23.11.17

Last day (eiginlega síðustu þrjá)


Ég sit hér í stofunni á Rue de Washington í Kastellin eða Chatelain í Brussell.

Það er kalt úti. Bara 11 gráður á Celsíusi. Fólk er vel klætt á leið til vinnu eða skóla. Ung kona leiðir barn og barnið er að kvarta, líklega svona venjulegu barnakvarti og hún róar það ósköp blíðlega.

Í gær var ég í 30 gráðum í Dubai.

 

En byrjum í fyrradag.

Þá fórum við af stað og röltum út í Metró - við erum svo hagavön hérna! og stefndum út í Deira. Anddyrisvörðurinn (the Concerge) hafði sagt okkur að öðru megin við sundið væri svona gamallegur bær og gaman að skoða en hinum megin væri Old Deira og þar væri t.d. markaður.

VIð fórum út á hárréttum stað og ætluðum fyrst í þennan gamla bæ.

Hann var ekki Old town, Hann var Walled town. Afgirtur og aflokaður og greinilega einhverjar viðgerðir í gangi.

O jæja.

VIð leituðum að Water taxi og fundum hann ásamt tveimur rútum af Kínverjum sem stóðu í halarófu með fararsstjóra sem lét eins og hann væri að stjórna leikskólabörnum.  Svo var ein rúta af Ameríkönum sem mynduðu hrúgu.

Við um borð, Dírham á mann og vertu snöggur, og þegar báturinn var ískykkilega hlaðinn var siglt yfir. Ekkert verið að spá í hleðslujafnvægi eða binda bátinn. Hann skall í bryggjunni og allir út, allir um borð. Svo var siglt og leikurinn endurtekinn. 

Og við kominn á þennan markað. Tilfinningin næstum eins og í Gömlu Delhi (sjá Skrýtinn dagur ...). Nema hér erum við túristarnir að kæfa allt.

Við fórum góðan hring og sýndum kryddi mestan áhuga. Einn gekk á eftir mér og vildi selja mér Pashmeena og Kashmeer trefla og þegar ég sagðist vera nýkominn frá Indlandi yppti hann öxlum og sagði „hey big guy, - this is the real thing!“

Svo fórum við og ætluðum að kíkja á strendur. Það er ekki augljóst. Öfugt við t.d. Spán sem lítur svo á að strandir séu opnar þá eru þær lokaðar hér. Enda er greinilega allt til sölu. Við fengum leiðsögn hjá ungri konu í Metróinu sem áttaði sig ekki á því að kortið var ekki landfræðilegt heldur stílfært og við fengum labbitúr dagsins út úr því! Við fundum loks strönd en sölubásar? Búðir? Staður til að setjast niður?

Þessir guttar sem hér ráða þyrftu að fá spænska ráðgjafa (eða tvo íslenska. Segi ekki meir).

Allt um það. Við fórum út og suður og það sem er merkilegast við það flandur er að við áttuðum okkur á því hvað var í rauninni svo skrýtið við þessa borg.
Við erum búin að fara víða um heim ég og dóttir mín. Við erum búin að sjá margar borgir sem hafa byggst inn í landslag og náttúru vegna þess að hún veitti mat, skjól, öryggi eða annað sem mannfólkið sækist eftir, ekki síst þegar börnin eru annars vegar.

Þessi borg var handsmíðuð í miðri eyðimörk og það er allt þarna byggt á sandi eða landfyllingu þar sem næsta fátt myndi gróa ef það væri ekki vökvað og sett niður.

Og svo eru keyptar ímyndir. Þarna er Wall street, World trade center, Lególand og svo framvegis. Og maður sér þetta líka í flugvélum án efa besta flugfélags sem ég hef flogið með. Emirates. Auglýsingarnar eru eiginlega þær að þú þarft ekki að fara annað. Við eigum svona í Dubai.

Við fundum aftur Stefanos við Marinuna og fengum okkur mjólkurhristing og vatn og fórum svo á hótelið. Fengum ágætan mat á veitingastað sem heitir Night and day og svo var bara að gera klárt. Það var útskráning kl. 0515 og taxi kl. 0530 og svo var flug!

Flugið var frábært, nóg pláss og við höfðum hvort sína sætaröð. Og okkur fannst kalt í Belgíu! Bara 11 gráður. Eftir að hafa komið draslinu heim til ÁSM þá fórum við á markað, svo á vínbar og loks á ítalskan stað þar sem við fengum ágæta pizzu og meððí.

Svo var bara lokaspretturinn að taka það upp sem eftir átti að vera, ganga frá því sem bættist við í Brussell og OMG lyktin upp úr töskunum. Þar sem ég sit á flugvellinum í Brussell og bíð upplýsinga um flugið þá finnst mér ég anga og ég er í fötum sem ekki hafa verið notuð til þessa.

Töskur út á svalir og allt í þvott eða hreinsun.

Elsku kæru Anna Margrét og Karan. Tak for jeg maatte komme. Takk fyrir samveruna á Tivoli allir sem voru þar og líka hittinga á hraðbrautum Indlands.

Takk Ásta Sigrún mín fyrir að dröslast með karlinn. Það er ekki leiðinlegt að ferðast með þér.

Ég sagt það oft og áður að karlar, sem, eins og ég, njóta þeirrar gæfu að eiga börn eins og ykkur systkinin, tengdadætur eins og þær tvær og barnabörn eins og HS og HF, svo ekki sé nú talað um hana Siggu mína, slíkir karlar njóta meiri góðvildar örlagadísanna, slíkar sem þær eru, en meðalmenn í þessum heimi.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli