Formaður skólanefndar, skólameistari, útskriftarnemendur, samstarfsmenn og góðir gestir.
Mér var falið hér í dag að ræða lítillega um þær tengingar sem Flensborgarskólinn hefur út í samfélagið, eiginlega rótfestu okkar og það um hvað starfið hér snýst. En ég leyfi mér að byrja á því að ræða um Örn Arnarson, skáld.
Örn Arnarson ætti að vera ofarlega í hugum Flensborgara. Hann varð gagnfræðingur frá skólanum 1908, kennari frá Kennaraskólanum ári síðar 25 ára gamall. Kórinn okkar frumflutti lag við ljóð hans um sköpun mannsins, síðastliðinn miðvikudag á frábærum tónleikum en það verður sungið hér á eftir og eftir helgi sem hluti af glæsilegri dagskrá á nokkrum stöðum frá Eskifirði til Klausturs.
Hann orti líka:
„Hamarinn í Hafnarfirði
horfir yfir þétta byggð,
fólk að starfi,
fley, sem plægja
fjarðardjúpin, logni skyggð“
Þar segir einnig að á hamrinum sé:
„þögult tákn um þroska lýðsins:
þar er hæð sem fyrr var lægð.“ (Hamarinn)
Hann orti einnig um skólavist sína og sagði m.a.
„En menntunin verður ei heil né hálf,
ef hugsið þið eigi og skapið sjálf,
hve margt sem þið lesið og lærið.“
Örn orti ljóðið við skólasönginn okkar sem við heyrðum í upphafi athafnarinnar. Það er þrjú erindi, kórinn syngur jafnan hið fyrsta og það þriðja en í öðru segir um sr. Þórarinn Böðvarsson, stofnanda skólans, að hann hafi treyst á „fjöldans frama“, menntun alþýðunnar.
Ástæða þess að ég rifja þetta upp er sú að við höfum verið að vinna heilmikið í að skoða skipulag skólans og verður þeirri vinnu haldið áfram næsta skólaár. Á mánudag og þriðjudag setjumst við yfir þetta mál af sérstökum þunga og vonandi fáum við úr þeirri vinnu góð gögn. Annars er ekki að vænta. Þegar sú vinna fer fram þurfum við einmitt að spyrja okkur um það sem við gerum vel sem og það sem þarf að bæta. Á sama tíma þurfum við að huga að þeim hugsjónum sem skólinn okkar byggir á. Hann er til að byggja upp fjöldans frama.
Þetta markmið stendur þó skólinn hafi flutt sig úr Flensborgarhöfn upp á Hamarskotstún og hús hans hér verið aukin og endurbætt. Hús geta breytt aðstæðum til skólastarfs. Það eru þó önnur öfl sem breyta skólastarfi.
Það er afskaplega merkilegt að þegar farið er yfir sögu félagsstarfs og menningar hér í bæ þá koma nemendur og starfsmenn skólans víða við í liðlega 125 ára sögu hans. Skólinn virðist alltaf hafa leikið margþætt hlutverk og gerir enn.
Eins og sjá má við hverja útskrift er stærsti hópurinn nemendur sem stefna til stúdentsprófs. Auk þeirra eru nemendur sem útskrifast af starfsbraut og nemendur sem útskrifast af sérsviði fjölmiðlatækni. En það er margt annað á ferð. Á miðvikudag var útskrift í Fjögreinadeild, sem er samstarfsverkefni Flensborgarskólans, Iðnskólans, Lækjarskóla, Hafnarfjarðarbæjar og menntamálaráðuneytis. Þar er á ferð kraftmikill hópur sem mun að hluta til koma hingað í áframhaldandi nám og að hluta til halda annað. Fjölgreinadeildin er angi af áralöngu samstarfi við grunnskóla. Annar angi er fjarnám sem stendur til boða nemendum í níundu og tíundu bekkjum grunnskóla Hafnarfjarðar og um 70 krakkar þáðu í vetur. Þá erum við í margvíslegu öðru samstarfi við grunnskóla. Við störfum náið með félagsþjónustunni og við vinnum með Miðstöð símenntunar, Deiglunni og með Starfsendurhæfingu Hafnarfjarðar en þar fer fram atvinnuleg endurhæfing og gengur vel.
Við erum í samstarfi við Tónlistarskólann og hingað sækir tónlistarfólk vegna kórsins og vegna nálægðarinnar við Tónlistarskólann. Kórinn sinnir svo ekki einvörðungu okkar andlegu vellíðan. Hann er á ferð um landið og heiminn, en kannski mest um bæinn og mun m.a. taka þátt í Björtum dögum, venju fremur. Við erum að reyna að byggja upp foreldrastarf við skólann og ég get upplýst að við þurfum að ganga í smiðju Hrafnhildar því foreldrar kórfélaga eru hreint kraftaverkafólk. Hvernig fer hún að þessu?
Íþróttastarf hefur jafnan verið aðalsmerki skólans. Margir af helstu íþróttamönnum Hafnarfjarðar (og þar með Íslands) hafa verið hér eða eru. Við vinnum með ÍBH og mörgum félögum eða deildum þeirra bæði vegna verkefna þeirra en einnig í gegnum íþróttasvið og íþróttaafrekssvið skólans sem nú rúma um 100 ungmenni, en einhver þeirra útskrifast í dag eftir þriggja ára nám. Þetta samstarf hefur gefið okkur mikið ekki síst í skólabrag. Haukarar hafa gengið eilítið sperrtari að undanförnu sem og Sundfélagsstrákar og spurning hvor FH-ingar verði jafnhnarreistir í haust og þeir voru í fyrra. Það verður þó ekki annað sagt en að íþróttaandinn er góður í hópnum og þó menn sperri stél og jafnvel nái í fjölmiðla á ögurstundum þá berast átökin ekki út af keppnisvellinum hjá þessu góða fólki.
Ég vil nefna samstarf við Gamla bóksafnið, hinar ýmsu stofnanir bæjarins, ómældan stuðning bæjarins við okkar starf, verkefni eins og útsendingar bæjarstjórnarfunda, þáttagerð og margt fleira.
Eitt verkefnið að lokum er nýbúaútvarpið en útsendingar þess ná frá Akranesi til Keflavíkur. Það er í mínum huga merkilegt framtak þar sem gríðarlega öflugur alþjóðlegur hópur hefur unnið saman að upplýsingamiðlun og afþreyingu fyrir það góða fólk sem hingað kemur og litar tilveru okkar með siðum og listum hvaðanæva að úr heiminum.
Þannig má lengi telja. Samstarf innanbæjar, milli sveitarfélaga og landa. Á miðvikudag kom hópur nemenda og kennara úr ferð til Danmerkur svo nokkuð sé nefnt. Og loks samstarf við háskóla.
Í skólanum okkar er margbrotinn hópur fólks við nám. Þó svo að segja megi að langstærsti hópurinn sé búsettur í Hafnarfirði þá koma þau frá liðlega 50 grunnskólum eða skólum hér á landi og erlendis. Sum eru spretthlauparar og fara í gegn á ógnarhraða en önnur taka þetta úthaldinu. Þá eru mörg sem nota okkur sem stökkpall til nýrra möguleika, bæði fyrir og eftir formleg próflok. Undanfarin ár hafa nemendur sem héðan útskrifast leitað tækifæra víða, heima og erlendis. Íþróttamenn, verkfræðingar, tónlistarmenn, vísindamenn, kvikmyndargerðamenn, rithöfundar, bæjarstjórar, þingmenn og svo má lengi telja.
Flensborgarskólinn er margbrotin skepna og verður það áfram. Við finnum vaxandi athygli utanfrá eftir að hafa verið „þögult tákn.“ Þó grunngildin hafi haldist þá hefur afskaplega margt breyst í starfi okkar og umhverfi. Það verður gaman að sjá hvað við viljum varðveita og hverju við viljum breyta. Vonandi verða menn ekki með orð Kristjáns Jónssonar í huga þegar hann sagðist vilja vera „Ararats på høje tinde, hvor man ingen bog kan finde“. En líklega er rétt að hafa í huga orð Arnar Arnarsonar um að skólinn eigi að efla vorhug fólksins með „frjálsri hugsun, háum kröfum, heitri vaxtarþrá“.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli