Sigga mín kann að setja inn myndir en ekki hann ég. Það er eins gott því þá myndi verða sett fram krafa um að sýna kíkinn minn nýja.
Í albúmi á Melhaga 8 er til mynd af mér ca. 12 ára með feykna glæsilegt glóðarauga og undir stendur að ég sé með kíki. Ég náði mér í annan kíki í gær - þann fyrsta í 40 ár.
Þannig var að ég var að hlaupa á páskadag, rétt lagður af stað, búinn að hlaupa út í gegnum Krikann, út á Keflavíkurveg og yfir og svo út á stíginn við Álfaskeið. Þokkalegur skriður á karlinun, undan brekku og kominn niður fyrir undirgöngin við Risann. Þá lá á vegi mínum plastbandshringur, svona flatt, hvítt band og ég þurfti vitaskuld að reka tánna í hringinn, sem sporðreistist. Vinstri tá á bandi, hringur upp, hægri fótur krækir í hring og viti menn hlaupakóngurinn hraðskreiði breyttist í fljúgandi furðuhlut, tókst á loft, lagðist láréttur og lenti með höfuðið á undan á Íslandi, farsælda Fróni. Sem betur fer fór ég á fluginu út af gangstígnum svo ég rann eftir mel/grastói samsíða stígnum. Sjálfsagt rak ég upp gól, eitthvert bland af neyðarópi og karlmennskulegu stuðhrópi, en lokaði munninum áður en hann fylltist af fósturjörðinni. Ég lenti á gleraugunum vinstra meginn, setti fyrir mig hægri hönd og fannst ég lenda fagmannlega á maganum. Ég reikna reyndar með að ef einhver áhorfandi hafi verið þá hafi viðkomandi séð hlussu hlunkast á nefið.
Það varð ekki stórslys. Gleraugun skáru kinnina og í morgun, annan í páskum, sá ég varla fram fyrir mig fyrir bólgunni sem myndar kíkinn. Lófinn rispaður og sálin kramin.
Það er þó þakkarvert að konan mín, heittelskuð, en við fögnum 31 árs brúðkaupsafmæli 15. apríl næstkomandi, hné niður af hlátri,- þegar hún, að sögn, var búin að ganga úr skugga um að ég væri ekki stórslasaður. Bara smá.
En ég fór 7 km í dag - og datt ekkert! Var almættinu illa við að ég hlypi á Páskadag? Setur það mig láréttan á upprisuhátiðinni?
Bara segi svona...
Það var vont að þú meiddir þig pabbi minn- vona samt að þú getir skellt þér sem fyrst aftur á hlaupin- þú verður bara að vera "on the look out" varðandi helv. moggapakkningarnar! Konan þín kann sko að hlúa að slösuðu fólki- eftir ummönunina þarf maður svo bara að gefa henni sirka klukkutíma til að ná hláturskastinu niður! haha!
SvaraEyða