Ég hef verið að lesa mér til um hugmyndir manna um læsi og lestur í samtímanum. Í nýjasta hefti Educational Leadership (mars 2009, 66. árg. 6. hefti) er fjöldi fróðlegra greina um málið.
Þar er t.d. fjallað um afritunarhyggju (plagiariansim), hvernig verði að efla siðferðiskennd nemenda, draga fram lífsgildi, kenna fólki raunverulega netleit og að útbúa raunverulega útdrætti.
Þar eru greinar sem fjalla um þann veruleika sem nemendur stunda í netheimum,- þrautir, sýndarveruleika og tilbúna heima en auk þess veðmál.
Þeir benda á að það þurfi að kunna að vinna með veftexta (hypertext), kunna að rita læsilegan texta, geta skilið texta og vita hvernig stíla eigi texta fyrir ólíka hópa lesenda.
Bent er á að lestrarumhverfi unglinga hafi færst frá texta á pappír yfir í margmiðlun (mynd, hreyfimynd, power point o.s.frv.). Þetta þurfi að vinna með. Þá þurfi að leggja áherslu á ritun og textavinnu, t.d. með bloggi. Það þurfi að blanda hefðbundnu læsi og margmiðlun. Það þurfi að láta nemendur æfa sig í frásögn og skýrslugerð. Þau þurfi að líta á læsi sem félagslega aðgerð. Það þurfi að deila með öðrum upplifuninni af því að lesa bækur og texta. Það þurfi að þróa læsi m.a. út frá rafrænum tækjum og miðlum. Og loks að það verði að þjálfa upp gott læsi (fluency).
Í samfélagi þar sem nemendur sitja og sinna mörgum hlutum í einu (lesa/hlusta/horfa/tala) auk þess að senda skammstafaða texta í sms skilaboðum getur skólinn valið milli þess að nota tæknina eða láta eins og hún sé ekki til. Þau eru með í vasanum öfluga minnisbanka, upptökutæki og jafnvel myndavélar sem eru í senn fyrir ljósmyndir og hreyfimyndir. Þau geta geymt t.d. hljóðbækur á tónhlöðunum, geta tekið viðtöl, kvikmyndað aðstæður og umhverfi o.s.frv.
Að mínu viti á að vinna með vandamálin/verkefnin en ekki láta eins og þau séu ekki til.
Eða hvað?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli