18.1.17

Sjálfgefnar vondar nýjungar?


Ég er stundum að velta fyrir mér því hvernig nýjungar hitta okkur fyrir, þegar þær eru mjög umfangsmiklar og áhrifaríkar.

Til dæmis prentlistin. Hún gjörbreytti meðal annars (merkilegt nokk) kaffihúsa/öldurhúsamenningu Evrópu. Það gerðist líka (eins og hafði gerst með skrifuð handrit) að menn prentuðu eitthvað sem var þjóðfélagslega stórhættulegt. S.s. eins og um rétt kvenna til menntunar. Það var komið á ritskoðun og reynt að banna útgáfu tiltekinna rithöfunda, Þeir fóru þá bara til annarra landa. Eða banna efasemdir um guðlegt einræði.
Þær eru náttúrulega nokkrar þessar byltingar.

Eimreiðin og gufuvélin, sem breyttu samgöngum og framleiðsluháttum. Fólk flyktist úr sveitum í bæi til að vinna við þessi ósköp. Sveitirnar tæmdust og landbúnaður fór endanlega úr sjálfsþurft í fjöldaframleiðslu líka. Menningin stóð á heljarþröm og það brast á með óraunverulegri sveitarómantík sem enn eimir af hér á landi. 

Svo ferðaðist fólk sem aldrei fyrr í lestarvögnunum og kynntist fólki í öðrum sveitarfélögum!

Eigum við að nefna kvikmyndir, útvarp, prentuð dagblöð, valsana, jassinn, rokkið,...

Þegar ég var að fara í gagnfræðaskóla (á síðustu öld en eftir hana miðja) steðjuðu að okkur miklar hættur, eins og Bítlarnir, Rollingarnir, Yes og Jethro Tull. Stórhættulegt fólk með miklar ranghugmyndir, Buffalo Springfield sem hvatti fólk út á götur að mótmæla og svo framvegis.

Ég hef oft sagt söguna af barnakennaranum sem varaði nemendur sína við Bítlunum. Við gætum orðið kynvillingar og eiturlyfjaneytendur.

Ég heyrði þetta sagt!

Var þar.

Man líka þegar sjónvarpið var borið inn á æskuheimili mitt, fyrir daga RÚV (50) (hate to admit it). Og mamma leyfði mér að horfa á grásvartar bíómyndir með þessum goðsögum kvikmyndaheimsins í útsendingu Kanasjónvarpsins.

Þá heyrði maður talað um sjónvarpssýki sem hrjáði sérlega börn sem horfðu of mikið á sjónvarp. Sko, eftir að Kanasjónvarpinu var lokað þá gat maður horft á sjónvarp fjóra daga í viku, tvo tíma í senn.

Á sama tíma var mér harðbannað að nota kúlupenna í skólanum. Líklega verkfæri Djöfsa.

Sama gilti um sítt hár, útvíðar gallabuxur, herraskó með háum (5+sm) hælum.

Allt svona verkar öfugt á mig. Ég hlustaði á Bítlana, varð mér út um kúlupenna, lét hárið vaxa og keypti mér hælaháa karlmannsskó. Lá yfir Kanasjónvarpinu þegar það var hægt. Og leiddist Ríkissjónvarpið nema þegar Óli Gaukur eða Savanna tríóið eða viðlíka snillingar fengu að gera sjónvarpsþætti.

Mér dettur þetta si svona í hug.

Nú er ég ekki að verja eitt eða annað. Mér finnst bara að menn þurfi að sætta sig við það stundum að við stöðvum ekki mjög útbreidda þróun. Við gætum unnið með fyrirbærið og rétt eins og í umferðinni, sett reglur, siðaviðmið og komið tækinu á viðurkenndan stað.

Ekki láta eins og Xerxes fyrsti Persakeisari sem reyndi að leggja hafið í járn því það var svo mikill öldugangur.

Einhvern tíma var mér sagt að máltækið if you can‘t beat them, join them, - endi á setningunni: Then beat them.

Enn betra er þessi setning: Every cloud has a silver lining – and every silver lining has a cloud.

Þá er bara að minnast lagsins sem Bítillinn George Harriosn samdi og gaf út eftir að Bítlarninr hættu.

Það heitir All things must pass...



Engin ummæli:

Skrifa ummæli