28.7.17

Enn ein tölvu- og skólastarfsgreinin


Rétt eina ferðina birtist grein um tölvur og skólastarf. Hún birtist í Scientific American, virtu visindatímariti og er frekar dæmigerð fyrir það festuhugarfar sem skólastarf situr í að mörgu leyti.

Í greininni er réttilega bent á að fartölvur og netaðgangur geti afvegaleitt athygli nemenda og valdið því að þeir nái ekki háum einkunnum. Þetta á að vísu mest við nemendur sem leiðist, að sögn höfunda, sem játa að slíkir nemendur séu raunar líklegir til að fá lægri einkunnir en þeir gætu náð ef þeir einbeittu sér. En þeir benda á að góðir nemendur sem falla í sömu gildru lækki einnig í einkunn.

Þannig heldur greinin áfram og kemur pínulítið upp um festuna í tilvitnun þar sem segir „related research shows that taking notes by hand is more effective than doing so with a laptop.“

Vandinn við greinina er sá sami og var við umfjöllun í Bretlandi sem gekk heilmikið á Facebook á síðasta skólaári. Þar var fullyrt að einkunnir batni þegar snjallsímar séu bannaðir (ein slík hér úr Time). Einkunnir fóru upp um 6%. En því ekki meira? Hversu hátt hefðu þær farið ef nemandinn hefði átt að nota snjallsímann við verkefni eða próf?

Og hér er komið að aldagömlum vanda skólastarfs.

Í árdaga háskóla voru engar bækur til. Nema handskrifaðar. Þá urðu nemendur að hlýða á endursögn kennara og setja í minnispunkta (ef þeir áttu pappir og penna) eða festa þá í höfði sér.

Prentarar björguðu miklu með list sinni og með þeirra fagmennsku var hægt að fá mun meira af efni í bókum, m.a. fyrirlestra meistaranna eða hugleiðingar þeirra.

Þegar krítartöflur voru bornar inn í skóla á líklega 18. öld fyrst þá var eitt vandamálið það að í fámennum skólum voru allir árgangar saman, hver að fást við sitt eftir aldri. Ef menn voru í stærri skólum þar sem nemendum var raðað í bekki eftir aldri og/eða getu og allir voru samstíga þá var krítartaflann draumur í dós. Þegar útvarp hóf útsendingar sínar þá töldu menn það myndi leysa af skóla. Sama þegar menn fóru að gera heimildakvikmyndir og þegar sjónvarpið kom var málið ratljóst. En það gekk ekki eftir og útvarpið, kvikmyndir og sjónvarp urðu mun öflugri frétta- og afþreyingarmiðlar en kennslumiðlar.

Það sama gildir orðið um tölvurnar (fartölvur/spjöld/bretti/snjallsíma). Skólar á Íslandi, almennt séð (veit að það eru dæmi um annað og að þeim fjölgar), hafa, eins og víðar, ekki náð tökum á því að gera nemendum grein fyrir því að ofurtölvan sem þeir eru með í vasanum er lykill að kjarna alheimsins. Bara ef þeir ná að líta upp úr Facebook og Youtube o.s.frv.

Það eru nokkur mál sem þarf að skoða.

1, Af hverju leiðist nemendum í skóla?

2. Af hverju læra þau betur af glósum, handskrifuðum en að nota dótið (fartölvur/ spjöld/ bretti/ snjallsíma)?

Hvernig má það vera að sex ára börnin sem streyma inn í skólana á hverju haust, full af væntingum, útskrifist úr tíunda bekk með vott af námsleiða sem sest í höfuð sumra þeirra eins og myllusteinn þegar komið er upp í framhaldsskóla?

Skólinn er ekki ómögulegur, segir Ingvi Hrannar Ómarsson. Hann gerir nákvæmlega það sem honum er ætlað. Vandinn er bara sá, segir Ingvi Hrannar, að hann er úreltur.

Byrjum hér. Stærsti hluti íslenskra framhaldsskóla er með fjölbreyttan hóp. Námshópar eru mjög blandaðir. Þar af leiðandi er fyrirlestur sem hannaður í kringum getumiðjuna í raun óskiljanlegt tæki.



Verklagið hlýtur að þurfa að breytast. Nálgunin líka.

Hugsaðu þér hversu frábærlega mætti nota tölvutækni mun meira og á fjölbreyttari hátt í getuskiptum hópi, meira en einstefnukennslu alla vega (og ég veit að það eru valkostir milli þessara tveggja öfga).

Við eigum ekki að taka (suma) kennaraforfeður okkur of mikið til fyrirmyndar. Rannsóknin í Scientific American segir mér ekkert annað en að lykilspurning hafi gleymst.

Það er: Hvernig breytum við verklagi okkar og nýtum þessa tækni?

Eða viljum við gera eins og Xerxes fyrsti Persakeisari sem reyndi að leggja hafið í járn því það var svo mikill öldugangur? Þetta var Sæviðarsund sem hann vildi hlekkja (Bosporussund í Istanbul).

Einu sinni, sem oftar, var okkur Melskælingum smalað á sal til að horfa á bíó. Miklar væntingar. Vorum á bilinu 10-12 ára.

Spólan fyrsta fór af stað og fjallaði um fólk sem bjó við svo harðbýl skilyrði að það var allt flutt í burtu úr viðkomandi sveit. Hræðileg tónlist leikin undir á fiðlu.

Svo var mynd um eldsmíði.

Loks var mynd um fráfærur.

Við horfðum misagndofa á þetta. Ég var áhugamaður um dýr, sveitasælu, tónlist og ónothæfar upplýsingar og fannst þetta fróðlegt. Ég rakti þetta fyrir mömmu þegar ég kom heim.

Ég sá þessar myndir a.m.k. þrívegis í Melaskólanum og alla vega einu sinni í Hagaskóla.

Ég hef oft velt því fyrir mér hver tilgangurinn var því ég minnist þess ekki að þetta hafi verið rætt. Sem sé nýrri hugmynd troðið inn í gamalt form. Og hver var tilgangurinn nema að halda okkur uppteknum í smátíma?

Eða ættum við að horfa fram á veginn, með gróskuhugarfar að vopni og kenna þessum börnum að dótið (fartölvur/spjöld/bretti/snjallsíma) eru svo miklu meira en heilasefjandi, félagseyðandi, afþreying og glymskrattar (jukebox)?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli