5.5.18

Sagan af diskinum dýra

Stundum langar mann í hluti.

Bara langar.
Þannig átti ég einu sinni eintak af bíómynd sem  mér þykir alltaf svolítið vænt um og er svona rómó-gaman-drama. Skemmtilegir leikarar og alveg bráðskemmtilegt veitingahús í aðalhlutverki sem heitir O‘Reilleys Italian restaurant. Djókið liggur í þjóðerni O‘Reilley...

Allt um það. Eintakið fórst, týndist eða eitthvað og ég hef alltaf af og til velt fyrir mér hvort ég myndi ekki finna það. Sem ég hef ekki gert svo ég fór að leita að nýju eintaki.
Nema. Í ársbyrjun lærði ég dásemd þess að panta á netinu. Bara að passa með DVD diskana – hvaða svæði þeir tilheyra. Svæði 2.

Svo fann ég svona disk á Amazon(.co.uk), gerði pöntun, lét skuldfæra £ 13.92 af kortinu mínu sem voru heilar ISK 2.012,-. Leið nú og beið og þegar  nokkrir dagar voru komnir fram yfir áætlaða afhendingu og enginn diskur var kominn, sendi ég söluaðilanum eitt lítið lettersbréf og söluaðilinn sagðist telja sendinguna glataða og endurgreiddi med det samme £ 13.92. Frá því pöntun var gerð og þar til endurgreiðsla kom styrktist íslenska krónan lítillega og ég greiddi ISK 45,- fyrir týnda diskinn.
Það var ekki breskum að kenna.

Svo skutumst við hjón til útlanda um helgi og þar sem við trilluðum um stræti stórborgarinnar þá rakst ég á plötubúð eða þrjár og leit inn til að kanna þetta með diskinn. Því miður, var mér sagt alls staðar. Hann er ekki til og verður ekki framleiddur aftur. Þú getur horft á hana á Netflix.

Þessir útlendingar vita næsta fátt um íslenska Netflixið.
Svo að næst þegar ég var að þvælast á netinu þá ákvað ég að kíkja á Ebay og viti menn. Þarna var eintak.  Óopnað, pakkað í plast, svæði 2. Kostar £ 16 og svo er flutningsgjald £ 6,95 eða £ 22,95.

Aðeins dýrara en mig langaði í diskinn.
ISK 3.167,- takk fyrir.

Þetta er nú raritet og svona er það.
Ég á líklega vinylplötur sem kosta margfalt þetta verð. Og búinn að eiga lengi.

Nú gekk allt eins og í sögu og ég fékk tilkynningu að kvöldi 3/5 sl. um að ég ætti pakka en reikninginn vantaði. Mættu þeir opna pakkann og fiska út reikninginn svo þeir gætu tollafgreitt þessa dásemd?
Sjálfsagt og ég fyllti út eyðublað og þar sem 4/5 var föstudagur þá langaði mig að fá diskinn þann dag, og hakaði við slíka afgreiðslu, meðvitaður um að ég væri að panta flýtimeðferð sem kosta átti kr. 495,-

Morguninn eftir beið bréf um að í pakkanum væri ekki reikningur. Gæti ég útvegað hann?
Ég fletti í tölvupósti og fann skjal sem var líklegt  og sendi til þeirra.

Pakkinn átti að vera afgreiðsluhæfur um kl. 15. Ég var á leið í Reykjavík, renndi við og það var ekkert löng röð og þau er dugleg í afgreiðslunni svo ég komst fljótt að en var sagt að því miður væru þau svo undirmönnuð að það væri ekki búið að skanna inn það sem tollurinn sendi í dag.
Gæti ég komið síðar,- það væri opið til kl. 18?

Konan var svo almennileg að ég bara tók þessu vel en spurði hvers vegna það stæði á tollafgreiðslukvittun sem ég var búinn að fá, að ég ætti að greiða ISK 2.749 fyrir pakkann?
Konan sagði það er vaskurinn.

Er vaskurinn tæp 90% spurði ég? En mundi svo eftir fimm hundruð kallinum í flýtimeðferð og þá var vaskurinn kominn í 70%.
Gat það verið?

Er Bjarni ekki alltaf lækka álögur og gjöld?
Ég kom aftur kl. 17.30, í prýðisskapi og hlakkaði til endurfundanna en nafn myndarinnar vísar í endurfundi svo mér fannst þetta svolítið sniðugt.

Verið var að afgreiða kúnna númer 546 en miðinn minn var með tölunni 598.
Þegar tæpur hálftími var liðinn var kallað á mig. Ég hrósaði afgreiðslukonunni fyrir hvað þau væru snögg. 50 manns á innan við hálftíma.
Fékk pakkann og spurði hverju sættu þessar 2.749 krónur sem ég var rukkaður um.

Það skal ég segja þér, sagði afgreiðslukonan, um leið og hún benti mér á að ef ég vildi ekki borga þetta þá gæti ég valið að diskurinn verði endursendur – á kostnað þess sem hafði sent hann til mín.
Ég þakkaði fyrir, sagðist ætla að halda diskinum en vildi gjarna vita fyrir hvað ég væri að borga?

Það var afhending sendingar – 0 kr. Ekki var það dýrt.
Svo var flýtiþjónustan sem ég pantaði kr, 495.
Svo eru aðflutningsgjöld kr. 764 (ekki útskýrt hvernig reiknað) og umsýslugjald sem er 995 kr. (ekki útskýrt hvernig reiknað) og loks kr. 495,- fyrir árangurslausa leit að reikningi.
Þetta var svo allt tekið saman í ISK 2.749,- sem ég og greiddi snarlega. Á kvittuninni sést að af fyrstu 1.759 krónunum af þessum 2.749,- er ekki reiknaður virðisauki en af næstu 990 krónunum er reiknaður virðisauki 191,62,- sem fara í ríkissjóð (og dragast því frá 2749 krónunum) þannig að Íslandspóstur HF tók fyrir þetta viðvik tæpar 1.300,- krónur án þess að boða það með neinum hætti hvernig það yrði gert.

(Summa 2.749,- mínus 495, (flýtimeðferð) - mínus 764 (aðflutningsgjöld) og loks mínus 191,62 (VSK) )  
Það er tæpur helmingur af verði disksins á Ebay. Í raun ætti ég að bæta fimm hundruð kallinum við en ég bað um það svo ég geri það ekki.
Og ríkið tekur af þessu tæpan þúsundkall. En Bjarni fer ábyggilega vel með það.

Sonur minn, Gunnlaugur Magnússon, ritaði mjög athyglisverða grein sem birt var á Kjarnanum og heitir Menntamál milli steins og sleggju stjórnmálanna (https://kjarninn.is/skodun/2018-03-20-menntamal-milli-steins-og-sleggju-stjornmalanna/) þar sem hann jarðar mýtuna um allt það sem ávinnst við einkavæðingu skóla, alla vega í Svíþjóð og reyndar víðar.
Maður spyr sig um það hvort það sé samfélagslegur ávinningur í að einkavæða fyrirtæki sem hefur nánast einokunarstöðu á vissum markaði?

Eru það ekki einkavæðing og samkeppni sem alltaf eru keppikeflið? Samkeppnin hins frjálsa markaðar nær líklega ekki yfir það þegar einungis eitt fyrirtæki er á markaði?
Eða á þetta að vera fyrst og fremst ávinningur fyrir hluthafana?
Og hver græðir á því? (engin verðlaun fyrir rétt svar)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli