7.7.17

Benalmadena júlí 2017

Sælinú
 Hér koma fréttir af ferðum okkar til Spánar sumarið 2017. Ég set þetta inn núna og vonast til að koma myndum inn líka. Málið er að ég er að nota símann minn sem Router (Beini) því að hið meinta þráðlausa net hótelsins er of veikburða til að það sé gaman að vinna á því. Enda er ég í fríi. Ég náði mér í app til að mæla styrkinn á netinu og sit núna á barnum vegna þess að þar er langöflugasta þráðlausa sambandið. Aveg satt. Eini staðurinn sem er skárri er í mótttökunni  og þar vantar borð... En ég er ekki að þessu til að nöldra.
Við erum á hóteli sem er í bænum Benalmadena á Spáni. Það heitir hótel Best Benalmadena svo það hlýtur að vera flott hótel en betur að því á eftir.
Benalmadena er lítið fiskiþorp eða öllu heldur var, þar til útsjónarsömum framkvæmdamönnum fannst þetta einmitt vera svæðið sem vantaði í strandbúskapinn milli Fuengirola og Torremolinos. Nú sjást engin merki um þennan veiðiskap og fiskimenn nema að því leiti að með ströndinni er fjöldi matsölustaða sem selja fisk, fisk og aftur fisk.
Þetta er hótelið góða.

Uppbyggingin hér virðist hafa verið hröð en þetta er afskaplega snyrtilegt og að manni finnst öruggt svæði. Hótelið okkar er líka afskaplega flott hótel. Okkur virðist sem við séum einu Íslendingarnir. Það stendur afar fallega við ströndina og horfir út á Miðjarðarhafið sem er fagurblátt og grænt og allt þar á milli. Hér er góður sundlaugagarður og þjónustan frábær.

Einu leiðindin voru svolítið fyndin. Ef leiðindi skyldi kalla. Þetta var frekar fyndið satt að segja. Við komum á sunnudegi og spurðum í mótttökunni um verslun og apótek. 
Sem sé spurt var: er langt í matvöruverslun (supermercado) eða apótek (Farmasía)?
Svar: það er allt lokað núna. Það er sunnudagur.

Við: við gerum okkur grein fyrir því en eru svona fyrirtæki hér nærri?
Svar: Af hverju? Það er allt lokað.

Við: í fyrramálið, um kl. 10 til 11, ef við færum á kreik að leita að apóteki og Mercado, er langt í slíkt.
Svar: Senior, það tekur þrjár mínútur að ganga með því að bíða eftir gangbrautarljósi. Þeir opna annað hvort kl. 9 eða 9.30.

Sem sé – spurningin var ekki rétt fyrst.

Á hótelinu er mikið af Írum og Bretum (ekki það sama) og það kom örugglega farmfylli frá Belfast og Manchester um helgina. Barnafólk og gamalmenni í bland – við erum hvorugt eða hvort tveggja.
Þessir sungu og léku undir borðum á mexíkóska kvöldinu og svo segir Sigga að trompetleikarinn hafi verið frábær og hún ætti að vita það. Mér fannst það raunr líka!

Glæsilegur matsalur og flott margbrotið hlaðborð. Hér var kínverskt þema á mánudag, mexíkóskt þema með hljóðfæraleikurum á þriðjudaginn og spánskt þema á miðvikudag. Svo er flestum gert til hæfis með því að t.d. bjóða breskum hefðbundna rétti s.s. Sunday roast sem er yfirgengilega ofsoðið lambakjöt eða Cottage pie eða Bangers and Mash (pulsur og kartöflumús úr pakka) og Tjallinn elskar það. Svo eru ótrúlega margar tegundir af mat til viðbótar og hægt að vaða úr einu í annað.

Skiptir þá engu hvort verið er að tala um áhuga Siggu á  skinkum, ostum og ólívum eða áhuga minn á brösuðu, djúpsteiktu og ég reikna með að Sandra Dögg myndi ekki líta við öðru en eftirréttaborðinu.

Svo er stanslaust prógram fyrir þá sem vilja. Það eru skemmtanir fyrir börnin og sundleikfimi og ég veit ekki hvað. Á kvöldin er mini diskó (fyrir börnin) og á eftir skemmtanir. Á sunnudagskvöld var töframaður, mánudagskvöld einhver voða hress hljómsveit sem spilaði út í eitt öll lögin frá Delilah til Sailing og salurinn söng með.

Þriðjudagskvöld skemmti hópur dansara, svona einskonar Burlesque, sem virkuðu pínu halló fyrst en voru afskaplega mikið flott. Miðvikudag var söngdúett sem söng út í eitt öll lögin frá .... þú veist. Og í gærkvöldi tróð upp hópur Flamenco dansara sem stappaði afskaplega glæsilega og í kvöld er hljómsveit, international singers, sem mun án efa spila öll lögin frá ... þú kannt þetta.
Flamenco dansararnir

Fyrsta daginn, sunnudag, vorum við bara róleg enda lent (frekar harkalega að vísu) um kl. 14 og við komin á hótel um kl. 17 eftir að rúnta með íslenska sóldýrkendur um Torremolinos og Benalmadena.



Tvær af smábátahöfninni

Mánudaginn var sólin tekin alvarlega í nokkra tíma en svo var spasserað inn að Marínu eða smábátahöfn. Sko. Er átt við smá bátahöfn eða smábáta höfn? Þessi er hvorugt. Hún er ekki neitt smá og þar er lítið af smábátum. Þó eitthvað. Þarna er hægt að fara í allskonar siglingar á vatnaköttum, eða á eftirlíkingu af Svörtu perlunni hans Jack Sparrow (Pirates of the Caribeean) og meira að segja kínverskri djúnku. En við skoðuðum svæðið sem leiftraði af mannlífi þar sem fólk var annars vegar að spá í búðir og hins vegar að spá í matsölustaði. Reyndar voru einhverjir að spá í siglingar líka. Mjög skemmtilegt svæði.

Verst hvað spanjólar eru smávaxnir. Ég mátaði jakka sem var 3xl (nota vanalega 2xl) og ef ég hefði farið í hann af alvöru þá hefði ég rifið hana í bakið – tölum ekki um ermalengd.

Eftir sólarhyllingu þriðjudagsins var gengið upp úr túristahverfinu. Maður áttar sig fljótt á því að Benalmadena skiptist annars vegar í túristahlutann við ströndina og íbúabyggðina í hlíðinni fyrir ofan. Ég var að leita að hljóðfæraverslun. Hún fannst en þar mátti fá að velja á milli sex gítara, þriggja bassa og trommukjuða.

Flottasti gítarinn var antíkk, mjög notaður og sprunginn enda  á aldur við mig  ( en eins og kunnugt er þá er ég ...).

Við settumst niður á nærliggjandi kaffihúsi og leiddum ekki hugann að hljóðfærum frekar.

Svo var rölt heim á leið og skoðað en farin önnur leið.

Miðvikudaginn tókum við strætó inn að Torremolinos og reyndum að rata til baka. Þaðvar mjög gaman en kannski ekki í frásögur færandi.

Fimmtudag var svo skýjað svo við tókum strætó í hina áttina eða til Fuengirola. Nú var stokkið upp í aðra rútu og haldið á vit ævintýra í fjallinu fyrir ofan bæinn.

Aðeins til að útskýra þá er rétt að nefna að fyrir örfáum árum, þegar Sigga mín var á sautjánda ári en Þorri bróðir hennar á því sjötta, þá fóru þau heiðurshjón foreldrar þeirra með þau til Fuengirola. Meðal annars í heimsókní fjallaþorp sem heitir Mijas, í raun Mijas Pueblo. Og Siggu mína dreymdi um að sýna mér þetta þorp. Og þar hitti hún naglann á höfuðið. Mikið var þetta nú fallegt þorp og gaman að eyða þar deginum (myndir síðar). Það er byggt í gríðarlegum halla og húsin hvert ofan í og ofan á öðru, þröngar götur og endalausar tröppur en þvílík fegurð. Þarna gat maður tekið Burro taxi (gúglaðu það) en ég get upplýst að Burróarnir voru mun stærri en ég hélt.
Myndir í öðru bloggi.

Tekið frá hótelinu okkar til vesturs. Ljósin í bakgrunni myndarinnar eru í Fuengirola.
Eftir alveg yndislegan dag í Mijas fórum við niður í Fuengirola, fengum okkur smábita á fallegu torgi og litum við í Nicholson skartgripabúðinni. Þar munu tengdaforeldrar mínir hafa verslað um langt árabil, en Gullsmiðurinn Nicholson dó fyrir um aldarfjórðungi. Ekkja hans rekur búðina í dag og síðustu áratugi. Hún taldi sig kannast við þau sæmdarhjón af myndum svo eitthvað hafa þau nú gert búðinni gagn. Ég á einmitt forláta ermahnappa frá þessu fyrirtæki sem Sigrún og Gulli keyptu handa mér! Næst leituðum við uppi píramídahótelið sem familían var á þarna fyrir um X árum (1972...). Það fannst nokkuð greiðlega og farmasían og fleira sem Sigga rifjaði upp og sagði mér frá. Þegar við vorum búin að flandrast þarna um í nokkra tíma sótti að okkur svengd og þá var ráfrað í Cruz götu en þar var að finna stað sem Þorri benti okkur á, Don Pé í höfuðið á Don Peringion (já sá sami og Dom Perignon) en þetta er staður með frönsku yfirbragði, flottum matseðli, afbragðs þjónustu og frábærum mat.

Takk Þorri.

Við svo búið var bara stefnt í strætó M122 og við komum á hótelið um kl. 22.30 í tæka tíð fyrir Flamengódanssýningu sem var hér á hótelinu.

Ævintýralega skemmtilegur dagur.

Meira á leiðinni!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli