17.7.18

Smá viðbót og kannski svo myndir!

Sæll lesandi góður.
Ég tek til við skriftir í smástund því mæðgurnar ákváðu að fara í IKEA en ég sótti um hæli hér á Rue Washington 177 af mannúðarástæðum - og fékk það.
Svo nú er eins gott að standa sig.
Ferðin frá Síena til Viareggio gekk afar vel. Eins og fyrr má lesa er ekki langt milli lestarstöðvar og hótels, en að vísu brött brekka. Svo við ákváðum að ganga, enda er brekkan alsett yfirbyggðum rúllustigum því neðst í brautunum er smá verslunarmiðstöð sem sá sér akk í þessu snjalla kerfi.


Við vorum heldur snemma niðurúr og áttuðum okkur á því að við vorum kominn á pallinn það snemma að næsta lest á undan þeirri sem við vildum taka var á pallinum. Við sömdum snarlega við lestarvörðinn um að við mættum nota miðana okkar í þessa og vorum því komin til Empoli tímanlega fyrir lestina sem átti að fara til Viareggio klukkutíma fyrr en okkar miðar giltu,
Lestarvörðurinn í þeirri lest samþykkti að við kæmum með svo við vorum komin alla leið löngu fyrr en við ætluðum.
Málið með lestarmiðana er að þeir gilda í fjórar klukkustundir eftir að þeir eru virkjaðir, en það miðast við brottfarartímann sem miðað er við þegar miðinn er keyptur. Það er ekki hægt að láta þá gilda fyrr nema með leyfi lestarvarðanna.
Svo við vorum þakklát ítölskum lestarsstarfsmönnum!

 Við fengum okkur taxa frá lestarsstöðinni til hótelsins okkar og fengum hebergið umsvifalaust.
Snyrtilegt - vinalegt - ljómandi!
Við skiptum snarlega um föt og róluðum okkur niður á strönd og hófst nú hæg bökun sem stóð í nokkra daga með eðlilegum snúningum og smurningum.
En lítum á eitt og annað en sólbaðssiði okkar hjóna.

Viareggio er smábær í Toskaníu og er reyndar aðallega þekktur fyrir fjörurnar en það var ekki mikil mannmergð þarna. Strendur eru allajafna í eigu hótela eða einkaaðila sem leigja þær út og bjóða ýmsa þjónustu í leiðinni. Næsti bær til norðvesturs og samhliða er Di Camaiore og er líka strandbær.

Milli bæjanna, meðfram götunni sem Hotel Mercure stóð við, er skurður eða árfarvegur, fullur af öndum, bjórum, svo var einn hegri og annaðhvort litlir bjórar eða stórar mýs eða r*****. Ekki rætt frekar.




Þetta er útsýnið út af svölunum okkar!
Þarna eru esplanöður og prómenöður sem verða fjörugri á kvöldin og verslanir sem eru opnar meðan von er á kúnna, auk matsölustaða og ísbúða af allskonar gerðum.






Veitingastaðirnir auglýsa sig sem staði sem bjóða frutta di mari eða ávexti hafsins. Ítalirnir kunna vel að meta þetta og kaupa sér skeljar og hvað eina. Þetta rennur niður eins og enginn sé morgundagurinn og allir sælir.
En.
Stóra vandamálið sem kom fljótt í ljós var að nær hver einasta veitingaþjónusta í innan við 10 km færi meðfram ströndinni selja annaðhvort 90% sjávarfang eða ís. Og ef pantað er pasta eða annað þá liggur ekki fyrir hvort fiskurinn sé nægjanlega aðskilinn frá öðru.


Konan mín er með fiskiofnæmi!
Nú fórum við í Maríu og Jósefshlutverkin okkar og svengdin jókst en fisklitlum eða fisklausum stöðum fækkar ekki.
Prómenaðan er mæld. Áður en við vitum af þá erum við komin í miðbæ Viareggiore.
Við fengum góða göngu út úr þessu öllu og voru verulega svöng þegar við fundum eitthvað sem hentaði.
Okkur var bent á að eftir því sem við kæmumst lengra frá ströndinni þá væri minna um fisk en við fórum aldrei svo langt!


 


Þetta er hluti Alpanna sem hérna sést á myndinni.










Það er svo aftur á móti merkilegt að á Ítalíu, og víðar í Evrópu, virðist stór hluti fólks eiga við vankunnátta í biðraðamálum að etja, sem og skort á virðingu fyrir biðröðum. Ítalía er nú einu sinni vagga vestrænnar menningar en biðraðir þekkja þeir ekki nema síðustu metrana í öryggisleitinni á flugvellinum. Sama virðist gilda  um Belga.
Ef maður passar ekki að sjá til þess að aldrei myndist bil milli þín og næsta manns fyrir framan þá líta margir á að þú sért að bjóða pláss.
Mjög gott dæmi um hliðstæða hegðun er það þegar undirritaður var að búa sig undir að bakka inn í stæði og sem ég setti í bakkgír þá skaust smábíll inn í stæðið snarlega og ökumaðurinn horfinn á meðan ég var að átta mig á hvað hefði gerst og með hverju ég ætti að berja hann.

Við skutumst til Lucca til að rifja upp gömul kynni. Lucca er sífellt að verða vinsælli og meira um touristico þar. Gamla hringleikahúsið var samt á sínum stað og hitinn náði þrjátíu gráðum.
Þröngar götur og stræti heilluðu eins og fyrir sjö árum.



 











 Og það var heitt!
Eitt af því sem gat verið pirrandi þegar maður lá á ströndinni dormandi í einskonar vatns-/bjór-/ hitavímu, var það að að vera vakinn upp af værum blundi á sólbekknum af sölumanni eða konu sem vildi selja manni geisladiska, fatnað, sólgleraugu (alvöru Ray ban á fimm kall), skartgripi og hvað eina. Ég varð nú heldur hvass við tvo og eftir það fengum við frið að mestu í nokkra daga. Þó tók steininn úr þegar afar huggulegur sölumaður kynnti sig sem sölumann fyrir hönd Pandora skargripa.. Hræbilligt sör og algjörlega ekta. Heilu armböndin.
Svona var ég nú utan við mig að kaupa ekki meira af þessu gjörekta og hræbilliga dóti sem var kallað real genuine Pandora India...
Eða ekki.
Sumir sölumennirnir gátu verið ágengir og spurðu til nafns. Einn spurði mig þjóstuglega af hverju ég vildi ekki segja til nafns, þjóðernis eða útskýra af hverju ég vildi ekki eiga viðskipti við hann.
Ég sagðist ekki þurfa að kynna mig, ekki þurfa að útskýra eitt eða neitt og bað viðkomandi að fara.
Ég skildi nú ekki hvað hann sagði þegar hann gekk í burtu það var ekki ítalska og ég ser viss um að þar var verið að lýsa okkur og ekki verið að hrósa.
 
 
 
Skrifa myndatexta

Tólfta júlí, afmælisdag Gulla, héldum við hátíðlegan enda í síðasta sinn áður en Gulli litli lendir á 40 ára afmælinu. Af því tilefni fórum við út að borða á Grand hótel o Riviera. Og madre mia. Það var gaman. Maturinn, framsetningin, þjónustan. Þvílíkt og annað eins.
Alvöru staður.
Myndin er af afmælisbarninu...
 
Ég verð að nefna hér tvennt.
Annars vegar starfsfólkið á Hótel Mercure.

Fínasta hótel og við náðum góðuð sambandi við nokkra, þau Matteo í móttökunni, Franzesku og Simonu, auk Mikaels á veitingahúsinu, svo nokkur séu nefnd.
Aftur á móti var það hindrun að ég kunni yfirleitt minna í ítölsku en þau í ensku og því gátu orðið til aðstæður þar sem maður fékk eitthvað allt annað en maður taldi sig vera að panta.



Þessi kjötsneið var perfecto!








Hins vegar fólkið á Lido Pinocchio sem var ströndin sem við sóttum hvað grimmast. Eftir tvo daga þar þá nennti strákurinn á barnum ekki að rukka mig um tvær og tvær flöskur af sódavatni. Hann bað mig í guðsbænum að gera upp í lok dags. Við sóttum enda aldrei minna en þrjá lítra á dag á hvort okkar, auk annarra drykkjarfanga, íss og svo framvegis. Bara þangað!
Það var frábær þjónustan og viðmótið. Svo ef þú ert að fara til Viareggio þá mæli ég með Lido Pinocchio.




Því verður ekki neitað sumir hafa fylgst svolítið með HM í Moskvu sem var á lokasprettinum þegar við vorum í Viareggio.
Þar kristallaðist  aftur og aftur réttlæti knattspyrnunnar sem verður aldrei að betra liðið vinni, það lið sem er meira með boltann vinni og svo framvegis. Þar ríkir eingöngu eitt réttlæti. Sá sem skorar og skorar fleiri mörk en mótherjinn vinnur. Punktur.

Reynar færðust leikar upp um nokkrar hæðir þegar við komum til Brussell því við horfðum á bronsleik Belga og Englendinga á La Marche Chatelain torgi ásamt stórum hópi sem var í miklu stuði með sína menn (Belga). Ég varð að viðurkenna að ég héldi jafn mikið upp á bæði þessi lið og gæti því illa gert upp á milli þeirra en Belgar náðuð verðskulduðum sigri og hrepptu því bronsið.

Vídeóið er frá því er Fransmenn skoruðu úr umdeildu víti

Svo fórum við aftur á sama torg daginn eftir og horfðum á Frakka og Serba takast á í sögulegum úrslitaleik. Aftur var ég í vanda því mér var eiginlega jafn illa við bæði liðin til að langa til að halda upp á annaðhvort frekar en hitt...
 
Ég naut þess bara að horfa á tvo leiki í beit þar sem ég var sultuslakur.
Fagnaðarlæti stuðningsmanna Frakka voru einlæg í leikslok og mikil stemming á torginu þegar verðlaunin voru afhent!


Núna standa fyrir dyrum flutningar hjá Ástu Sigrúnu og svo heimferð svo það er ekki ljóst hvenær næst gefst tími í blogg svo við segjum bara
Au revoir, arrivaderchi, we'll meet again og allt það!






Engin ummæli:

Skrifa ummæli