neitað að flytja hann að fyrirmælum Herluf Daa, danska illmennisins. Heim komst hann og kom til landi í Vopnafirði. Sú saga og sagan af heljarreið Árna frá Vopnafirði til Þingvalla er æsileg og þeir feðgar þjóðhetjur fyrir að sigra þann danska og gera hann eigna- og ærulausann. Lítt fer fyrir þeim sannleika að um var að ræða eiginhagsmunasemi þeirra feðga og hafði því næsta lítil áhrif á sjálfið í sjálfstæðisbaráttunni annað en efla völd þeirra. Hins vegar var alltaf betra að vinna danskinn, þó óheiðarlega væri. Fyrir það urðu menn þjóðhetjur.

Síðar varð Árni Oddsson lögmaður og lýsir Jónas því í dramatískri sögu hvernig Árni þráaðist við að skrifa undir einveldishyllinguna þrátt fyrir hótanir danskra og felldi hetjan tár þegar hann gaf eftir að lokum. Litlu er eytt í þá staðreynd að það sem Árni grét var að völd hans og annarra íslenskra valdamanna yrðu skert. Tárin voru til að knýja það fram að slíkt gerðist ekki strax. Aftur var ljóst að íslensk alþýða og menning voru ekki í huga Árna.

Fleiri hetjur Jónasar má nefna. Þar er t.d. kristnitökuhetjan Þorgeir Ljósvetningagoði sem fékk Aþingi til að samþykkja það að taka upp Kristni, út á það að heimila frávik s.s. útburð barna, - meðan ekki kæmist upp um menn. Þetta situr í þjóðarsál okkar og er grópað þar inn. Það er sem sé að margra mati í lagi að brjóta reglur, ef viðkomandi kemst upp með það. Ef ekki þá fær sá sér lögfræðing og þrætir. Við erum þar með ekki að hugsa um orð Sókratesar sem er mun virtari lögspekingur á heimsvísu. Hann sagði að ef maður er ósáttur við lögin, þá ætti að fylgja lögunum eftir en knýja á breytingar. Það ætti aldrei að brjóta lög.

Enn önnur hetjan var Einar Þveræingur sem beitti sér fyrir því á 11. öld að vorir landar gerðu ekki sáttmála við Noregskonung. Rökin voru þau að þó að menn teldu þáverandi Noregskonung góðan þá væri ekki á vísan að róa með þann næsta. Með þetta að vopni hafa skoðanabræður Þveræingsins haldið aftur af okkur með að gera alþjóðasamninga. Einnig tryggt að við færum inn í slík samtök með það að augnmiði einu að tryggja hvað við fáum út úr því. Ekki hvað við getum lagt fram og þar með bætt heiminn. Ekki eingöngu okkar litla samfélag.

Svona má halda áfram með útúrsnúninga Íslandssögunnar hans Jónasar. Hún er barn síns tíma en það versta var að kynslóð fram af kynslóð var fólk stríðalið á henni, eins og hún væri rétt útgáfa Íslandssögunnar. Hún sagði sögu góðra íslenskra karla sem voru hetjur, konur komu varla við sögu og útlend yfirvöld voru náttúrulega bara til vansa.

Hagsmunahyggja í verki

Við sjáum dæmin um þetta sama mynstur t.d. í því að yfirvöld á Íslandi hröktu fólk vestur um haf til Kanada, frekar en bæta hag manna hér á landi. Eitt af því sem hefði getað komið í veg fyrir þá mannflutninga var að afnema Vistarbandið svokallaða sem bannaði fólki að búa í þéttbýli. Það var ekki fyrr en danska þingið og Danakóngur hótuðu Alþingi því á 9. áratug 19. aldar að kóngur myndi standa að slíku afnámi sjálfur, að Alþingi samþykkti afnám þess og færði landið aðeins nær nútímanum.

Annað var t.d. að Jón Sigurðsson mun nánast hafa horft út um gluggann á skrifstofu sinni yfir í fangelsisgarða þar sem íslenskir menn og konur voru geymd fram til þess tíma að Hegningarhúsið við Skólavörðustíg var byggt. Aldrei vísaði Jón til þessa fólks og ekki man ég mörg dæmi þess að hugtakið mannréttindi hafi verið honum ofarlega í huga. Nema kannski í skólamálum. Svona til að halda því til haga. Fangarnir voru hins vegar oft þarna fyrir litlar sakir.

„Arfurinn...“

En það er fleira sem við höngum í af þessu tagi. Þannig er talið mikilvægt, upp á sjálfsmynd okkar og menningu, að lesa Íslendingasögur. Vissulega verð ég að segja að málfar og framsetning texta margra þeirra er til fyrirmyndar. Hins vegar er mikilvægt að lesa textann með mikla fyrirvara í huga, svo ekki sé talað um boðskap sagnanna, alla vega eins og hann virðist oftast lagður fram.

Tökum sem dæmi sögurnar af fundi Ameríku, sem þá var kölluð Vínland, og þeirri ósvinnu „Skrælingja“ (sem er þeirra daga nafn á frumbyggjum Ameríku) að gera norrænum mönnum illkleift að búa  þar. Skrælingjarnir héldu uppi stríðsrekstri og reyndu að ýta þessum góðu norrænu mönnum burtu. Óskiljanlegt.

Ein sagan af samskiptum okkar góðu forfeðra við þessa voðalegu Skrælingja er saga um frumbyggja sem lágu sofandi undir bát sínum við árbakka. Norrænu mennirnir komu að þeim og frekar en leyfa þeim bara að kúra áfram þá drápu þeir frumbyggjana. Þegar ég las þessi herlegheit þá var þetta meðal annars tekið sem dæmi um kímnigáfu höfunda frásagnanna um fund Ameríku. Kennarinn hafði lítinn áhuga á ambri mínu og fleiri nemenda um að þetta væri varla fyndið.

Það var því annski ekki skrýtið að frumbyggjunum hugnaðist illa að deila landi með þessu aríska sómafólki.

Önnur hetja er Egill Skallagrímsson, sem frá blautu barnsbeini virðist hafa verið drápsmaskína. Enn ein er Kjartan Ólafsson, ávöxtur þess að faðir hans, Ólafur Pá, skrapp til Írlands, keypti sér ambátt, rekkti hjá henni og barnaði, kom henni fyrir á næsta bæ og hélt við hana. Litlir fyrirvarar eru gerðir við þá staðreynd að maðurinn átti konu fyrir.

Hetjan sem var illmenni eða öfugt...

Nokkrir útlagar eru þekktir úr fortíð okkar. Tökum tvo til kostanna.

Annar er hetjan Gísli Súrsson, sem drap mann,í hefndarskyni og án þess að hafa sótt það fyrir rétti hvort sá maður væri sekur. Gísli var dæmdur til skóggangs, sem þýddi að hann mátti ekki vera meðal manna. Ættmenni hins myrta vildu ekki sættast við þessa niðurstöðu og áttu skv. lögum rétt á að ná Gísla og drepa. Svona rétt eins og hann væri veiðidýr.

Eyjólfur grái, var sem sé lögga þess tíma, að ná morðingja, sem sagan kynnir sem hetju.

Öllu meiri hetju finnum við í Gunnari á Hlíðarenda og þeim Njálssöguhetjum. Þar tekur nú steininn úr. Myndríkar lýsingar Njálu má túlka á marga vegu, - stundum kann að vera óvarlegt að nota nútímann sem viðmið, - en...

Mér finnst til dæmis mjög magnað þegar höfundur Njálu dregur upp sorg og reiði Hildigunnar, ekkja Höskuldar. Hún gefur Flosa blóði drifna kápu bónda síns og brýnir hann til hefnda. Hildigunnur hafði ekki rétt til að reka mál bónda síns. Hún varð að fá einhvern til þess. Með því að gefa Flosa kápuna og kalla hann níðing ef hann gerði ekkert í málinu er hún að beita nánast eina ráðinu sem kona hafði.

Höfundur Njálu – femínisti?

Það eru mörg frekar biluð dæmi í Njálu en mér þykir alltaf svolítið vænt um Hallgerði. Þjóðmenningin og arfurinn líta á hana sem illyrmi. Ég reyndar hef alltaf talið að höfundur Njálu sé að búa til kvenhetju í Hallgerði. Kona sem hefur mátt búa við rógburð og heimilisofbeldi.

Hallgerður er eins konar femme fatale, hin hættulega kona. Köld eru kvennaráð segir Flosi, reyndar við Hildigunni (sjá hér að ofan), en karlar sögunnar halda saman, gegn konum sínum. Þetta er reyndar mjög þekkt í alla vega vestrænum samfélögum. Karlar halda konum til hliðar, svipta þær völdum, kaupa og selja, berja eftir behag og smag, en loka sig af í fóstbræðralögum, leynireglum og lokuðum klúbbum.

Aftur að Hallgerði. Fyrir utan það að vera lýst sem sérlega fagurri þá er hún einnig sögð örlynd og skaphörð. Sagan þegar hún hittir Gunnar á Þingvelli er leiftrandi af kynþokka og augljós ætlun höfundar að sýna hvernig hún hefur undirtökin í því máli. Hallgerður kveikir losta Gunnars og hann á sér ekki undankomu auðið.

En Hallgerður var barin í fyrri tveimur hjónaböndum sínum og einnig í því þriðja. Gunnar löðrungaði hana og hefur þjóðinni jafnan þótt réttmætt að svo væri. Hún lét stela frá besta vini hans. Hetjan gat ekki liðið það að stolið væri frá öðlingnum vini hans svo hann barði hana.

Við vitum í nútímanum að sá sem lemur frá sér einu sinni er líklegur til að gera það oftar. Auk þess sem báðir fyrri eiginmanna höfðu barið hana. Hún var fórnarlamb heimilisofbeldis. Fólk sem losnar úr ofbeldissambandi er líklegt til að lenda í öðru ef það fær ekki hjálp.

Ég hef oft velt því fyrir mér þegar ég les kaflann um umsátrið að Hlíðarenda hverju höfundur Njálu er að ná fram.

Staðan er þessi. Gunnar er hetja og Hallgerður illyrmi fyrir að lána honum ekki hár í bogann. Vondir menn sitja um bæinn og drepa Gunnar.

En þetta er bara ekki eini skilningurinn. Hér er um fleira en eitt að ræða.

Í fyrsta lagi var Gunnar sekur maður og átti að fara úr landi. Þegar hann stökk af hesti sínum og mælti þessa frægu setningu: „Fögur er hlíðin...“ þá vissi hann hvaða áhættu hann tók. Rétt eins og Gísli Súrsson, var hann orðinn eins og veiðidýr. Gunnar hafði vegið mann, var dæmdur til útlegðar frá Íslandi og ef hann virti það ekki var hann réttdræpur af frændum mannsins sem hann drap. Með öðrum orðum – hetjan var morðingi og dæmdur morðingi að auki.

Í öðru lagi var hann líka maður sem barði. Eins og fleiri. Getur verið að Hallgerður hugsað sér að nú væri fullreynt? Allt er þá þrennt er? Eina leiðin út var að láta drepa Gunnar, sem var réttdræpur hvort eð var, komast yfir eignir og geta búið sem sjálfstæð kona, ein og ógift, laus undan ofbeldinu og óhollustunni sem makar hennar höfðu sýnt? Sem hún gerði. Hún bjó í Laugarnesi síðustu ár sín.

Í öllu falli þá velti ég því fyrir mér hvernig eigi að bera menningararfinn og söguna á borð.

Og ég kalla á endurskoðun á rangfærslum og karlægum myndum þessa án efa merka en villuboðandi menningararfs.

 Pistillinn úr DV.

„...Arfurinn...“
Hugleiðingar um gildi þjóðararfsins í raun og veru.

Ég velti því oft fyrir mér hvort menningararfur, þjóðrækni og þjóðernisstefna séu endilega góð fyrirbæri. Tilefnið er raunar þær fyrirmyndir sem „Arfurinn“ leggur fyrir okkur. Það er oft talað um þennan menningararf og mikilvægi þess að varðveita hann og þar með tunguna.

Ég legg á það áherslu að íslenska og íslensk þjóð eru mér hugleikin fyrirbæri en ég velti fyrir mér þeim fyrirmyndum sem fyrir mig voru lagðar í uppeldi mínu og á þroskaskeiði mínu á árum fyrr.

Sögufals?

Einn af öflugri stöpum þess skeiðs voru bækur sem ég var látinn læra um íslenska sögu. Þetta voru bækur eftir Jónas Jónasson frá Hriflu. Þær komu fyrst út árin 1915 til 1917. Ég las þær fimmtíu árum síðar og mér vitanlega voru þær víða í notkun fram yfir 1980.

Mér er það óskiljanlegt að slíkar bækur væru notaðar í áratugi, jafn mörg ósannindi og þar var að finna. Ég minnist þess að þegar ég var í barnaskóla þá vorum við m.a. látin þylja upp kafla hennar, standandi við borðið. Maður gat endursagt kaflann eða lært hann utanbókar, sem í raun var einfaldara. Þar kynntumst við ýmsum hetjum sögunnar og iðullega voru þær hetjur okkur til lítils sóma þegar betur er að gáð.

Þar er t.d. kristnitökuhetjan Þorgeir Ljósvetningagoði sem fékk Aþingi til að samþykkja það að taka upp Kristni, út á það að heimila frávik s.s. útburð barna, - meðan ekki kæmist upp um menn. Þetta situr í þjóðarsál okkar og er grópað þar inn. Það er sem sé að margra mati í lagi að brjóta reglur, ef viðkomandi kemst upp með það. Ef ekki þá fær sá sér lögfræðing og þrætir. Við erum þar með ekki að hugsa um orð Sókratesar sem er mun virtari lögspekingur á heimsvísu. Hann sagði að ef maður er ósáttur við lögin, þá ætti að fylgja lögunum eftir en knýja á breytingar. Það ætti aldrei að brjóta lög.

Enn önnur hetjan var Einar Þveræingur sem beitti sér fyrir því á 11. öld að vorir landar gerðu ekki sáttmála við Noregskonung. Rökin voru þau að þó að menn teldu þáverandi Noregskonung góðan þá væri ekki á vísan að róa með þann næsta. Með þetta að vopni hafa skoðanabræður Þveræingsins haldið aftur af okkur með að gera alþjóðasamninga. Einnig tryggt að við færum inn í slík samtök með það að augnmiði einu að tryggja hvað við fáum út úr því. Ekki hvað við getum lagt fram og þar með bætt heiminn. Ekki eingöngu okkar litla samfélag.

Svona má halda áfram með útúrsnúninga Íslandssögunnar hans Jónasar. Hún er barn síns tíma en það versta var að kynslóð fram af kynslóð var fólk stríðalið á henni, eins og hún væri rétt útgáfa Íslandssögunnar. Hún sagði sögu góðra íslenskra karla sem voru hetjur, konur komu varla við sögu og útlend yfirvöld voru náttúrulega bara til vansa.

Í öllu falli þá velti ég því fyrir mér hvernig eigi að bera menningararfinn og söguna á borð.

Og ég kalla á endurskoðun á rangfærslum og karlægum myndum þessa án efa merka en villuboðandi menningararfs.




2 ummæli:

  1. Hvaðan hefur skólameistarinn þessar upplýsingar: "Litlu er eytt í þá staðreynd að það sem Árni grét var að völd hans og annarra íslenskra valdamanna yrðu skert. Tárin voru til að knýja það fram að slíkt gerðist ekki strax. Aftur var ljóst að íslensk alþýða og menning voru ekki í huga Árna."

    SvaraEyða
    Svör
    1. Sjá t.d. Sögu Kópavogs fyrsta bindi, Íslandssögu til okkar daga eftir Björn Þorsteinsson og skrif Gísla Gunnarssonar á FB.

      Eyða