12.11.17

Dagurinn fyrsti...

Það var 29 gráðu hiti á Celsíus í Dubai. Það var um 20 stiga hiti í Delhi. Það var hvít jörð í Reykjavík.

Á leiðinni til Dubai komu þessar hugrenningar:
Flugvélin siglir inn í nóttina. Það er eins og snúningur jarðar aukist eða að jörðin sé að breiða gardínu fyrir sólina. Þannig er skyndilega komin mið nótt þegar líkamsklukka okkar kallar á kvöldmat.
Við fórum af stað kl. 14.35 og kl. 19.44 ætti að vera 22.44 í Dubai. Og við sjáum ljósaþyrpingar á stöku stað. Ég hef t.d. ekki komist nær Bagdad og ýmsum kennleitum uppruna okkar.

Svo flugum við til Indlands:
Núna brýtur dagurinn sér leið og sólarupprásin ryðst út. Hvað bíður okkar?

þegar við erum í aðflugi yfir Delhi þá sjáum við þokuna sem Delhíbúar segja að sé farin. Margar lyktartæjur í loftinu allt frá fegurð og ást til dauða og ömurleika.
Lent á Indlandi!
Við vorum aftarlega í vélinni og komumst því seint út. Það tekur ógnartíma að skanna fingur allra sem voru að koma til Indlands á fararleyfi.

Leigubílstjórinn var án efa feginn að sjá ÁSM. Hann var búinn að bíða og bíða og bíða og bíða.
Og ferðin með honum er skrautlega taugatrekkjandi.
Það er bíll við bíl, smábílar og stórir bílar og fólk á reiðjólum og litlu taxarnir og kýrnar og hundarnir og geiturnar og fólkið.
Allir eru að flauta sig áfram, reyna að troðast án þess að valda slysi á sjálfum sér.
Kúnum er að vísu sama því þarna ganga þær villtar og allir víkja fyrir þeim. Hundunum er líka sama en þeir spígspora með skottið upp í loft.

Við komumst heil og ósködduð á hótelið og þar byrjar undarlegt þref.

Viltu sör að við borgum bílinn eða borgar þú hann sjálfur?
Ætlar þú að borga herbergið núna, eða á eftir eða þear þú ferð?

Herbergin eru svona, hvað skal segja, lúin á okkar mælikvarða en afar flott, stór og snyrtileg.
Við leggjum okkur aðeins, ég er í 102 en ÁSM í 106.
Svo fetum við okkur af stað og spyrjum um kennileiti. Við spyrjum um Hindúahofið í Chhattarpur sem bílstjórinn benti á og höldum að hljóti að gefa vísbendingar um háan aldur. En fyrst að borða eitthvað!


það er fínn veitingastaður á hótelinu og við pöntum sitthvorn réttinn og fáum garlic nan með o.fl. Annað var það sem á ensku kallast Curd, kryddað og steikt í e-s konar deigi/rasphúð og afganskan kjúklíngarétt. (engin hrísgrjón???) Og nú magnast spennan. Ég er að fá mér indverskan mat í Indlandi. og sælan.
Hvernig segir maður Mama mia á indversku? Líklega "mamamia!"
þetta er hnossgæti og fallega sett fram. Þessi dýrindismáltíð, líklega ca. 40 pund í Bretlandi, líklega raðhús í Reykjavík, kostar innan við tvö þúsund kall.

Við spurjumst um hvar við eigum að na í taxa og hraðbanka. Hinu megin við götuna.
 Það er hlið og öryggisvörður hér.
Yfir götuna? Þetta er eins og að hlaupa yfir M1 í Bretlandi á annatíma. Og þó. Bíðum við. Það verða eyður og við komumst upp á eyjuna, ásamt tugum annarra. Og svo er allt stíflað í hina áttina og við skjótumst milli bílanna. Náum í Toutou taxa og æðum á 30 km hraða í átt að Chattarpur. Ekki að grínast. Toutou á 30 er svakalegt ef þú ert um borð!


Og nú taka við sérkennilegar tilfinningar. Í fyrsta lagi þurfum við að komast aftur yfir götuna. Það eru þó gangbrautir hér en þær enda á eyjunni og á Eyjunni er tveggja metra há girðing. Sem sagt, endurtekinn leikur. Þegar við komum yfir þá erum við beðin að fara úr skónum.

Chattarpur hofið er ótrúlega glæsilegt en glænýtt. Þarna gengum við á sokkunum innan um berfætta Indverja sem voru sumir að skoða rétt eins og við en aðrir hentu sér á hnén hér og þar og tilbáðu þá guð sem þeim hentaði að hylla.


 Maður sér tákn sem maður á ekki von á að sjá. En þau tengjast ekki illvikrkjum Vesturlanda.

 Ég utan við glænýtt hof ævafornra strauma.
Maður fer rólega um á svona stað. Í fjarskanum var sólin og risastytta af guðinum Hanuman.

Hún er þrjátíu fet eða nærri þrjátíu metrum og alls ekki gömul. Ef þú flettir upp Hanuman þá kemstu t.d. að því að það er einskonar sport að eiga hæstu styttuna af guðinum og þær eru allnokkrar.

Það er farið að rökkva þegar við shanghæjum annan toutou og heim. Ég sest við að skrifa og ÁSM sest með Arnald. En við erum í tómu rugli og ég er núna búinn að nánast endursemja allt frá í gærkvöldi. Ég var greinilega svefndrukkinn.

Ég skríð í koju um kl. 21 skv. tímanum hér. Það eru allnokkur partí í húsinu og mikið fjör og læti. Ég er vakinn af afar glæsilegri konu í fallegum sari að ég held um kl. 22. Hún segir, skelfingu lostin, So sorry og forðar sér. næst veit ég af mér undir kl 07 að indverskum tíma.

Ég sest upp og vona að þetta blogg sé skárra en það sem ég gerði í gær.

Svo er morgunmatur og ath. fyrst hvort ég fái ekki herðatré og finni brúðina og ÁSM! 

1 ummæli: