22.12.16

Útskrift haustönn 2016




Hnífjafnir á toppnum

Laugardaginn 17. desember fór fram útskrift stúdenta í Flensborgarskólanum. Alls útskrifuðust 64 stúdentar.

Það gerðist aðra útskriftina í röð að tveir stúdentar voru hnífjafnir á lokaeinkunn og töldust báðir dúx. Þetta voru þeir Hrannar Björnsson og Ævar Örn Bergsson.

Úthlutað var styrk úr Fræðslusjóði Jóns Þórarinssonar en hann hlaut Arnór Ingi Sigurðsson, sem leggur stund á nám í Danmörku. Arnór Ingi útskrifaðist úr Flensborg á jólum 2010 með hæstu einkunn.

Í ávarpi sínu lagði nýstúdentinn, Ingibjörg Þórðardóttir, áherslu á það hve stolt hún væri af áherslum skólans í jafnréttismálum, gagnvart fjölbreytni mannlífsins og stuðningi hans við nemendur sína. Þá tilkynntu nýstúdentar að þeir hefðu gefið peninga til Mæðrastyrksnefndar í nafni skólans.

Við athöfnina sungu Kór Flensborgarskólans og Flensborgarkórinn undir stjórn Hrafnhildar Blomsterberg. Guðmundur Kristjánsson lék fyrir gesti við upphaf athafnarinnar.

Í ræðu sinni vék Magnús Þorkelsson, skólameistari að meðal annars Pisa könnuninni nýútkomnu og heilsteyptri umræðu um skólastarf og hlutverk þess. Hann sagði m.a.:  „Það er ekki nóg að ræða niðurstöðurnar í nokkra daga. Við þurfum að ræða skólamál, tilgang skólastarfs og inntak skólastarfs. Ræða hlutverk skóla, hlutverk kennara og hlutverk heimila gagnvart skólunum. Þá þarf ekki síst að ræða hvaða kröfur er rétt að gera til kennara og skóla. Ef við gerum ekkert í málinu þá endurtökum við umræðuna um Pisa árið 2019.“

Hann sagði einnig í lok ræðu sinnar: „Ég nefndi það áðan að ég saknaði umræðu um skólamál. Eiginleg skólamál. Inntak starfsins og tilgang. Ekki einungis fjármál og kerfi og Pisa. Það er oft talað um kostnað af skólastarfi þegar peningar eru settir í aðra hluti en steypu. En það er talað um fjárfestingar t.d. þegar keyptir eru togarar, breiðþotur eða þegar verslunarhús eru reist. Við þurfum að ræða um pólítík og tilgang skólastarfs, hugarfar skólastarfs, námsskipan, ígrundun, núvitund, heilsueflandi framhaldsskóla og hvað á að kenna, - eða frekar hvað á að læra. Við þurfum t.d. að læra að gera mistök og læra af því að gera mistök. Við þurfum að íhuga hvernig við eflum gildi námsgreinanna í þessum ramma sem við sitjum inni í, hvort við viljum annan ramma og hvernig við notum námsgreinina ekki einungis til að læra hana sjálfa heldur einnig til að skynja það sem er gott og vont, hollt og óhollt, rétt og rangt í þessum flókna heimi okkar.

Stýrivextir og fjárfestingar í atvinnulífi eru góðra gjalda verðar en skólinn er líka fjárfesting. Við eigum að sjá skólann sem skapandi afl. Samfélagslega bætandi afl. Fólk sem er á flótta undan stríðum og náttúruhamförum er ávallt að reyna að tryggja börnum sínum betri aðstæður og þar með aðgang að skólum.“

Í lokaorðum sínum þakkaði hann stúdentum fyrir að hafa látið afgang af fjársöfnun vegna Dimmissionar renna til Mæðrastyrksnefndar. Hann sagði svo m.a. „ Munið bara að láta hjartað ráða för. Og munið að það er betra að vera fyrsta flokks útgáfa af sjálfum sér en að reyna að uppfylla drauma annarra án þess að langa það.

Veljið með hliðsjón af væntingum ykkar, þess sem hjartað segir ykkur og munið að við verðum aldrei fullnuma og þess vegna leitum við áfram að því sem bætir líf okkar, en ekki síður líf annarra. Það er gaman að breyta heiminum, krefjandi en gaman.

Fjölmargir aðilar gáfu verðlaun og styrki við athöfnina en það voru:

Hádegisverðarklúbburinn, Íslandsbanki, Góa, Embætti landlæknis, Rotary hreyfingin í Hafnarfirði, Gámaþjónustan og Sendiráð Danmerkur.

 

Ræða skólameistara og ávarp aðstoðarskólameistara eru hér að neðan.

Þessir nemendur útskrifuðust:






Agnes Ýr Rósmundsdóttir
Alexander Sigurðsson
Arnar Singh Helgason
Arnór Stefánsson
Ágúst Ingi Ágústsson
Bergur Elí Rúnarsson
Birgir Björn Magnússon
Birgitta Sigrún Hjartardóttir
Bjarki Freyr Sigþórsson
Bjarki Rúnar Sigurðsson
Bryndís Lilja Ásgeirsdóttir
Christine Mae Velasco
Dagný Ýr Friðriksdóttir
Daniel Guðmundur Nicholl
Daníel Askur Ingólfsson
Egill Örn Egilsson
Einar Atli Hallgrímsson
Emil Freyr Guðmundsson
Friðlín Björt Ellertsdóttir
Guðmundur Víðisson
Gunnar Bent Helgason
Hafdís Alda Jóhannsdóttir
Hafsteinn Þráinsson
Heiða Ósk Guðmundsdóttir
Hrannar Björnsson
Hulda Bryndís Tryggvadóttir
Ingibjörg Þórðardóttir
Ingþór Ingason
Íris Thelma Halldórsdóttir
Jóhanna Margrét Sigurðardóttir
Jón Foss Guðmundsson
Júlía Jóelsdóttir
Júlían Elí Steingrímsson
Katarina Sara Stojadinovic
Katrin Ragnarovna Tryggvason
Katrín Birna Kristensen
Kormákur Ari Hafliðason
Magnús Óli Magnússon
Melkorka Rán Hafliðadóttir
Natalia Maria Helen Ægisdóttir
Nökkvi Karlsson
Ólöf María Kristinsdóttir
Pétur Jónsson
Sandra Rún Svansdóttir Þormar
Sigrún Helga Hannesdóttir
Sigurbjörg Óskarsdóttir
Silvía Klara Ingvarsd. Svendsen
Snorri Heiðar Andrésson
Snædís María Ásgeirsdóttir
Sólveig Eggertsdóttir
Stefán Rafn Sigurmannsson
Sunneva Sif Jónsdóttir
Svanhildur Lísa Leifsdóttir
Sylvía Rós Sigurðardóttir
Sæþór Kjartansson
Theódóra Líf Káradóttir
Tinna Sól Ásgeirsdóttir
Tinna Þorradóttir
Unnar Lúðvík Björnsson
Vigdís Ólöf Theodórsdóttir
Vikar Jónasson
Ylfa Hrönn Ásbjörnsdóttir
Þórður Þórðarson
Ævar Örn Bergsson

Ræða skólameistara.

Það er ekki sérlega jólalegt þessa dagana, - veðurfarið það er að segja.

Engu að síður þá erum við hér, jólin rétt handan við hornið og enn einn hópur glæsilegra ungmenna að ganga til útskriftar. Hamarssalur í hátíðarbúningi, hlýlegur og ró yfir okkur öllum. Er það ekki annars?

Næsta haust verða 135 ár frá því skólinn var settur í fyrsta sinn og í október verða áttatíu ár frá því það elsta af núverandi húsum var tekið í gagnið.

Við finnum okkur alltaf tilefni til að gleðjast hér á Hamrinum, enda er það þjóðsaga að skólastarf eigi að vera leiðinlegt.

Þessi athöfn er sú tuttugasta og fyrsta frá því við fengum þetta hús. Síðastliðið haust voru tíu ár frá því við fengum það afhent. Fyrsta athöfnin var svolítið tilraunakennd en í dag erum við miklu vanari, þó svo frumsýningarskjálfti einkenni að öllu jöfnu, alla vega, skólameistarann.

Á þessum tíu árum hafa verið afhent 1326 útskriftarskírteini, sumir fengu tvö í sömu útskrift en svo voru nokkrir sem komu oftar en einu sinni til að fá að útskrifast.

Á þessum árum hafa nemendur komið og farið og allmargir sótt sér frægð og frama á fjölmörgum sviðum. Mér telst t.d. til að það séu allmargar nýlegar geislaskífur og vínylplötur með tónlist frá fólki sem stundaði nám hér á árum áður.

 

Skólamál hafa verið tekin fyrir í fjölmiðlum undanfarin ár. Alvarlegustu fréttirnar hafa snert fjármagn til skóla og kjaradeilur. Auk þess hafa verið rökræður um hvað kennarar og skólar eiga, mega eða skulu gera. Um það hefur ekki verið sátt. Líklega hafa fyrrgreindir þættir haft áhrif á gengi okkar á Alþjóðamóti í skólamálum, kallað Pisa, sem haldið er að undirlagi OECD.

Ég velti fyrir mér hvert málið er með Pisa og hvers vegna við reynum að sverja það af okkur fremur en skoða hvað við getum bætt.

Pisa lexían er tvíþætt. Erlendi samanburðurinn virðist sýna að íslensku ungmennin stóðu sig lakar í stærðfræði en jafnaldrar þeirra í 15 löndum, sem þýðir að við erum betri en 54 lönd sem einnig voru með. Þetta eru vondar fréttir í fréttaheimi þar sem stöðugar fréttir eru af velgengni íslensks íþróttafólks á erlendri grund. Við komum þó líklega betur út í Pisa en við gerum alla jafna í Eurovision.

 

Og síðan er það umræðuhefðin. Árið 2016 gerist líklega það sama í Pisa umræðunni hér á landi og árið 2013 og árið 2010. Það er ekki nóg að ræða niðurstöðurnar í nokkra daga. Við þurfum að ræða skólamál, tilgang skólastarfs og inntak skólastarfs. Ræða hlutverk skóla, hlutverk kennara og hlutverk heimila gagnvart skólunum. Þá þarf ekki síst að ræða hvaða kröfur er rétt að gera til kennara og skóla. Ef við gerum ekkert í málinu þá endurtökum við umræðuna um Pisa árið 2019.

 

Þó ég slái af léttúð á þessa umræðu þá er það hin lexían, sem er flóknari en það er sú einfalda staðreynd að okkur gengur lakar árið 2015 en okkur gekk árið 2012, alla vega á landsvísu þó t.d. Hafnarfjörður hafi bætt sig. Og þá má spyrja sig – eru það krakkarnir sem bregðast eða eru það skólarnir eða jafnvel samfélagið sem bregðast?

Hvað er til ráða? Kannski þurfum við einmitt að læra af íþróttafólkinu okkar?

Keppnisfólkið er með þjálfara, alla jafna þá bestu sem fást og þeir hafa leyfi til að stjórna hópnum, setja honum mörk. Að auki er sterkt bakland sem styður við líðin og keppendur, hvort sem það eru foreldrar eða hálf þjóðin fyllandi leikvanga í öðrum löndum.

Íslenska geðveikin, [mér er afar illa við þetta orð,] í íþróttum sem stundum er kölluð svo, lítur vel út á yfirborðinu en að baki henni býr gríðarleg vinna, stefnumótun og sýn. Hún er vinna, vinna og vinna. Hún gæti verið skapandi vinna, eins og þegar Björk Guðmundsdóttir leggur heiminn að fótum sér. Gerir hún þetta allt sjálf? Nei, því Björk byggir ekki bara á eigin krafti heldur einnig á róturum, tónlistarfólki, hljóðmönnum, hönnuðum, forriturum, fjársýslumönnum.

Sama gildir um Hrafnhildi Lúthersdóttur og alla aðra afreksmenn heimsins, á hvaða sviði sem þeir eru. Enginn getur allt, allir geta eitthvað og saman getum við hvað sem er.

 

 

Og þetta er það sem við gerum, við vinnum saman og leggjum okkur fram við að starfa sem ein heild. Stöndum saman og leggjum öll okkar lóð á vogarskólarnar til þess að skólastarfið hér á Hamrinum sé sem farsælast. Haustönn hefur því að mörgu leyti verið annasöm. Við höfum einbeitt okkur að fjármálum skólans og einnig að menntun nemenda, hvað þurfi til að skapa bestu aðstæður. Flensborgarhlaupið gaf af sér hátt í hálfa milljón króna sem rann til Krafts, félags ungs fólks með krabbamein og aðstandenda þeirra. Flensborgardagurinn snérist um kynjamál, kynhegðun, kynvitun, mannréttindi og fleira í þeim dúr. Þá hefur komist á laggirnar jafnréttisnefnd og ég vona að hún eflist, þó svo að einn af drifkröftum nefndarinnar, Ingibjörg Þórðardóttir, sé að útskrifast í dag. Staðið var fyrir skuggakosningum með þátttöku allra stjórnmálaflokka, auk þess sem vinna var lögð í fjölda annarra mála. Kennarar starfa í vaxandi mæli eftir nýrri námsskrá og hafa lagt á sig ómælda vinnu við innleiðingu hennar. Kennslumatið, þar sem nemendur meta kennara sína kom vel út þegar skólinn er metinn í heildina. Það vakti athygli að sýn kennara og sýn nemenda á það hvað fólst í að leggja sig fram við nám var ekki algjörlega sú sama. Þar þarf að uppfæra og samstilla.

Við finnum vel að mikið er horft til okkar sem forystuskóla í verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli og erum komin fram hjá upphaflega takmarkinu sem var að lifa af fyrstu fimm árin, - sem nú eru orðin átta. Og þroskaaukning okkar er mikil.  Við erum að vinna í öllu sem tilheyrir HEF en erum komin á nýja staði og leitum nýrra áskorana. Við erum t.d. að innleiða Núvitund sem kennslu- og námsaðferð.

Við erum svo sem ekki óvön þessari stöðu, - að vera í forystu. Skólinn var það við stofnun hans og aftur t.d. í fjölbrautabyltingunni á áttunda áratugnum.

Nú stendur fyrir dyrum stefnumótun til næstu fimm ára og verða kallaðir til starfsmenn, skólanefndin, nemendur núverandi og útskrifaðir, foreldrar og fleiri. Við erum jafnframt að yfirfara verkferla, fjármál og auk þess rekur til okkar stöku bréf með nýjum áskorunum.

Ég gæti haldið svona áfram lengi en ætla nú að snúa mér að öðru.

 

Í haust voru óvanalega miklar tilfærslur á starfsmannahópnum. Ég ætla ekki að rekja þær allar. Til starfa komu 14 nýir starfsmenn, allt einvalalið og fer þar ekki síst flokkur nýrra kennara sem styrkir liðið okkar. Einn starfsmaður lét af störfum undir lok september mánaðar, Hreinn Sæmundsson. Það var áskorun að leita að staðgengli hans. Nýr umsjónarmaður fasteigna, Steinþór Hlöðversson virðist þó standa undir væntingum og vel það. Nýr aðstoðarskólameistari. Erla Sigríður Ragnarsdóttir tók við starfi aðstoðarskólameistara af Hrefnu Geirsdóttur og Álfheiður Eva Óladóttir tók við starfi mannauðsstjóra af Erlu sem var raunar að leysa Bryndísi Jónu Jónsdóttur af, sem líkt og Hrefna, hvarf til annarra verka/kennslu.

Eitt stærsta mál þessarar annar er áframhaldandi vinna við námsskrá og þar með að vinna gegn brottfallinu. Við höfum margeflt nemendaþjónustuna, og bættum við sálfræðingi, Sævari Má Gústafssyni, í hóp tveggja námsráðgjafa og kennsluráðgjafa. Hann hefur haft, eins og hinar þrjár, Helga, Anna Katrín og Rannveig Klara, haft nóg að gera. Enda sýna allar mælingar okkur vaxandi kvíða og þunglyndi, ekki einungis hér heldur á landsvísu.

 

Ég nefndi það áðan að ég saknaði umræðu um skólamál. Eiginleg skólamál. Inntak starfsins og tilgang. Ekki einungis fjármál og kerfi og Pisa. Það er oft talað um kostnað af skólastarfi þegar peningar eru settir í aðra hluti en steypu. En það er talað um fjárfestingar t.d. þegar keyptir eru togarar, breiðþotur eða þegar verslunarhús eru reist. Við þurfum að ræða um pólítík og tilgang skólastarfs, hugarfar skólastarfs, námsskipan, ígrundun, núvitund, heilsueflandi framhaldsskóla og hvað á að kenna, - eða frekar hvað á að læra. Við þurfum t.d. að læra að gera mistök og læra af því að gera mistök. Við þurfum að íhuga hvernig við eflum gildi námsgreinanna í þessum ramma sem við sitjum inni í, hvort við viljum annan ramma og hvernig við notum námsgreinina ekki einungis til að læra hana sjálfa heldur einnig til að skynja það sem er gott og vont, hollt og óhollt, rétt og rangt í þessum flókna heimi okkar.

Stýrivextir og fjárfestingar í atvinnulífi eru góðra gjalda verðar en skólinn er líka fjárfesting. Við eigum að sjá skólann sem skapandi afl. Samfélagslega bætandi afl. Fólk sem er á flótta undan stríðum og náttúruhamförum er ávallt að reyna að tryggja börnum sínum betri aðstæður og þar með aðgang að skólum.

Einn af rektorum Harvard ku hafa sagt að ef menn horfðu í aurinn vegna kostnaðar af skólastarfi þá ættu þeir að hugsa um kostnaðinn af því að gera það ekki, kostnaðinn af því að vera ekki með skóla.

Takk fyrir

 

Ávarp aðstoðarskólameistara, Erlu Ragnrsdóttur.

Kæru nýstúdentar og góðir gestir

Ég var svo lánsöm að fá að starfa með þessum hópi í vetur. Við hittumst vikulega; til að hrista saman hópinn, fá yfirsýn yfir þau verkefni sem framundan voru og rýna í framtíðina. Hlógum saman að því hversu smávægileg við erum í því stóra samhengi sem alheimurinn er, en fundum það líka fljótt hversu mikilvægt það er að standa saman. Það tilheyrir, sérstaklega þegar reynir á. Ég áttaði mig fljótt á því að hversu öflugt þetta unga fólk er. Mér sýnista margt einkenna ykkur. Þið eruð jarðbundin, dugleg og þrautseig. Úrræðagóð, látið eiginlega ekkert stöðva ykkur.  Og þið reyndust bóngóð, takið áskorunum vel, óhrædd, óhikað. Ég vil þakka ykkur sérstaklega fyrir ykkar hlut í dagskrá Flensborgardagsins (30/9/2016), en gestum til skýringar þá tóku þau meðal annars saman lykilatriði fyrirlestra og þegar verið er að ræða jafnréttismál og kynhegðun þá getur það verið flókið að gera það vel, að ræða mál sem oft eru feimnismál af varfærni og virðingu. Þið voruð til fyrirmyndar. Einnig á dimmisjón. Þið voruð ykkur, foreldrum ykkar og síðast en ekki síst skólanum okkar til sóma.

Þess vegna segi ég við ykkur: Leyfið ykkur að vera til, njótið lífsins, frelsins, augnabliksins, smásigranna. Aldrei missa trúna á ykkur sjálf og ykkar drauma. Ykkur eru allir vegir færir – og þið hafið nógan tíma, trúið mér. Gefið fólkinu ykkar gaum, samfélaginu. Verið trú og sönn og ykkur mun farnast vel.

En næst er sviðið ykkar. Það er komið að ykkur að ávarpa gesti. Ingibjörg Þórðardóttir talar fyrir hönd hópsins. Ingibjörg, gjörðu svo vel.

 

Lokaorð skólameistara

Kæru útskriftarnemendur

Þið eruð nú orðin hluti af þeim hópi sem lokið hefur námi við Flensborg. Sú saga nær aftur um 130 ár. Þegar fram líða stundir getið þið sótt um styrk í Fræðslusjóðinn og án efa munu einhver ykkar snúa aftur og vilja fara að kenna hjá okkur. Eða annars staðar. Sjáum til.

 

Hvað lærir maður í skóla? Námsgreinarnar sem þið hafið lagt stund á eiga að gera ykkur færari um að stunda nám á næsta skólastigi, heima eða erlendis. Þær eiga líka að gera ykkur að betri borgurum, að vekja námsáhuga, efla sjálfstæð vinnubrögð og margt fleira sem talið er upp í lögum um framhaldsskóla.

En ef við tökum til hliðar námsgreinarnar, þá má spyrja sig hvað það er sem við förum með út í lífið? Eða er ekki annars líf eftir Flensborg?

Jú þið lærðuð fljótlega á kennarana, eitt og annað um skilvísi, frágang og vinnulag og þið eignuðust vonandi vini.

Menntun er harla margbrotið fyrirbæri  og stundum lærir fólk eitthvað sem það átti ekkert að læra. Eða var allavega ekki í námskránni.

Hérna áðan sáuð þið dæmi um eitt. Þegar styrkurinn úr fræðslusjóði var afhentur heyrðuð þið talað um Hádegisverðarklúbbinn. Það er hópur sem útskrifaðist héðan á árunum 1985 til 1986. Þetta eru allt karlar sem hafa haldið hópinn og safnað í sjóð. Hittast reglulega og hafa látið gott af sér leiða. Gefið bókasafninu okkar gjöf, styrkt ungan listamann til náms erlendis og nú þetta.

Það er ekki eingöngu vináttan sem er eftirtektarverð heldur og áhuginn til að láta gott af sér leiða. Það eru þrjátíu ár síðan þeir stóðu í ykkar sporum. Og þið sýnið sama áhuga á að gera vel með því að styrkja Mæðrastyrksnefnd. Ekki veitir nú af.Með þessu hafið þið meiri áhrif á líf einhvers en ykkur grunar.

Við breytum ekki fortíðinni, við rétt ráðum yfir núinu og ekki veit ég hvaða máttarvald stýrir framtíðinni. Við þurfum stundum að horfa aftur fyrir okkur og átta okkur á því hvað það var sem gerðist. Það eina sem við getum gert er að taka við framtíðinni, bregðast við henni og reyna að vera eins viðbúin og hægt er. Við getum leitað hamingjunnar en það er líklegra að við finnum hana án þess að leita. Eins og Viðar dönskukennari sagði í frábæru ávarpi á dimmission - ekki rembast um of. Þetta einfaldlega gerist.

Vonandi fenguð þið frá okkur veganesti til að fara með út í atvinnulífið, frekara nám og eitthvað sem gagnast ykkur í lífinu sem slíku.

 

Munið bara að láta hjartað ráða för. Og munið að það er betra að vera fyrsta flokks útgáfa af sjálfum sér en að reyna að uppfylla drauma annarra án þess að langa það.

Veljið með hliðsjón af væntingum ykkar, þess sem hjartað segir ykkur og munið að við verðum aldrei fullnuma og þess vegna leitum við áfram að því sem bætir líf okkar, en ekki síður líf annarra. Það er gaman að breyta heiminum, krefjandi en gaman.

Farnist ykkur vel, kíkið við og leyfið okkur, sem eftir sitjum, að heyra af ykkur.

Framtíðina eigið þið. Vegurinn sem þið farið er ykkar vegur. Hann getið þið gengið með öðrum en aðrir ganga hann ekki fyrir ykkur.

Ég segi haustönn 2016 lokið.

 


Engin ummæli:

Skrifa ummæli