26.7.18

Að missa sjónar á tilganginum.

Þingfundur, haldinn á Þingvöllum 18. júlí sl. hefur vakið upp fádæma úlfúð í fjölmiðlum og keppist hver um annan þveran að lítillækka andstæðinga sína í málinu. Segja má að umræðan einkennist svolítið af uppskafningshætti, eins og Þórbergur Þórðarson lýsti slíku.

Eitt dæmið er að helsta umræðuefni fundarins, Pia Kjærsgaard, er alltaf kölluð forseti danska þingsins, þegar starfstitill hennar er formaður (formand), skv. heimasíðu danska þingsins. Annað dæmi um uppskafningshátt er það að veita konunni heiðursorðu fyrir að skjótast örstutt á fund. Sú ráðagerð leiddi til þess að íslenskur handhafi fálkaorðunnar skilaði sinni.

Þannig má lengi telja. Það sem kórónar málið er svo yfirlýsing íslensks þingmanns sem lýsir téðri Píu og flokki hennar þannig að ekkert í stefnu danska þjóðarflokksins eða málflutningi Piu bendi til kynþáttahaturs. „Danski þjóðarflokkurinn er dæmigerður félagshyggjuflokkur sem setur velferðarmál í forgang, einkum málefni aldraðra og öryrkja.“

Ef farið er inn á facebook síðu DF (Dansk folkeparti) má sjá fjölda fullyrðinga sem bera með sér útlendingahatur og rasisma, þó svo núverandi formaður flokksins hamist við að bera slíkt af sér. Að mínu viti er það mjög hættulegt þegar fólk les fullyrðingar eins og þar koma fram og segir svo berum orðum að yfirlýsingar flokksins séu ekki mengaðar af kynþáttahyggju.

Það er kynþáttahyggja og þar með rasismi að draga fólk í dilka þannig að heil trúarsamfélög, þjóðahópar og svo framvegis, séu hvert um sig sett undir einn hatt. Til dæmis að telja alla islamska einstaklinga líklega til hryðjuverka, eða að útlendingar komi eingöngu til landsins til að ræna og rupla. Hvort tveggja má lesa á fyrrgreindri fésbókarsíðu. Og þá má spyrja sig hvort ekki sé rétt að loka á bandaríska ferðamenn? Þar í landi voru gerðar 44 skotárásir á skóla árið 2017 og það sem af er árinu 2018 eru þær orðnar 28. Ef við berum þetta saman við önnur lönd, er þá nokkuð annað að gera en loka á þessa glæpamenn sem Bandaríkjamenn virðast vera?

Svarið er vitaskuld nei. Það að maður sé tiltekinnar trúar, kynhneigðar eða litarháttar, gerir hann ekki að glæpamanni. Það er innra eðli hans sem málið snýst um.

Við erum um 350 þúsund með lögheimili eða íslensk vegabréf hér á landi. Það eru tugþúsundir Íslendinga búsettir erlendis. Að auki má minna á að fjölmargir Íslendingar hafa búið erlendis um lengri og skemmri tíma. Við sem það höfum reynt þekkjum fólk af öllum mögulegum trúarhópum eða af margvíslegu þjóðerni, svo nokkuð sé nefnt. Við vitum að flestir jarðarbúar eru einfaldlega að reyna að lifa af við allskonar aðstæður.

Við erum hluti af heimssamfélagi um sjö og hálfs milljarðs manna. Menn tala um í danska þjóðarflokknum að varðveita þá Danmörku sem þeir þekkja (Danmark vi kender). Hvaða Danmörk er það?

Ef við yfirfærum þssa hugsun um Ísland, - hvaða útgáfu ætti að varðveita? Adolf Hitler sendi hingað sendiherra sinn árið 1939. Hann hét Werner Gerlach, og átti að finna á þessari afskekktu eyju hina hreinu aría sem hér áttu að búa í einhvers konar náttúrurómantík. Sú von hvarf enda auðvelt að sjá að frá fyrstu öldum byggðar hafa búið hér, nú eða komið við, einstaklingar af margvíslegum uppruna.

Það að flagga rasisma sem einhverju öðru en hann er, finnst mér stórhættulegt. Rétt eins og var á tíma Gerlachs hins þýska. Við leysum ekki öll heimsins vandamál en við getum lagfært margt með því að horfa á fólk sem manneskjur og vera ekki að velta okkur upp úr trú þeirra, litarhafti eða öðru.

Mér er það hulin ráðgáta hvers vegna verið var að blanda danska þjóðþinginu í málið og jafnframt hvers vegna einhver stöðvaði það ekki löngu fyrr að þessi kona kæmi? Það þarf eingöngu að fletta örskotsstund á netinu til að átta sig á því hver hún er. Það þarf hvorki mikla fyrirhöfn eða þekkingu í dönsku til þess. Hún er sögð, eða segist vera, andsnúin fjölmenningu og innflytjendum og á upplýsingasíðu um hana segir á enskri tungu: „Her success has been an inspiration for anti-immigration and anti-Islamic movements throughout Europe.“

Og að þessu lesnu hefðu menn átt að leggja hugmyndina á hilluna og panta einhvern annan Dana. Líklega flesta aðra Dani. En svo fór sem fór og fyrir vikið er nær enginn meðvitaður um efni fundarins en allt í uppnámi vegna þessarar konu.  

Ég er sleginn yfir því að forseti alþingis skuli bjóða svona gesti til alþingis. Ekki síst út frá málflutningi flokks hans.

Mér finnst óviðeigandi, gagnvart öllum þeim sem hér á landi búa og falla undir haturshópa Piu Kjærsgaard og vina hennar, að alþingi skuli bjóða svona manneskju til landsins.

Ég er þó mest miður mín vegna þeirra sem reyna að klóra í bakkann og verja þessa uppákomu, ekki síst þegar Piu Kjærsgaard er lýst sem innblæstri fyrir þá sem kynda undir kynþáttahatri og illindum milli þjóða og þjóðfélagshópa. Það á ekki að sakast við þá sem vildu ekki taka þátt í þessum furðulega leikþætti eða átelja þá fyrir dónaskap.

Þetta var einfaldlega klúður og þar við situr.

 

 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli