21.7.17

Nokkrir sleggjudómar eða punktar um svæðið frá Fuengirola til Malaga.

Benalmadena
Eins og fyrr segir (hér að neðan) þá er þessi bær tiltölulega nýr. Segja má að helsti gallinn sé að við höfum ekki fundið eiginlegan miðbæ. Benalmadenabær er byggður í bröttum fjallshlíðum og telst til Costa del sol. Fjöllin ofan við Costa del sol heita (skv. Wikipedia) Sierra de Mijas, Sierra Alpujata, Sierra Blanca, Sierra Bermeja, Sierra Crestallina og Montes de Málaga. Fjöllin þrengja að ströndinni og mun aðflug til Malaga oft svolítið hristigjarnt.

Ferðamannabærinn Benalmadena liggur meðfram ströndinni en ef maður fer upp á av. Las Palmeras þá er maður komin í blandaðra hverfi og stutt í íbúabyggðina. Það er vel þess virði að fara inn í það hverfi og sjá hvernig venjulegt fólk býr, hvar það borðar eða sötrar sjóðheitt kaffið o.s.frv. Hér eru allskonar vatnagarðar, sædýrasafn o.fl. fyrir börnin sem við vorum ekki að kanna. Meðfram ströndinni eru svo veitingahús, verslanir, apótek, markaðsbásar og alls kyns sölumenn. Þegar maður fer með ströndinni og veitingahúsunum þá ganga með manni þjónar og sölumenn og reyna að tala mann til viðskipta. Túristabúðirnar eru í senn allar eins og samt með sín tilbrigði. Furðulegustu vörurnar eru ekki ræddar hér. Mörg veitingahúsanna eru fiskistaðir en flest með hvort tveggja – fisk og kjöt. Brynningarholur eru jafnmargar og vötnin á Arnarnesheiði eða sem sé óteljandi.  
Þá eru hér blönduð veitingaþemu s.s. inversk – mexíkósk eða indversk – ítölsk.
Það er ekki mikið um betl hér miðað við mörg svæði og lítið um götuleikara en þegar gengið er frá Marínunni (sjá neðar) og upp á hótel (sem eru um þrír kílómetrar) er samfellt kerfi sölubása, veitingahúsa og sölumannanna frá Afríku með alla sína ekta boli o.s.frv. Merkilegastir eru þó handverksbásarnir en þar er t.d. krydd kall sem er líka með te og jurtir sem m.a. lækna nánast all nema grunnfærni (segir sá sem keypti af kallinum krydd).
Marínan eða smábátahöfnin


Það er munur á Benidorm, Almeríu og Benalmadena þó öll þessi svæði snúist um það sama. Mér finnst partýlífið minna hér en t.d. á Benidorm. Það er mikið um fjöskyldufólk og fólk á öllum aldri og mér finnst ég afar öruggur hér í bænum.
Sem sé topp einkunn. 

Þessi mynd er reyndar úr fjallaþorpinu Mijas, ofan við Fuengirola. Vel þess virði að eiga dag þar.
Fuengirola
Ég get ekki tjáð mig mikið um Fuengirola en bendi þó þeim sem þangað fara á veitingahúsið Don Pé sem er við Calley Cruz ef ég man rétt. Hann er af frönskum toga, mátulega dýr, góð þjónusta, flottur matur og er bara svaðalega góður.

Hótel Best Benalmadena – aðstaðan – þjónustan
Smá hluti garðsins - eldsnemma morguns.


Útsýni. Ljósin í fjarska eru í Fuengirola og kannski þorpum í vestur þar frá.
 
Þetta er flott hótel. Mikið um fjölskyldur og reyndar mjög hlúð að þeim eða kannski börnunum. Mótttakan var góð og gott herbergið. Veitingasalurinn er með fjölbreytt hlaðborð (og þetta er fleirtala) og svo er fín aðstaða við sundlaugina. Hér er fólk af öllum þjóðernum en við vorum einu Íslendingarnir sem hafði sína kosti. Hér rétt hjá eru góðar mercadónur eða stórmarkaðir og apótek auk veitingastaða en ást mín á þeim ræðst frekar af þjónustunni en öðru. Þannig er alveg ljómandi indverskur hér rétt hjá (tvær mínútur með því að bíða eftir gangbrautarljósi) en þjónninn sem afgreiddi okkur var svo svalur að kaffið var að verða ísi lagt þegar hann hafði sig fram með það.

Það er fínt að fá herbergi með sjávarsýn en það er ekki eiginleg strönd hér við. Það er stutt í strandir hins vegar. Í sundlaugargarðinum er veitingaþjónusta og ísköldu blávatni skutlað í kúnnana. Svo er hægt að fá sódavatn og sjússarnir eru þeir stærstu sem ég hef séð. Held að hann hafi beðið eftir að ég segði stopp. Það er hægt að leigja handklæði, það er fínn tækjasalur og alls konar þjónusta í kringum hann.

Hótel Best Benalmadena – herbergi og þrif
Herbergið var fínt og á fjórðu hæð með sjávarsýn. Það mætti setja gæðastjóra í þrifin en það er ekki eins og við værum hér mikið meira en blá nóttina. Þráðlausa netið er djók og virkar best um miðjar nætur. Þá eru lyfturnar vettvangur oft full náinnar samveru lekandi sveitts fólks en mjög ósexý svo það sé á hreinu.

Hótel Best Benalmadena – veður.
Fyrstu dagana var all nokkuð brim. Veður hefur verið eins og það á að vera nema síðustu dagana var svolítið mistur og einn dag var þoka í hálftíma. Af 12 nýtanlegum dögum voru átta mjög góðir.

Hótel Best Benalmadena – kvöldin
Flamenco dansarar. Myndin er tekin í gegnum glerhurð.

Bara sæt mynd!


Eins og ég sagði þá er börnunum vel sinnt og endar dagská þeirra með mini diskó. Við taka mishressir listamenn en sumir ferlega skemmtilegir. Rétt núna er Paco Moreno að trylla liðið, okkur Siggu leist ekki á og hún fór að pakka en ég að blogga. En hann er enn að og búinn að vera í rúmlega 90 mín.

Flottust voru danskrakkar fannst mér en stemmingin er jafnan góð þarna niðri á bakka enda liðið iðullega vel vökvað af Sangria og fleiri heilsudrykkjum. Maður verður þó ekki var við fyllerí.

Malaga
Marmaralagðar götur Malaga.

Dómkirkjuturninn. Hér er þétt byggt. Þetta er á mörkum gamla og nýja bæjarins.
 
Sjá bloggið hér að neðan.

Smábátahöfnin
Er möst. Frábært svæði, verslanir, veitingahús, siglingar. Algjörlega brill.

Strætóar
Ferlega einfalt kerfi. Það er annars vegar M110 sem fer frá Malaga til Fuengirola (um Torremolinos og Benalmadena) og hins vegar M120 sem fer frá okkut til Torremolinos. Hvort sem það er frá upphafspunkti að lokapunkti eða milli stoppistöðva þá kostar ferðin 1.55. Bílstjórarnir gefa til baka af mynt en ekki seðlum.

Torremolinos
Sama og með Fuengirola. Íslensk kona sem hér býr segist ekki versla neitt þar nema kannski í matinn.

Versla
Ef þú vilt versla þá skaltu fara til Malaga. Strætó á síestunni og búðirnar opnar til allavega 21.

Öryggismál
Maður er mikið varaður við vasaþjófum og líklega best að virða það. Ég sá til fólks sem var að þreyfa sig allt og leita að veski sem var greinilega horfið. Mér er minna órótt hér en t.d í Torremolinos og Malaga.
 
Hvert er stefnan tekin?
Marglitt Miðjarðarhaf og strandlínan. Baðstrendur til beggja handa.
 
 
 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli