5.7.18

Spennusveiflur og símamál?

Eftir allt kirkjuplampið var kominn tími á jarðbundnari mál. In vino veritas - in birra something else.
Eftir smá stopp var stefnt heim í fataskipti og svo reynt að ráða í  hvar skyldi borða. Óneitanlega togaði leikur Kólumbíú og Englands í mig. Ég er búinn að vera ofsalega þægur...
Leikurinn var langt kominn í seinni hálfleik þegar við settumst niður hjá Mariani, inn í gamlan bíósal og horfðum á.
Smá útúrdúr.
Fyrsta kvöldið okkar snæddum við hér. Frábæran mat og frábær þjónusta.
Við leituðum annað kvöldið en einhvern veginn æxlaðist svo að þjónninn góði frá kvöldinu áður vinkaði okkur og við snæddum þar öðru sinni - ekki síðra.
Þriðja kvöldið fórum við annað - af prinsípp ástæðum. Allt í góðu - ekkert ofurspes.
Svo við akváðum að slást í hóp aðdáenda Kólumbíu og fylgdumst með lokum seinni hálfleiks, framlengingu og vítakeppni sem England vann.
Ég held að við höfum aldrei borðað þrívegis á sama stað á ferðalagi. Ekki einu sinni veturinn 2003-4.
Gengum í að pakka þegar við komum heim og svo var snemma upp til að koma okkur í lest til Síena.
Við pöntuðum bíl. Það tók lengri tíma held ég að lesta hann og aflesta en að aka upp á stöð. En við erum með mánaðarfarangur svo það að ganga í tíu - fimmtán mínútur í akandi umferð var out of the question.
Lestarferðin gekk vel NEMA Sigga var viss um að lestin frá Flórens til Síena væri að fara allt annað. En það lagaðist.
Hitt var verra. Þegar lestin (sú sama) var langt komin kom starfskona lesltarinnar og ruddi öllum af stað þar sem loftkælingin var biluð. Henni lá svo á að við rukum upp til handa og fóta og Sigga lagði símann frá sér ofan á ferðatösku. Við fórum eftir fyrirmælum konunnar nema þar sem ég stóð akkúrat á milli lestarvagna heyrði ég eitthvað detta, fann það detta á tærnar á mér og sá þetta eitthvað fasra niður um gat í gólfinu niður á lestarteinana. Síminn minn hugsaði ég og get ekki lýst því hvað mér létti og hversu hryggur ég var þegar við komumst að því að þetta var ekki minn sími heldur Siggu.
Við renndum inn á Síena sentrale, Sigga hálf handalaus. Við leituðum af okkur allan grun og kölluðum hálf hnuggin á taxa.
Hótel Italía? I know it well.
Vegalengdin er hugsa ég heldur lengri en á milli Lyngbergs 17 og 25...
Vel tekið á móti okkur, herbergið snilld og flaska af Spumante frá Feneyjum, þvílíkt gæðaöl.
Við útveguðum nýjan síma með ítölsku númeri og nú er allt að komast í samt lag.
Klukkan að verða átta - Sigga - getum við farið að borða?
Ég tek undir með GM sem lagði það til að frú Sigriður fengi sér svona gormasíma eins og lyklakippurnar sem dragast saman um leið og á þeim er slakað.
Alla vega er ljóst að knattspyrnudrengir geta lifað af í helli neðanjarðar í rúma viku en símalaus getur maður ekki verið og ég held það myndi eiga við mig!
Við fengum okkur rómantískan málsverð í einni af þröngum götum þessarar borgar þar sem saman fara strætisvagnar, bílar, mótorhjól, reiðhjól, gangendur og utandyra kaffihús.
Og ís á bakaleiðinni sem var stærri en við reiknuðum með.
Alltaf að læra.

 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli